The Macallan: skoskt viskí eins og þau gerast best

Skömmu fyrir síðustu aldamót hófst hálfgerð gullöld viskísins um víða veröld hvað vinsældir varðar meðal tegunda af sterku áfengi og nú til dags er hægt að fá prýðisgott viskí frá hinum ýmsu löndum heims. Upprunaland viskís er eftir sem áður Skotland, svæðið í Skotlandi sem flestir horfa til í leit að hinum gylltu goðaveigum eru Hálöndin svokölluðu, og sá hluti Hálandanna sem geymir flestar af bestu viskígerðunum er svæðið sitt hvorum megin við ánna Spey, hið svokallaða „Speyside.“  Eitt þekktasta virtasta viskíhúsið af þeim öllum er svo The Macallan, þar sem margar af dýrustu og eftirsóttustu viskítegundum heims verða til.

 

 

Þar sem frjósamur jarðvegur og írskur munkur koma saman …

Nafnið, The Macallan, er þannig tilkomið það er upprunalega samsett úr forn-gelísku orðunum magh annars vegar, sem merkir frjósamur jarðvegur, og svo ellan, sem dregið er af heilögum Fillan, sem var írskur munkur sem ferðaðist um Skotland þvert og endilangt til að boða kristna trú á 8. öld. Úr þessum tveimur orðum var til Maghellan, heitið á landareigninni og það þróaðist yfir í The Macallan. Ef einhver er hins vegar að velta því fyrir sér hvaðan orðið whisky er komið þá er það aftur á móti algerlega á hreinu. Uppruni þess liggur skiljanlega sömuleiðis í forn-gelísku; aqua vitae, sem er latneska yfir lífsins vatn, útleggst er uisge beatha á gelísku og fyrri hlutinn varð með tímanum „whisky“.

 

 

Sama heimilið frá upphafi vega

Saga The Macallan er dável skrásett og liggur meðal annars fyrir að það hefur verið í stöðugri framleiðslu allt frá árinu 1824. Það var árið þegar kennari nokkur að nafni Alexander Reid, sem ræktaði bygg í hjáverkum, ákvað að setja viskígerð á laggirnar. Hann átti ekki langt að sækja þann áhuga því bændur á svæði höfðu öldum saman lagað viskí úr umframuppskerunni, sem gat komið sér vel til að eiga yfir vetrarmánuðina. Frá upphafi sinnar sögu hefur The Macallan átt varnarþing sitt og heimili í fallegum herragarði, Easter Elchies House, sem stendur við bakka ánnar Spey. Þó húsakostur framleiðslunnar og yfirbygging sé í dag talsvert umfangsmeiri gætir fyrirtækið þess að standa vörð um sögu sína og arfleifð og gleymir ekki upprunanum. Easter Elchies House, sem reist var árið 1700, er enn þann dag í dag það sem kallast „The Spiritual Home of Macallan.“

 

 

Hvernig er best að njóta The Macallan?

Hér í eina tíð þóttu það helgispjöll að drekka úrvalsviskí á borð við The Macallan með neinum öðrum hætti en ósnortið beint úr flöskunni. Það stendur auðvitað alltaf fyrir sínu að dreypa á vönduðu viskíi óblönduðu og víst er að margir kjósa að hafa þann háttinn á. En þessi harðlínustefna hefur verið á undanhaldi hin seinni ár, sumpart vegna hinnar miklu bylgju handverkskokteila sem tröllriðið hefur barsenunni upp á síðkastið.

 

 

Einn ísmoli, lögg af vatni eða bara ekki neitt

Auk þess er smekkur manna misjafn á það hvernig best er að njóta viskís og hér gildir að í raun er ekkert sem heitir rétt eða rangt í þessum efnum. Ef þú átt viskíið í glasinu ræður enginn nema þú hvernig þú kýst að njóta þess. Best er bara að prófa sig áfram og dreypa á því óblönduðu, þá með nettri skvettu af svölu vatni, og loks með einum ísmola. Viskíið breytir talsvert um svip eftir því hvaða háttur er hafður á af framangreindu, og það sem þér finnst best er einmitt rétta leiðin fyrir þig að njóta The Macallan.

 

 

En ef mig langar í bita með?

Öndvegisviskí á borð við The Macallan er ekki endilega það fyrsta sem fólki kann að detta í hug til að para með mat, en þó er alls ekki fráleitt að hafa einhvern vel valinn matarbita á kantinum þegar hinn dýrindis vökvi glitrar í glasinu. Merkilegt nokk þá passa margar gerðir  osta hreint glettilega vel með viskíi, allt frá kremuðum brie til hins vaxkennda primadonna. Súkkulaði er að flestra mati syndsamlega gott maul með vönduðu viskíi, ekki síst úrvalssúkkulaði í dekkri kantinum og þá með háu kakóbaunainnihaldi. Þá er tilvalið að setja sæta ávexti með frekar mildu bragði á disk til að hafa með viskíinu. Þarna er algengast að bjóða upp á vel þroskuð gul epli og perur. Gallsúr græn epli og sítrusávexti er aftur á móti betra að láta kyrra í þessu sambandi því sýran í þeim sker um of í bragðið af viskíinu og skemmir, eða hreinlega yfirgnæfir það alfarið.

 

 

The Macallan og grunnstoðirnar sex

Það er til marks um metnaðinn hjá viskíhúsi The Macallan að fyrirtækið hefur skilgreint sex grunnstoðir sem saman eru ástæður þess hve mikið yfirburðaviskí The Macallan er.

Að endingu skal látið hér fylgja með hverjar þær eru, lesendum til fróðleiks:

1. Heimilið – Easter Elchies House. Þar sem hið víðfræga viskí varð til fyrir 190 árum síðan – þar sem hjartað slær.

2. Óvenju litlir eimarar – ástæða þess hve margslungið, flauelsmjúkt og ávaxtaríkt viskíið er.

3. Úrvalseiming – aðeins 16% af vökvanum sem verður til við eiminguna fær að fara á eikartunnur til að þroskast og verða að viskíi. Það besta af því besta.

4. Afburða eikartunnur – The Macallan leggur meira upp úr að finna, smíða og þroska eikartunnurnar sínar en nokkur annar viskíframleiðandi.

5. Náttúrulegur litur – hinn margslungni litur viskíanna frá The Macallan kemur aðeins og eingöngu úr viðnum sem er að finna í áðurnefndum eikartunnum. Litarefni eru aldrei notuð.

6. Viskíið sjálft – The Macallan, hið óviðjafnanlega viskí, eitt af öndvegisviskíium heimsins.

Að endingu verður ekki hjá því komist að kenna viðstöddum hvernig á að bera sig að þegar kemur að því að lyfta glasi með skosku öndvegisviskíi, og segja „skál!“ á gelísku. Það er gert með því að segja Slàinte mhath (borið fram „slandsja var“) en það þýðir „skál fyrir heilsu þinni!“.

 

The Macallan Triple Cask Matured  12 ára

Lýsing: Ljósrafgullið. Ósætt. Þurrkaðir ávextir, leður, létt reykt eik, vanilla. Heitt eftirbragð.

Styrkleiki: 40%

Verð: 12.499 kr.

Fæst í Vínbúð.

The Macallan Double Cask 12 ára

Lýsing: Gullið. Ósætt. Malt, tunna, blómlegt, vanilla. Rúsínur, karamella. Langt heitt eftirbragð.

Styrkleiki: 40%

Verð: 12.499 kt.

Fæst í Vínbúð.

The Macallan Rare Cask Batch No. 1

Lýsing: Mahony rautt. Ósætt. Tunna, vanilla, súkkulaði, sítrus. Langt heitt eftirbragð.

Styrkleiki: 43%

Verð: 34.999 kr.

Væntanlegt í Vínbúð 1. desember.

The Macallan Triple Cask Matured 18 ára

Lýsing: Gullið. Ósætt. Flauels mjúkt, appelsínu súkkulaði, vanilla, reykt eik.

Styrkleiki: 43%

Verð: 34.999 kr.

Hægt að sérpanta í gegnum Vínbúðina.

The Macallan Fine Oak Single Malt 21 ára í trékassa

Lýsing: Rafgullið. Ósætt. Bourbon eik, sítróna, mjúkur kryddaður reykur.

Styrkleiki: 43%

Verð: 52.999 kr.

Hægt að sérpanta í gegnum Vínbúðina.

The Macallan Reflexion

Lýsing: Gullið. Rúsínur, epli, kanill, engifer. Ristuð eik, mjúk áferð. Langt heitt eftirbragð.

Styrkleiki: 43%

Verð 124.999 kr.

Væntanleg í Vínbúð 1. desember.

Post Tags
Share Post