Salvaje: frábær viðbót við lífrænu vínin frá Emiliana í Chile

Eins og glöggir lesendur Vínó vita höfum við áður fjallað um Emiliana víngerðina í Chile og úrvalsvínin sem þar eru framleidd. Má þar nefna hið geysivinsæla COYAM og svo Adobe Reserva línuna. Vínin frá Emiliana hafa skapað sér nafn og sérstöðu á heimsmarkaði fyrir lífræna ræktun, vinnslu þar sem umhverfið sem og samfélagsleg gildi eru í hávegum höfð og sem valkostir fyrir þá sem kjósa vegan vín. Rauðvínið Salvaje frá Emiliana tikkar í öll þessi box og er að auki framúrskarandi gott vín sem hlotið hefur frábæra dóma hjá mörgum af virtustu vínsmökkurum heims. Þar á meðal er sjálfur James Suckling sem gaf 2019 árgangnum hvorki meira né minna en 94 punkta.

 

Salvaje er unnið úr þrúgunum Syrah og Rousanne, ræktuðum í Casablanca-dalnum í Chile. Vínið er dimmfjólublátt á lit, nánast djúpblátt. Salvaje 2021 er strax tilkomumikið í nefi þar sem fléttast saman nótur af dökkum berjum og hvítum blómum. Í munni eru brómber, bláber og jafnvel má greina engifer. Góð fylling með silkimjúkri áferð og mátuleg sýrni sem gefur gott eftirbragð.

2021 árgangurinn af Salvaje endurspeglar bæði eitt albesta árið hvað varðar loftslagsskilyrði til víngerðar í Casablanca-dalnum og um leið ötult starf víngerðarteymisins hjá Emiliana, stærstu lífrænu víngerð heims. Fyrir bragðið er mikill áhugi fyrir Salvaje sem kemur úr hinu svala loftslagi Casablanca-dals, með traustum Syrah-grunni og snert af Roussane-þrúgum. Áhuginn kemur ekki á óvart enda hefur Noelia Orts, víngerðarmeistari Emiliana, lýst árgangnum sem „stórkostlegum.“

„Þroskaferli árgangsins var hægt, samfara frísklega svölu hitastigi. Þessi skilyrði hafa hjálpað okkur að fá þrúgur í góðu jafnvægi með góðri sýru, ávaxtakeim og mjúkum tannínum. Allt við þrúgurnar er í góðu jafnvægi vegna þessara loftslagsskilyrða,“ segir Orts. 

Einn af eiginleikum Salvaje sem ljá því sérstöðu er að vínið inniheldur ekki viðbætt súlfíð. Í víngerð eru súlfíð nýtt sem rotvarnarefni. Með því að sleppa því í Salvaje er strax kominn eiginleiki sem aðgreinir vínið frá öðrum með því að framleiða vínið að öllu leyti á náttúrulegan hátt. 

„Salvaje er fíngert vín og um leið án allrar tilgerðar,“ segir Noelia Orts þegar hún lýsir víninu. „Það endurspeglar fullkomlega sinn upprunastað. Þegar ég segi að það sé án tilgerðar þýðir það bara að í því felast engin inngrip frá okkar hendi. Það inniheldur eingöngu gerjuð, lífræn vínber og ekkert annað. Það hefur ekki einu sinni verið látið geymast í viðarámum og er því ekki eikað. Útkoman er mjög ávaxtaríkt og aðgengilegt vín.“