Rósavínin okkar í sumar
Sumarið er kjörtími rósavínanna en þau búa yfir þeim eiginleikum að vera frískleg og henta vel í sólinni en einnig eru þau ágætis matarvín. Léttir réttir eru þá yfirleitt fyrir valinu, fiskur og bragðmikil salöt. Rósavín henta líka einkar vel með ýmsu grænmeti. Bakkar fullir af skinku, bragðgóðum pylsum og ostum af ýmsum tegundum henta til dæmis vel með þurru og fersku rósavíni. Á meðan milli sæt rósavín parast vel með sushi og sterkum mat, eins og tælenskum og kínverskum. Grillaður lax hentar líka afar vel með rósavíni. Það er bara um að gera að prófa sig áfram og svo má ekki gleyma því að rósavín er líka gott að drekka eitt og sér.
Hérna eru nokkrar vinsælar rósavínstegundir hjá okkur sem við mælum með að þið prófið í sumar.
Adobe Rose Organic
Víngarðurinn segir;
Yfirhöfuð hef ég verið afar ánægður með lífrænu Adobe-línuna frá víngerðinni Emiliana í Chile og þótt þetta séu eftilvill ekki persónulegustu og flóknustu vínin á markaðnum, þá eru þau heilbrigð, vel gerð og síðast en ekki síst, býsna vel prísuð. Adobe-rósavínið hefur verið í hillunum í nokkur ár og, sem betur fer, þá hefur það alltaf verið eitt af þeim vínum þar sem nýjasti árgangurinn er í boði um leið og hann kemur á markað, sem ég kann vel að meta. Það er upprunið í Rapel-dalnum og blandað úr þrúgunum Shiraz og Cabernet Sauvignon (sumar heimildir nefna að það sé einnig eitthvað að Merlot í blöndunni, en það er óstaðfest) og hefur fölan, silungableikan lit sem minnir meira á hin ljósu rósavín frá Provence fremur en hin þéttu rósavín frá Spáni og Ítalíu. Það hefur meðalopinn ilm af jarðarberjum, peru, sætri sítrónu, mangó, papaya, þroskuðum ananas og feitum vaxtónum. Það er svo meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt með fínt jafnvægi og endingin er merkilega góð. Það er ákaflega auðdrekkanlegt með sumarlegan keim af jarðarberjum, rauðu greipaldin, ananas, peru, soðnum eplum, sítrónu og búttuðum vaxtónum. Alveg hreint afbragðs rósavín sem hefur það mikinn kjarna að það ræður við allskonar mat; puttamat, flesta forrétti, salöt, feitan fisk, ljóst fuglakjöt, sushi og jafnvel rautt kjöt. Svo er það alveg sérlega gott bara eitt og sér sem lystauki. Það verður svo að geta þess að þetta vín fæst líka í kassa og þótt ég hefi ekki smakkað það í þetta sinn er óhætt að mæla með því líka. Svona ljúffengt rósavín sem er líka svona vel prísað kemst mjög nálægt því að vera bestu rósavínskaupin um þessar mundir. Það er ykkar að dæma.“
Adobe Rose kassavín
Vinotek segir;
„Við fjölluðum nýlega um rauða, lífrænt ræktaða kassavínið frá Adobe í Chile og hér er komið rósavínið í sömu seríu. Rétt eins og hið rauða er þetta afbragðsgott vín af kassavíni að vera. Berja- og ávaxtamikið, sæt rifsber og rauð vínber (já stundum finnur maður lykt af þeim í víni), örlítið grösugt, appelsínubörkur. Ágætlega þurrt og ferskt.“
Muga Rosado
Víngarðurinn segir;
„Mörg undanfarin ár hefur rósavínið frá Muga verið eitt það besta sem við höfum reglulega aðgang að og nú er sem betur fer kominn nýr og sprikklandi ferskur árgangur af þessu vandaða rósavíni. Það er því full ástæða til að verða sér útum nokkur gler til að gæða sér á næstu mánuðina. Ég hef nokkrum sinnum bent á að, alla jafna, þá séu rósavín langbest um leið og þeim er tappað á flöskuna og síðan haldi þau ferskleikanum í nokkra mánuði áður en leið þeirra liggur (stundum mjög hratt) niður á við. Sum rósavín eru reyndar undrafljót að tapa þeim sjarma sem maður sækist eftir og því ættu neytendur alltaf að velja nýjasta árganginn sem í boði er og innflytjendur ættu að sama skapi að sjá sóma sinn í því að bjóða ekki uppá tveggja eða þriggja ára gömul rósavín, einsog maður hefur reglulega fundið fyrir. Einstaka vönduð rósavín halda samt sem áður ferskleikanum í allt að tvö ár eftir uppskeru og Muga Rosado er eitt slíkt vín.
Það er blandað úr þrúgunum Tempranillo, Garnacha og Viura en sú síðastnefnda er auðvitað hvít þrúga, enda er rósavínið frá Muga fjarri því að vera í hinum „hefðbundna“, spænska rósavínsstíl. Hefðbundin rósavín frá Spáni eru nefnilega mjög litmikil að jafnaði (sum nánast einsog þétt Pinot Noir) og oftast gerð úr „feitum“ þrúgum líktog Garnacha á heitum svæðum einsog Navarra (sem til skamms tíma var nánast bara þekkt fyrir að framleiða rósavín fyrir spænskan sumarhita). Hinsvegar er Muga Rosado ansi ólíkt þessu, með ljós-laxableikan lit og nokkuð opna og sætkennda angan þar sem finna má jarðarber, hindberjasultu, melónu, þroskaða peru, kokteilber og rifsber. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þurrt, ferskt og sýruríkt með frábært jafnvægi og töluvert langt bragð. Þarna eru hindber, fersk kirsuber, jarðarber, sæt sítróna, pera, melóna, rautt greipaldin og rifsber. Virkilega fínlegt og flott rósavín með kjarnmikinn ávöxt en þó svo léttleikandi að það er ekkert mál að hafa það eitt og sér á undan matnum. En þetta er fyrst og fremst vín til að hafa með mat. Prófið það með bragðmiklum forréttum, tapas, puttamat, ljósu fuglakjöti, léttu pasta eða salötum. Þetta vín þolir býsna kryddaðan mat.“
Cune Rosado
Vinotek segir;
„Rósavínið frá Cune hefur nokkuð mikinn rauðbleikan lit en Tempranillo-þrúgurnar (þetta er Rioja-vín eins og önnur vín Cune) eru látnar standa í tanki í á annan sólarhring til að taka á sig lit úr hýðunum áður en safinn er síaður frá. Í nefinu fyrst og fremst sætur rauður ávöxtur, jarðaberjamarmelaði og rautt hlaupnammi, milt, þurrt og með ágætri sýru. Mjög góð kaup. Með grilluðum kjúkling eða grilluðum laxi.“