Mazzei: klassavín frá Chianti Classico

Þegar vínáhugafólk og aðrir sælkerar virða fyrir sér vín sem ekki hefur verið prófað áður, þykir ávallt traustvekjandi atriði að framleiðandinn hafi verið lengi í bisness. Hafi víngerð haldist í rekstri í áratugi – hvað þá árhundruð – þá er viðkomandi væntanlega að gera eitthvað rétt. Þetta er sannarlega tilfellið með ítalska víngerðarhúsið Mazzei, sem býr að geysilangri og samfelldri sögu víngerðar í Chianti-hluta Toskana-héraðs og er að sönnu sérstaklega áhugavert, bæði fyrir magnaða sögu en vitaskuld helst fyrir framúrskarandi vín.

Sagan hefst í Fonterutoli

Til er skjal, dagsett 1398, þar sem forfaðirinn Ser Lapo Mazzei staðfestir kaup á sex tunnum af chianti-víni. Tæpum fjörutíu árum síðar gerist það svo að ung frænka Ser Lapei, kona að nafni Madonna Smeralda, giftist aðalsmanninum Piero di Agnolo da Fonterutoli. Þar með hefst víngerðarsaga Mazzei-fjölskyldunnar. Tæpum sex hundruð árum og 24 kynslóðum síðar er staða Mazzei víngerðarinnar traustari en nokkru sinni og enn þann dag í dag slær hjartað í Castello di Fonterutoli, þó tvær aðrar viðamiklar vínekrur séu í ræktun og framleiðslu undir merkjum Mazzei; annars vegar Belguardo í Maremma-hluta Toskana, og hins vegar Zizola í Noto á Sikiley.

Virðing fyrir landinu sem og handverkinu

Óþarfi er að tíundi sögu Mazzei gegnum aldirnar, þar hefur hver kynslóð fjölskyldunnar á fætur annarri ræktað garðinn sinn – ef kalla má víðfeðmar vínekrurnar „garð“ – og búið til vín sem hefur átt sinn þátt í að skapa Chianti nafn sitt og orðspor sem frægasta vínræktarhérað Ítalíu. Frá fyrstu tíð hefur það verið leiðarljós ættarinnar við víngerðina að laða fram það besta í vínviðnum, undirstrika staðbundin sérkenni og koma fram við landið af einlægri virðingu, því að öðrum kosti fáist ekki besta mögulega vínið úr ræktuninni. Maður uppsker jú eins og maður sáir til og uppskeran er hreint ekkert slor. En það kostar vissulega töluverða fyrirhöfn.

Náttúruleg nálgun, sjálfbær framleiðsla

Ekki einasta er þess vandlega gætt að rakastig jarðvegsins sé ávallt í jafnvægi, bæði til að koma í veg fyrir jarðvegsfok og eyðingu og svo til að gæta að vatnsbúskapnum, heldur fær náttúran að hafa sinn gang á vínekrunum; ekkert skordýraeitur kemur þar nálægt framleiðslunni, og allur áburður er 100% lífrænn. Allt sem til fellur við framleiðsluna – hrat, vínberjastilkar, mykja og þvíumlíkt – er notað til að búa til moltu sem nýtt er sem áburður. Framleiðsla Mazzei er algerlega sjálfbær. Meiningin er nefnilega að rjúfa ekki kynslóðakeðjuna með slóðaskap heldur skila landinu ósnortnu til næstu kynslóða.

Og maður minn, þvílík vín!

Mazzei-fjölskyldan hefur semsé aldrei kosið að stytta sér leið, heldur haft gæðin að leiðarljósi. Útkoman er eftir því. Mörg öndvegisvínin eru framleidd í Castello di Fonterutoli, í Chianti Classico, og þar á meðal eru Concerto di Fonterutoli, Siepi, Castello Fonterutoli Chianti Classico Gran Selezione og Castello Fonterutoli Chianti Classico sem fæst meðal annars í Vínbúðinni. Þetta eru allt unaðsleg vín að prófa og eins og vant er með úrvals Chianti þá eiga þessi vín það sameiginlegt – þó samsetningin sé ólík frá einu víni til annars – að við fyrsta bragð svífur yfir vötnum hið sólbakaða Chianti-svæði, þar sem heiðblár himinn liggur yfir fagurgrænum hæðum þöktum vínviði undir hlýjum geislum sólarinnar. Fáir munu standast að lygna aftur augunum og láta hugann reika þangað suður þegar dreypt er á þessum úrvalsvínum.

Hugurinn ber þig aðeins hálfa leið…

… eða svo segir að minnsta kosti í auglýsingu frá hérlendu flugfélagi. Sem betur fer er hægur vandi að taka upplifunina alla leið og bregða sér til Toskana til að heimsækja Mazzei, nánar tiltekið heimavöllinn í Castello di Fonterutoli. Þar er hægt að bóka sig í nokkrar gerðir skoðunarferða, ávallt með vínsmakki og mögulega með fjögurra rétta matarpörun þar sem kræsingar úr nærsveitum leika aðalhlutverk, eins og við er að búast. Fyrir þá sem vilja svo fullkomna upplifunina af héraðinu er gráupplagt að bóka gistingu í sjálfu miðaldaþorpinu Fonterutoli, í B&B Castello di Funterutoli, en þar er hægt að bóka allt að 15 herbergi þar sem nútíma þægindi og aldagamall sjarmi Toskana fer saman.

Post Tags
Share Post