Víngerð stendur á gömlum merg í Kaliforníu og á Mount Vedeer í hinum nafntogaða dal sem kenndur er við Napa hefur vínviður verið ræktaður síðan seint á 19. öld. Saga Hess Collection víngerðarinnar hefst hins vegar fyrir alvöru árið 1978 þegar hinn svissneski Donald Hess festir fyrst kaup á landskika á áðurnefndu Mount Vedeer. Hess hafði skýrar hugmyndir allt frá upphafi um það hvernig hann hygðist rækta landið og þó hafi þótt heldur framúrstefnulegt á sínum tíma – “við nærum landið og hlúum að því að sama skapi og við nýtum það” – þá er nálgun Hess víngerðarinnar nokkurn veginn eins og flestir vilja reka vínekru í dag; í sátt og samlyndi við landið og náttúruna.

 

Árið 2002 tók Hess Collection til að mynda virkan þátt í að setja saman vinnureglur samtaka víngerðarfólks í Kaliforníu, þar sem umhverfisvernd og samfélagsleg ábyrgð eru kjarninn. Í dag á Hess Collection vínekrur í Kaliforníu, Argentínu og Suður-Afríku og allstaðar gildir hið sama, að skila aftur til landsins því sem það gefur með því að yrkja jörðina með sjálfbærum hætti. Víngerðin er sem fyrr fjölskyldufyrirtæki og nýtur hvarvetna virðingar sem slíkt.

Kjöraðstæður til að galdra fram hágæða vín

Það sem áðurnefndur Donald Hess kom auga á þegar hann átti leið um Mount Vedeer í Napa-dalnum var að vínekrurnar í hæðum þessa hæðótta landslags höfðu til að bera fullkomna blöndu heppilegs jarðvegs og loftslags til að rækta þrúgur svo hvert og eitt afbrigði, með öllum sínum einkennum og bragðtónum, fengið notið sín til fulls. Í hinum bröttu hlíðum fjallsins njóta þrúgurnar síðdegissvalans þegar hafgolan skríður inn í landið með svalt sjávarloft meðferðis. Aftur á móti eru næturnar hlýjar og þetta sérstaka samspil dags og nætur, hlýju og svala, skapar þrúgunum sem ræktaðar eru í hlíðum Mount Vedeer einstakan karakter. Þannig öðlaðist Donald fljótlega skilning á því hvernig “terroir” – jarðvegur, veðurfar, loftslag og hæð fyrir sjávarmáli – hefur úrslitaáhrif á útkomuna þegar víngerð er annars vegar.

Landvinningar beggja megin Atlantshafs

Með þetta í huga hefur víngerðin valið sér sérstaklega hentuga staði til vínræktar víðar í Kaliforníu, og síðar í Argentínu og Suður-Afríku. Það sem byrjaði smátt árið 1978 í Napa dalnum er nú orðið að stórfyrirtæki og á vínlista Hess Collection er að finna vín úr margvíslegum þrúgum. Þar er að finna góðkunningja á borð við Sauvignon Blanc, Pinot Gris, Pinot Noir, Syrah og Malbec, en einnig fáséðari þrúgur eins og Viognier og hina austurrísku Grüner Veltliner. Vinsælustu vínin er þó þau sem Hess Collection gerir í Mount Vedeer úr Cabernet Sauvignon og Chardonnay. Þess má geta fyrir áhugasama að hægt er að gerast meðlimur í vínklúbbi fyrirtækisins, The Hess Collector’s Club, og njóta þannig margvíslegra fríðinda.

Velkomin í heimsókn til Hess

Snemma áttaði Donald Hess og samstarfsfólk hans sig á því að þau voru að gera áhugaverða hluti, á veðursælum og fallegum stað, ásamt því að vínin þeirra hlutu framúrskarandi viðtökur. Árið 1989 var því víngerðin opnuð fyrir almenningi og tekur á móti fjölda fólks á ári hverju við rífandi undirtektir, eins og lofsamlegar umsagnir á Tripadvisor eru til marks um. Hægt er að koma í skoðunarferðir, smökkunarferðir, margvíslegar sælkeraheimsóknir þar sem vínin eru pöruð við sælkeramat sem eldaður er á staðnum, súkkulaði, osta og ýmist annað góðgæti. Upplýsingar um hinar margvíslegu heimsóknarmöguleika er að finna á heimasíðu víngerðarinnar, www. hesscollection.com

Hvernig væri að prófa þessi frábæru vín frá Hess Collection?

Hess Select Cabernet Sauvignon 2014

Kirsuberjarautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungstannín. Dökk ber, sólber, plóma, vanilla, eik. Passar vel með nautakjöti, lambakjöti, grillkjöti og pottréttum. Verð. 2.699 kr. Fæst í Vínbúðinni

Hess Select Chardonnay 2014

Ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Suðrænn ávöxtur, sítrus, epli.

Passar vel sushi, sjávarréttum, pasta og grænmetisréttum. Verð 2.699 kr. Fæst í Vínbúðinni

Hess Select Sauvignon Blanc 2015

Föllímónugrænt. Létt meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Suðrænn ávöxtur, sítrus, grösugt. Passar vel með grænmetisréttum, grilluðum aspas, grilluðum kjúkling og skelfisk. Verð 2.699 kr. Fæst í Vínbúðinni frá og með 1 desember.

Hess Allomi Vineyard Cabernet Sauvignon 2014

Kirsuberjarautt, þétt meðalfylling, vel samþætt og mjúk tannín. Vanilla, eik, rauður ávöxtur, brómber. Passar vel með grilluðum kjúkling með kryddjurtum, grilluðu svínakjöti og þroskuðum Gouda osti. Verð 3.899 kr. (Þarf að sérpanta í Vínbúðinni)

Hess Collection 19 Block Cuvée 2014

Kirsuberjarautt, þétt fylling, ósætt, mjúk tannín. Dökk ber, sólber, negull og vanilla. Passar vel með grilluðu kjöti, lambi, svínakjöti, önd og hörðum ostum. nautakjöti, Verð. 4.699 kr (Þarf að sérpanta í Vínbúðinni)

Share Post