Goose Island Beer Company: Ferskur og framsækinn frumherji

 

Það hefur verið magnað að sjá hina svokölluðu handverksbjórsenu (e. craft beer) springa út hin seinni ár hér á landi, og nú er svo komið að nánast hvert sveitarfélag landið um kring á sitt eigið brugghús þar sem bjór bruggaður af miklum metnaði og í mörgum bjórstílum. Þessi uppgangur handverksbjórsins er í takt við þróunina beggja megin Atlantshafsins því allstaðar og endalaust spretta upp ný og spennandi brugghús og varla nokkur leið að fylgjast með öllu sem er að gerast. Þetta er einstaklega fróðleg og skemmtileg þróun fyrir allt bjóráhugafólk því sífellt koma nýjungar á markaðinn og handverksbruggmeistarar verða stöðugt tilraunaglaðari og ævintýragjarnari.

 

Í hópi allra fyrstu handverksbrugghúsa

Allt um það, það er sem fyrr segir engin leið að sjá fyrir hvert gerjunin í heimi  handverksbruggsins leiðir okkur en það er aftur á móti vel hægt að kynna sér upphafið á bylgjunni sem hefur tröllriðið bjórheiminum undanfarin ár. Það er kannski erfitt að hengja heiðurinn að þessu öllu saman á eitt einasta brugghús – en það er engu að síður hægt að fullyrða að eitt fyrsta handverksbrugghúsið er Goose Island frá Chicago.

Afdrifaríkur Evróputúr

Upphafið má rekja rúm 30 ár aftur í tímann, allt til ársins 1988 þegar bjórnördinn John Hall brá sér í bjórsmökkunarferð til meginlands Evrópu. Þar fór hann vítt um völl og bragðaði alls konar mismunandi bjórstíla – sumt þótti honum gott og annað miður, eins og gengur. En það sem honum þótti bragðgott og spennandi punktaði hann hjá sér og hélt svo heim með allan fróðleikinn sem hann hafði sankað að sér.

Setjum smá kraft í bjórbruggun!

Á þessum tíma var gerjunin takmörkuð í bandaríska bjórheiminum og flestir héldu sig bara við ljósan og laufléttan lagerbjór. John Hall sá að þarna blasti bullandi sóknarfæri við og ákvað að stofna Goose Island í heimaborg sinni, Chicago. Framsýni Hr Hall einskorðaðist ekki bara við að búa til bragðmikinn og nýstárlegan bjór heldur ákvað hann fljótlega að brydda upp á þeirri nýjung að opna bruggferlið fyrir áhugasömum og leyfa þeim að fylgjast með hverju skrefi bjórgerðarinnar á bakvið tjöldin.

Samvinna í stað samkeppni

Þessi opna nálgun hefur með tímanum orðið að einkenni fyrir handverksbjórsenuna þar sem afslappað andrúmsloft, opin stemning og almennt bræðralag ríkir milli manna. Fyrir bragðið eru samstarfsverkefni milli brugghúsa orðin viðvarandi verkefni í stað einstaka viðburða, og þannig verða oft mest spennandi bjórarnir til. Velgengnin er knúin áfram af samvinnu í stað samkeppni og það ýtir ekki síst undir hina endalausu nýsköpun sem ríkir í bjórheiminum.

Talandi um nýsköpun …

Þess má geta að Goose Island var fyrsta brugghúsið til að taka upp á þeirri nýjung að þroska bjór á viskítunnum. Þetta er alkunna meðal metnaðarfullra brugghúsa í dag en bransinn rak upp stór augu þegar Goose Island tók upp á þessari þroskunaraðferð þegar árið 1992. Seinna hóf brugghúsið svo að þroska bjór á vínámum og sífellt verða til nýir og nýstárlegir bjórstílar enda ekkert sem stoppar hugmyndaríka bruggara – nema þeirra eigið ímyndunarafl.

Loksins kominn til Íslands: við kynnum Goose Island!

Það er okkur því mikil ánægja að kynna Goose Island til leiks fyrir íslenska bjórunnendur og sælkera. Við hefjum leikinn á tveimur af vinsælustu bjórstílunum þeirra og verða þeir fáanlegir í Vínbúðunum núna í maí. Skál!

 

IPA 5.9%

Þessi frískandi og bragðmikli India Pale Ale hefur sex sinnum verið verðlaunaður á Great American Beer Festival og er flaggskipið meðal IPA-bjóra Goose Island. Ljúffengur sítruskeimur og þéttir humlar fara hér saman enda er samsetningin Pilgrim, Celeia, Cascade og Centennial.

312 Urban Wheat Ale 4.2%

Þetta geggjaða öl er smekkfullt af bragði og ferskleika með krydduðum ávaxtanótum enda Cascade humlar í aðalhlutverki, ásamt Millenium og Hallertau. Eilítið skýjaður og fyrir bragðið er hann þeim mun bragðmeiri og silkimjúkur í munni.