Vínið fyrir brúðkaupsveisluna

 

Skipulagning brúðkaups er í raun og veru samansafn af ákvörðunum. Þær eru misstórar og mismikilvægar, en allt skiptir máli enda er jú meiningin að dagurinn verði því sem næst fullkominn. Eins og vera ber þá lýtur allt að óskum og smekk brúðhjónanna á þessum degi og þar með talinn er maturinn. Og rétt eins og maturinn er stór hluti af veislunni þá er vínið stór hluti af matnum.

 

Varist öfgar í vali á vínum

Þar sem fæstir hafa á því ráð eða nennu til að bjóða upp á úrval víns í brúðkaupsveislunni til að mæta smekk hvers og eins þá er skynsamlegt að velja vín sem parast auðveldlega með mat og flestum ætti að líka við. Gott er að hafa í huga að vínið sé hvorki mjög sýrumikið né afgerandi tannínríkt. Þó slíkir öfgar falli fáeinum gestur eflaust mjög í geð er hætt við að þorri viðstaddra kunni ekki að meta vín af því taginu. Hvað fordrykkinn varðar – sé meiningin að bjóða upp á freyðivín – þá gefst iðulega best að velja það hálfþurrt. Það er frísklegt og lystaukandi fyrir matinn auk þess sem flestum líkar við hálfþurr freyðivín.

 

Smekkur brúðhjóna, fyrst og síðast

Að framangreindu sögðu þá er eftir sem áður rétt að undirstrika eitt: aðalatriðið er að allt falli að smekk brúðhjónanna, vínið meðtalið. Þegar maturinn hefur verið ákveðinn í megindráttum er sterkur leikur að kaupa flösku til að smakka heima, gjarnan með vinum eða einhverjum í fjölskyldunni, og ekki sakar að bragða á mat í líkingu við það sem verður á boðstólum í veislunni til að finna hvernig vínið parast með matnum. Kostnaðurinn við eina flösku til smökkunar eða tvær er smámunir  samanborið við vínkaup fyrir heila brúðkaupsveislu og getur sannarlega margborgað sig.

 

3e3488f6-b942-4508-bb3f-46320531e7e2~rs_768.h

Það borgar sig að vanda valið

Það er sjálfsagt og eðlilegt að horfa í skildinginn í þessu sambandi enda getur kostnaðurinn vaxið ótæpilega ef velja á dýrustu vínin í stóra veislu. Hafa ber þó í huga að enginn gestanna býst við slíku og meira er um vert að finna vín sem hefur til að bera hagstætt hlutfall milli verðs og gæða. Með lítils háttar viðbótarkostnaði í víninu má oft fá margfalt betra vín en ef ódýrasti kosturinn er valinn. Með því að vanda valið á víninu verður upplifunin af matnum, og þar með veislunni, betri og eftirminnilegri fyrir alla viðstadda, brúðhjón bæði og gesti.

 

Þumalputtareglurnar er þessar helstar

Það er alltaf svolítil kúnst að ákveða magnið af víni sem kaupa á inn fyrir veisluna. Í þessu sambandi er rétt að muna að brúðkaup eru mannamót sem standa oft frameftir og þá er betra að kaupa aðeins meira en minna; gleymum því ekki að það er hægt að skila óopnuðum flöskum aftur í Vínbúðirnar – munið bara að halda upp á kvittunina frá kaupunum ef þið skylduð þurfa að skila! Það er því ólíkt betra að kaupa ríflegt af víni og njóta þannig veislunnar án þess að hafa áhyggjur af því að vínið dugi.

 

Hvað magnið varðar er hæfilegt að gera ráð fyrir 1/2 flösku af léttvíni á hvern gest. Varðandi fordrykk þá er rétt að gera ráð fyrir 2 til 3 glösum á hvern gest, og í hverri flösku eru 7 til 8 glös. Inni á vef Vínbúðarinnar er handhæg reiknivél til að finna út magnið sem þarf miðað við gestafjölda og hún auðveldar til muna að meta hversu mikið þarf að kaupa. Og munið – betra að kaupa meira en minna því heilum flöskum sem kunna að ganga af má skila.


 

Hvernig væri að prófa?

Lamberti Prosecco

Klassískt Prosecco frá Ítalíu. Léttur og leikandi, þægilegt í munni og fersk sýra. Ljúffengt freyðivín sem hentar vel í veislur. Það er mjög gott sem fordrykkur.  Tilvalið að para Lamberti Prosecco með smárréttum, sushi og heitum brauðréttum.

Adobe Reserva Chardonnay

 

 

Hér er á ferðinni skemmtilegt, lífrænt vottað chardonnay-vín frá Casablanca-dalnum í Síle. Allt sem notað er í víngerðina er náttúrulegt og því hentar vínið líka fyrir þá sem eru vegan. Vínið er fallega ljóssítrónugult á litinn með góða fyllingu og ferska sýru. Í nefi má greina suðræna ávexti og í bragði má finna perur, greipaldin og límónu.  Adobe Reserva Chardonnay er vín sem fellur vel í fjölda og flestir kunna vel að meta. Einnig passar það vel með flest öllum mat.

 

Adobe Reserva Cabernet Sauvignon

 

Eins og hvítvínið er þetta vín lífrænt vín frá Síle. Vínið er gert úr þrúgunni Cabernet Sauvignon og er meðalfyllt. Dökkrúbínrautt á litinn með örlitlum brúnum tónum. Ilmríkt vín með greinilegum en mildum tannínum. Vínið hefur ferska sýru og greina má kirsuber, sólber, lyng í munni og vott af papriku. Vín sem passar vel í fjölda og parast frábærlega með dökku kjöti.