Willm Pinot Gris 2017

Vínótek segir;

Vínhúsið Willm er á vínleiðinni eða Route du vin á milli Strassborgar og Colmar í Alsace í Frakklandi, nánar tiltekið í smábænum Barr. Willm-fjölskyldan, sem þá rak veitingahús í Barr, stofnaði víngerðina 1896 og náði fljótt undraverðum árangri í útflutningi.

2017 var hið fínasta ár í vínrækt í Alsace. Eftir kaldan vetur brast á með hlýju vori og heitu, sólríku sumri og aðstæður út uppskerutímann voru hagfelldar. Þetta PInot Gris vín er auðvitað ennþá töluvert ungt, það er ekki liðið eitt og hálft ár frá því þrúgurnar voru tíndar. Ljóst á lit og þægileg, svolítið krydduð sítrusangan í nefi, sítrónubörkur, greip, sykurlegnar perur, hvít blóm. Ferskt og þægilegt í munni, örlítil sæta sem gefur ávextinum fyllingu, vínið er ekki alveg skrjáfþurrt, fín lengd.

2.599 krónur. Frábær kaup. Með austurlenskum réttum.

Share Post