Willm Pinot Gris 2015

Vinotek segir;

Vínhúsið Willm er á vínleiðinni eða Route du vin á milli Strassborgar og Colmar í Alsace í Frakklandi, nánar tiltekið í smábænum Barr. Willm-fjölskyldan, sem þá rak veitingahús í Barr, stofnaði víngerðina 1896 og náði fljótt undraverðum árangri í útflutningi.2015 árgangurinn af þessu vín er prýðisgóður, jafnvel fantagóður eins og árgangurinn í heild. Vínið er ljóst, ungt með þykkum sætum ferskjuávexti, þroskuðum perum og miklum sítrus, unaðslegt vín með frábæru samspili af ferskri sýru og sætum ávexti, þótt þurrt sé. 2.499 krónur. Frábær kaup. Ekki spillir fyrir að vínið er 200 krónum ódýrara frá því að við fjölluðum um síðasta árgang.

Víngarðurinn Vín Og Fleira segir;

Síðast þegar þetta vín var til umfjöllunar hér í Víngarðinum þá var það árgangurinn 2014 (****) og það virðist vera lítil breyting á gæðunum á þessu fína víni frá Willm, einsog reynsla mín hefur reyndar verið í gegnum tíðina. Það hefur gylltan lit með grábleikum tónum og meðalopna angan sem er býsna sæt og búttuð. Þar má greina niðursoðinn ávaxtakokteil, lyche, rósir, sítrus, fresíur, ananasbúðing og rjóma. Í munni er það tæplega meðalþurrt en er sem betur fer með ágæta sýru og, einsog vant er, endar það í frísklegum og bitrum tónum sem forða vínu frá því að verða yfirþyrmandi og væmið. Það má finna niðursoðna ávexti, peru, sítrus, sítrus, fita, lyche og eitthvað óskilgreint nammi. Þetta er ekki, frekar en venjulega, flókið hvítvín en afskaplega vel gert og matarvænt að auki. Hafið með allskonar mat, forréttum, ljósu fuglakjöti, kæfum (sem má kalla pâté uppá frönsku), bragðmiklum fiski og asískum mat. Svo spillir ekki að vínið hefur lækkað um 200 krónur frá síðasta árgangi. Guð blessi krónuna. Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup

Skoðaðu vöru í Vínbúðinni

Share Post