Rivetto Langhe Nebbiolo 2016

Víngarðurinn segir;

Nebbiolo-þrúgan er sannarlega ein af bestu rauðvínsþrúgum veraldarinnar og getur við bestu aðstæður boðið uppá margslungin, fínleg og matarvæn rauðvín sem endast árum saman og þroskast. Öfugt við td Cabernet Sauvignon sem virðist gefa af sér prýðileg vín, nánast hvar sem henni er holað niður, hefur gengið illa að fá allt útúr Nebbiolo nema á litlum bletti á norður-Ítalíu. Í Piemonte nánar tilekið og bestu vínin eru framleidd í kringum nokkur smáþorp sem vel eru þekkt meðal vínáhugamanna einsog Serralunga og Alba. En það eru samt ekki öll vín á þessu svæði markaðsett eða framleidd undir þeim þröngu skilgreiningum og sum þeirra, einsog td þetta hér, eru gerð undir skilgreiningunni Langhe Nebbiolo sem þýðir einfaldlega að svæðið er víðara og löggjöfin önnur varðandi fleiri atriði sem hafa áhrif á það hvernig vínið er gert.

Rivetto er einsog flestir framleiðendur á þessum slóðum lítill (svona á flesta mælikvarða) en hann er ungur og hefur afar metnaðarfulla víngerðarstefnu sem vel má finna í vínunum hans. Þessi Lanhge Nebbiolo er meðaldjúpur að sjá með kirsuberjarauðan lit og örlitla múrsteinstóna (Nebbiolo er jafnan brúnni en flestar þrúgur og á gamals aldri eru vínin nær sojasósu að lit en rauðvíni) og í nefinu má finna súr svört kirsuber, brenndan sykur, leirkennd steinefni, kanil, negul og pipar. Það er þurrt og sýruríkt í munni með flotta byggingu og þétta tanníngrind (og þau afar fínkornótt). Þarna eru sultuð og sprittlegin kirsuber, plóma, leirkennd steinefni, pipar, negull, kanill og jólaepli. Afar ljúffengt og dæmigert Piemonte-vín sem er frábært með allskonar mat. Klassísk pörun er hægeldað svín, risotto með villisveppum og bragðmikið pasta með trufflum.

Verð kr. 2.999.- Mjög góð kaup

Share Post