Rivetto Barbera d’Alba Nemes 2013

4star

Barbera D‘Alba Doc Nemes 2013

Víngarðurinn og fleira segir;

Þótt þrúgan Nebbiolo sé stolt Piemonte (úr henni eru td gerð Barolo og Barbaresco-vínin) þá er þrúgan Barbera útbreiddari á þessum slóðum og jafnvel þótt vínin sem úr henni eru brugguð séu alla jafna ekki eins glæsileg og hin fyrrnefndu vín, þá hafa þau mikla persónutöfra, eru matarvæn og auðskilin og þroskast auðvitað miklu fyrr en vín úr Nebbiolo.

 

Fá, ef nokkur vín á jarðarkringlunni, geta sameinað svona vel í einni flösku rauðan og bjartan ávöxt, djúpa kryddtóna og frískandi sýru einsog vín úr Barbera. Vissulega geta vín úr þrúgu einsog Montepulciano d’Abruzzo haft viðlíka matarmikla og munnvatnslosandi eiginleika, en Barbera er, þegar hún er í toppformi, einhver skemmtilegasta ítalska þrúgan að mínu mati.

 

Og þetta vín svíkur engan. Það hefur meðaldjúpan, fjólurauðan lit og meðalopinn og margslunginn ilm sem gaman er að bera uppað nefinu. Þarna má greina hindber, kirsuber, negul, pipar, beiskar möndlur, sultuð dökk ber, plómu, þurrkaðan appelsínubörk og píputóbak.

 

Í munni er það sýruríkt með fullt af flottum tannínum og langan hala. Þarna eru hindber, kirsuber, plóma, lakkrís, Mon-Chéri molar, mild eik og þurrkaðir ávextir. Sýran minnir að mörgu leiti á appelsínur eða sítrónur og undirstrikar þennan skemmtilega súr-sæta ávöxt sem er svo óviðjafnanlega frískandi. Hafið þetta með allskonar dökku pasta, rauðu kjöti og það þolir vel kryddaðan mat.

 

Verð kr. 3.499.- Mjög góð kaup.

Vinotek segir;

Nemes er eitt af toppvínunum frá Rivetto-fjölskyldunni í Piemont á Ítalíu. Vínhúsið er til húsa í þorpinu Serralunga d’Alba hátt uppi á hæð sem horfir yfir hjarta Barolo-svæðisins í Langhe í Piemont. Fallega fjólublátt. Í nefi fjólur, kröftug kirsuberjaangan, krækiber, vottur af menthol, þurrt og kryddað í munni, þykkt, þægilega tannískt. 3.490 krónur. Frábær kaup. Yndislegt matarvín. Reynið með bragðmiklu svepparisotto eða mildri villibráð.

Skoða vöru í Vínbúðinni

Share Post