Mont Marçal Cava Brut Reserva

 

Víngarðurinn Vín og Fleira segir;

Það er fátt skemmtilegra en að súpa vín með búbblum og vilji menn ekki borga svimandi upphæðir fyrir kolsýruna þá eru spænsku freyðvínin sem kölluð eru Cava, mörg hver góður kostur. Þau eru gerð á nákvæmlega sama hátt og kampavín þótt þrúgurnar séu oftar en ekki aðrar (núna má reyndar gera Cava úr 100% Chardonnay og Pinot Noir eða blöndu úr þeim tveimur svo sum Cava-vín eru vissulega gerð úr sömu þrúgum, en flestir framleiðendur kjósa frekar að nota þau til blöndunar við hefðbundnar Cava-þrúgur þótt margir geri það reyndar ekki.) Þetta ágæta vín hefur ljósan, strágulan lit og meðalopna angan af sítrónum, eplum, hvítum blómum, steinefnum og kertum. Nokkuð hefðbundinn ilmur. Í munni er það þurrt með góða sýru (bæði úr ávexti og úr gerjuninni), meðalbragðmikið og vel byggt með ágæta lengd. Þarna rekst maður á brögð einsog sítrónu, peru, soðin gul epli og steinefni. Vel gert og frískandi freyðivín sem er gott eitt og sér en hefur alveg byggingu sem þolir allskonar puttamat og forrétti.

Verð kr. 1.999.- Frábær kaup.

Share Post