Glen Carlou Haven Cabernet Sauvignon 2014

 

Víngarðurinn Vín og Fleira segir;

Hér á árum áður fengust nokkur athyglisverð vín frá suður-afrísku víngerðinni Glen Carlou (sem er hluti af Hess-samstæðunni ef einhver skyldi kannast við hana) en muni ég rétt þá var þessi tegund (Haven sumsé) ekki boði þá. Það er upprunið í Coastal Region og hefur rétt ríflega meðaldjúpan lit, kirsuberjarauðan. Það er rétt tæplega meðalopið í nefi með ilm sem minnir á dökk sultuð ber, Mon Chéri-mola, vermút, sveit, hnakk og evkalyptus. Þetta er dálítið sérstæður ilmur en flest rauðvín frá Suður Afríku hafa dálítið óvenjulegan ilmprófíl, oft sveitalegan og efnafræðilegan á sama tíma.
Í munni er það ekki alveg skraufa-þurrt (reyndar má segja að það hafi vel sætan grunn) en ágæta sýru og glefsur sem minna á dökk sultuð ber, Mon Chéri-mola, kakó og vermút. Það sem dregur það niður hjá mér er þessi yfirborðslega sæta og einnig raknar það dálítið hratt upp, annars fengi það fjórðu stjörnuna.

Hafið með bragðmiklum og krydduðum kjötréttum. Getur staðið með mat sem fer dálítið út og suður, einsog margt af fjúsjón-matseldinni er.
Verð 2.199.- Góð kaup.

Share Post