M. Chapoutier Belleruche Cotes du Rhone

 

 

Víngarðurinn segir;

Ár eftir ár eru vínin frá Chapoutier að skora hátt hjá mér. Ekki bara stóru og snobbuðu vínin frá Norður-Rón einsog Hermitage, og Crozes Hermitage, eða þá St. Joseph, heldur einnig einfaldari og auðfengnari vín einsog þetta Côtes du Rhône. Það er amk erfitt fyrir mig að dást ekki að byggingunni, mýktinni og flækjustiginu sem þetta „einfalda“ vín býr yfir og gleðjast um leið yfir því að það er vel prísað og auðvelt að verða sér útum.

Það er samkvæmt venju að mestu blandað úr þrúgunum Grenache og Syrah og býr núna yfir djúpu, fjólurauðum lit. Það er svo meðalopið í nefinu þar sem sultuð dökk berin eru mesta áberandi en einnig kirsuberjalíkjör, lakkrís, leirkenndur jarðvegur, timjan, tóbak og gráfíkjur. Það er svo meðalbragðmikið með afar frísklega sýru, mjúk tannín og langan bragðprófíl. Þarna rauðu berin örlítið meira áberandi en í nefinu, þá sérstaklega sprittlegin kirsuber, hindber, sultuð krækiber, lakkrís, málmur, pipar, bláber og leirkenndir steinefnatónar. Virkilega flott og stórt vín sem er ákaflega alhliða og gengur með allskonar réttum bæði grófari hversdagsmat en líka fínni grillsteikum og jafnvel villibráð. Ég geri mér grein fyrir að fjórar og hálf stjarna er dálítið há einkunn (uþb 92 punktar) en vínið er bara svo ómótstæðilegt að ég á ekki annars úrkosta.

Verð kr. 2.795.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post