Laurent Miquel Pas de Géant 2015

Víngarðurinn segir;

„Pas de Géant“ má þýða sem „risaskref“ yfir á okkar ylhýra mál og þar er víngerðarhúsið Laurent Miquel að vísa í ákveðin jarðfræðileg fyrirbæri á Írlandi og í Languedoc, en hafandi ekki komið ennþá til eyjarinnar grænu þá verð ég að segja að mér finnst vínið vera bara þokkalegasta Miðjarðarhafsvín. Uppistaðan í víninu er Syrah en þarna er líka fimmtungur af Grenache enda kemur í ljós þegar grannt er skoðað að þetta er sama vínið og hefur verið kallað L’Artisan, undanfarin misseri (og ef þið grennslist fyrir um þetta vín á vef einokunnarverslunar ríkisins þá verðið þið að leita að Laurent Miquel l’Artisan en fáið í staðin upp mynd af Pas de Géant).

En hvort sem það heitir L’Artisan eða Pas de Géant þá er það meðaldjúpt, kirsuberjarautt að sá og er ríflega meðalopið í nefinu þar sem greina má sultuð rauð ber (sérstaklega kirsuber) en líka krydd einsog negul og kanil, sultuð bláber, súkkulaði, þurrkaða ávexti, kaffi og Anton-Berg mola. Þetta er sætkenndur og sólþroskaður ilmur og í munni er það ríflega meðalbragðmikið, þétt, með góða sýru og mjúk tannín. Þarna eru rauð og sultuð ber, austurlensk krydd, súkkulaði, þurrkaðir ávextir, kaffi og þurrkaður appelsínubörkur. Vel gert, heilsteypt og ferskt en ekkert sérlega persónulegt Languedoc-vín. Það ætti að vera gott með hægelduðum pottréttum, bragðmeiri kjötréttum og sveitalegum frönskum mat einsog Confit.

Verð kr. 2.299.- Mjög góð kaup.

Share Post