Hess Selection North Coast Sauvignon Blanc 2015

Víngarðurinn segir;

Hér hafa undanfarið verið dæmd tvö vín undir Hess Selection-línunni, Chardonnay 2015 (****) og Cabernet Sauvignon 2014 (****) og þessi Sauvignon Blanc er af svipuðum meiði: vel gert og neytendavænt en ekkert tiltakanlega persónulegt. Það hefur strágylltan lit og meðalopinn ilm af rifsberjum, stikilsberum, krömdu sólberjalaufi, peru, læm, hvítum blómum og kalkríkum jarðveg. Þetta er mjúkur og kryddaður ilmur og í munni er það meðalbragðmikið með ágæta sýru (bæði Chardonnay- og Sauvignon Blanc-vínið mættu vera sýruríkari) með keim af peru, sítrónu, stikilsberjum, rifsberjum og steinefnum. Dæmigert og þægilegt hvítvín sem er best með bökum, salötum, ljósu fuglakjöti og meðalbragðmiklum fiski.

Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup.

Share Post