Emiliana Salvaje 2018

Víngarðurinn segir;

„Víngerðin Emiliana í Chile hefur um langt skeið einbeitt sér að framúrskarandi lífrænum vínum. Það eru vín einosg Adobe og svo eitt skemmtilegasta jólavínið sem fjallað var um í síðastu viku, Coyam. Fyrir stuttu kom svo enn eitt vínið frá þeim, Salvaje sem ekki er bara lífrænt heldur er það einnig súlfítlaust og því má segja að það sé náttúruvín (en súlfítleysi er helsta einkenni náttúruvína). Það er þó fjarri því að vera þetta brett-sýkta, geðvonda og oxaða ógeð sem reynt er stöðugt að byrla mér af vel meinandi og góðu fólki.

Uppistaðan í víninu er Syrah en einnig er blandað lítillega af hinni hvítu þrúgu Roussanna útí, en slíkt er iðulega gert í Côte Rôtie og Hermitage. Það býr yfir ógagnsæjum, rauðfjólubláum lit og er nokkuð opið í nefinu sem er afar skemmtilega flókið. Þarna eru vissulega berin áberandi einsog bláber og aðalbláber, en einnig eru þarna kirsuber, jarðarber, gerjuð krækiber, lyng, steinefni og svo eitthvað sem minnir afar mikið á hrátt rjúpufóarn. Það er svo verulega bragðmikið, þétt og þurrt með frísklega sýru og opnast hratt upp. Þarna eru dökku berin, bláber og aðalbláber áberandi en einnig gerjuð krækiber, lyng, steinefni og kryddbrauð. Verulega athyglisvert og skemmtilegt rauðvín og einfaldlega besta samsetning sem ég hef reynt með íslenskri rjúpu. Fyrst og fremst villibráðarvín en hún þarf að vera kröftug. Verð kr. 2.999.- Frábær kaup. “

Post Tags
Share Post