Dievole Podero Brizio Rosso di Montalcino 2016
Víngarðurinn segir;
„Einsog ég hef áður nefnt er Podero Brizio einn angi af fjölskylduvíngerð Alejandro Bulgheroni, en flestir ættu að kannast við Dievole og hér í Víngarðinum var einmitt umfjöllun fyrir skömmu um hið frábæra Chianti Classico 2017 frá þeim (fjórar og hálf stjarna). Podero Brizio er sá hluti fjölskyldufyrirtækisins sem gerir rauðvín í Montalcino og þótt þetta vín hér falli undir skilgreininguna Rosso di Montalcino (sem vissulega er ekki eins snobbað og Brunello di Montalcino) þá er þetta afar vel heppnað vín og á þannig verði að enginn ætti að láta það framhjá sér fara. Ólíkt rauðvínunum í Chianti þá má eingöngu nota það afbrigði af Sangiovese sem kallast Brunello („litli brúnn“, og þaðan kemur nafnið) í vínið, en þetta afbrigði af Sangiovese er bæði smærra og þroskast eilítið seinna en það sem notað er í Chianti. (Reyndar eru klónar af Sangiovese svo margir að fáir hafa yfirsýn yfir það mál, en það er önnur saga). Þetta vín hefur rétt ríflega meðaldjúpan, kirsuberjarauðan lit og einsog algengt er með Sangiovese hefur það múrsteinsrauðan blæ. Það er svo meðalopið í nefinu og þar má greina kirsuber, leðurjakka, lakkrís, krækiber, toffí, súkkulaði, hrátt nautakjöt, rykug steinefni og eitthvað sem minnir á beituskúr. Þetta er virkilega skemmtilegur og fjölbreyttur ilmur, upprunalegur og gaman að velta fram og aftur í góðu glasi.
Það er svo meðalbragðmikið, þurrt og sýruríkt með tölverð tannín sem þó eru vel pússuð og fínleg. Þarna eru svo krækiber, brómber, kirsuber, lakkrís, dökkt súkkulaði og rykugir jarðartónar. Vín sem fær fullt hús um þessar mundir fyrir ilminn en bragðið er heldur einfaldara í augnablikinu. Ég hef samt trú á að flækjustigið muni aukast þar líka á næsta ári og vínið muni hækka í einkunn. Mín ráðgjöf er að kaupa kassa núna og smakka næstu 4 árin. Hafið svo með rauðu kjöti, góð nautasteik er klassískt kombó.
Verð kr. 2.999.- Mjög góð kaup. “