Cune Imperial Reserva 2011

5star

 

Cune Imperial Reserva

Víngarðurinn Vín og Fleira segir;

Ég fer ekki ofan af því að bestu kaup sem okkur standa til boða í hillum vínbúðanna þessi misserin eru vín frá Spáni. Með fullri virðingu fyrir frábærum vínum frá Frakklandi og Ítalíu þá er það makalaust hvað Spánn getur boðið góð vín á góðu verði um þessar mundir.

 

Imperial Reserve vínið frá Cune er enginn aukvisi. Það vita flestir þeir sem á annað borð fylgjast eitthvað með því sem gerist í heimi vínsins. Undanfarin ár hefur þetta vín sópað til sín verðlaunum og einkunnum útum allar jarðir og það er gaman að það skuli fást hérna á landi. Það kemur auðvitað frá Rioja og er að langstærstum hluta úr þrúgunni Tempranillo. Árgangurinn 2011 var einn af þeim betri í Rioja og það er þroskað samkvæmt hefð í heilt ár í frönskum og bandarískum eikartunnum, sem finnst vel í nefinu.

 

Það hefur mjög þéttan plómurauðan lit og hefur vel opinn og framúrskarandi skemmtilegan ilm af eikartunnum, vanillu, kirsuberjum, hindberjasultu, sultuðum aðalbláberjum, tóbaki, balsam, súkkulaði, kóngabrjóstsykri, lakkrís, leðri og plómum. Það er þurrt, gegnheilt, með töluverða sýru og gnægð mjúkra tannína. Það er afar langt og vel byggt með stóran en jafnframt afar glæsilegan bragðprófíl. Þarna má finna plómu, sultuð bláber, sólber, rjómakennda vanillu, Mon-Chéri-mola, þurrkaðan appelsínubörk, mómold og tóbak. Alveg hreint ótrúlegt vín og fyrsta vínið í ár sem fær fimm stjörnur hjá mér. Tími til kominn. Hafið með betri steikum, nauti, lambi, grillaðri hrossalund og þesskonar mat. Fínt líka með villibráðinni. Þetta vín endist vel næstu 6-8 árin ef menn vilja eiga eitthvað í kjallaranum.

Share Post