Barahonda Summum 2018

 

 

Vínsíðurnar segja;

Barahonda víngerðin er staðsett í Yecla sem liggur steinsnar frá Alicante og tekur bíltúrinn rétt um klukkutíma á góðum degi. Yecla er nyrsta undirhérað Murcia þar sem dökk og seiðandi vín úr þrúgunni Monastrell (einnig þekkt sem Mourvedre í Frakklandi) hafa gert gott mót í gegnum tíðina en þó ekki það gott mót að þau hafi fest sig almennilega í vinsældum hérlendis eða víðar. Hér erum við þó með vonarneista í þeim efnum því þetta er frábært vín. Ávöxturinn kemur af u.þ.b. 60 ára gömlum vínvið sem vex í um 800 metra hæð yfir sjávarmáli, sem er lykilatriði á heitu og þurru svæði eins og Yecla er. Vínið fær að þroskast í 16 mánuði á amerískum eikartunnum áður en það er sett á flöskur og loks á markað.

Vínið er dimmrautt á litinn með fjólubláa tauma. Það er opið og smá heitt í fyrstu en girnilega safarík ber koma strax í ljós með bláber, krækiber, sólber og jarðarber fremst í flokki en bakvið þau liggur ljúf vanilla, lyng og vottur af balsamík. Mikill ilmur en afskaplega falleg heild. Í munni er það nokkuð kröftugt og ferskt með góð tannín til að halda þessu uppi. Virkilega ljúfur og djúsí ávöxtur aftur í aðalhlutverki en lyng, vanilla, tunna og krydd er skammt undan og loka þessu stórgóða víni með löngu eftirbragði. Þetta er vín sem ég mæli með að umhella eða geyma í nokkur ár því það mundi örugglega græða nokkra punkta á góðri geymslu. Mæli með að drekka þetta með góðri rib eye steik.

Okkar álit: Kröftugt en ljúft vín sem er stútfullt af karakter. Frábært Monastrell!

Verð 3.999 kr

Post Tags
Share Post