Amalaya Blanco de Corte 2016

Vinotek segir;

Cafayete-dalurinn í Salta-héraði í norðurhluta Argentínu er hæsta víngerðarsvæði veraldar og á þessu skrjáfþurra og hrjóstruga svæði eru gerð merkilega góð vín. Fölgrænt, mikil og ágeng blómaangan ásamt lyche-ávexti og lime og sætum greipávexti, þurrt, þykkt og brakandi ferskt. 2.199 krónur. Frábær kaup á því verði og hálf auka stjarna, flottur fordrykkur eða með öllum sjávarréttum þar sem sítróna eða lime kemur við sögu.

Víngarðurinn segir;

Þarna í argentíska háloftinu eru skilyrðin til vínræktar erfið en góð. Þarna er hitasveiflan mikil yfir sólarhringinn (sem er afar gott til að gera góð vín) og mikil ljóstillífun þegar sólar nýtur. Vínrækt er því dálítið áhættusöm en þegar hún heppnast eru vínin jafnan fersk og ballanseruð. Þetta ágæta hvítvín er samsett úr hinum ilmríku þrúgum Torrontés ogRiesling og það finnst glöggt í nefinu þar sem sætkennd blómaangan stígur upp þegar maður rekur nefið oní glasið. Þarna má líka finna sætan sítrus, fresíur, papaya, guava, steinefni, og kremkenndar snyrtivörur sem minna á varalit. Í munni er það sætkennt en sýruríkt með keim af sætri sítrónu, greipaldin, niðursoðnum austurlenskum ávöxtum, mandarínum og kremuðum snyrtivörum. Frísklegt og sumarlegt hvítvín sem er gott með allskonar bragðflækjum sem finna má í forréttum, asískum mat og fjúsjón.

Verð kr. 2.199.- Mjög góð kaup.

Share Post