Listin að para saman ost og vín

“Sumri hallar, hausta fer…” eru upphafsorð kvæðis sem ókunnur orti forðum og þó enn sé nokkuð eftir af þessu indæla sumri þá hallar deginum óneitanlega fyrr um leið og Verslunarmannahelgin er að baki. Þá er lag að fletta upp öllum trixunum í bókinni til að hafa það sem huggulegast heima við; láta milda birtuna frá kertaljósum lýsa upp heimilið og setja ljúfa tóna á fóninn – eða æfóninn.

 

Það er með öðrum orðum runninn upp sá árstími þegar ljúffengir ostar eru einhvern veginn hið fullkomna kvöldsnarl. Rétt eins og tilfellið er jafnan með góðan mat þá geta hreinir bragðlaukatöfrar átt sér stað þegar ostur er paraður með góðu víni. Þá má eiginlega segja að einn plús einn verði samasem þrír.

 

Allir þekkja þetta kombó í sinni einföldustu mynd – rauðvín og osta – en í rauninni búa ótal fleiri möguleikar í samsetningu víns og osta, fyrir utan að ákveðin rauðvín passa betur með tilteknum ostum en önnur. Í sjálfu sér er ekkert “rétt” eða “rangt” í þessum efnum; það sem þér finnst gott saman er rétta samsetningin fyrir þig.

 

Þumalputtareglan er þó að ungir ostar, svosem Brie, sem er blautur og kremaður, passar vel með ungum, frísklegum og ávaxtaríkum vínum á meðan eldri, þroskaðri og bragðmeiri ostar fara betur með vínum sem eru með góða fyllingu og flóknara bragð sem yfirleitt kemur með auknum aldri og meðfylgjandi þroska. Það er því ákveðin fylgni á milli aldurs osta og vína þegar kemur að pörun.

 

Hér á eftir fara nokkrar praktískar ábendingar um pörun osta við vín sem passa þeim sérstaklega vel. Kveikið á kertunum, leyfið ostunum að ná stofuhita og njótið svo ljósaskiptanna meðan bragðlaukarnir kætast og gleðjast.

 

Parmesan + rósavín

parmesanrosavin

Sumir ostar passa hvítum vínum á meðan aðrir passa rauðum. Ótrúlega margir ostar parast síðan prýðilega með rósavínum þar eð þau hafa sýrnina úr hvítum vínum og ávaxtatónana úr þeim rauðu. Góður Parmigiano Reggiano, eins og parmesan ostur heitir fullu nafni, hefur til að bera þéttleika og ríkulegan, saltan hnetukeim sem fer snilldarvel við frísklega ávaxtatónana í rósavíni.

Vinó mælir með: Muga Rosado

 

Brie + Riesling

Brieriesling

 

Brie er, eins og við vitum, ungur og ferskur ostur með mjúkri, kremaðri áferð sem þekur munninn og með honum er fátt betra en gott og frísklegt Riesling-hvítvín. Það mætir ostinum og er jafnoki hans án þess að yfirgnæfa feita smjörtónana í bragðinu.

Vinó mælir með: Will Riesling Reserve

 

Cheddar + Cabernet Sauvignon

cheddarcabernetsauvignon

Það getur verið snúið að velja rétt rauðvín með Cheddar-osti, einkum þegar hann er orðinn vel þroskaður og bragðmikill. Eins og kom fram hér í innganginum er öruggast að velja vín með mikið bragð og fyllingu og þá er pörunin í höfn. Verulega þykkur og mjúkur Cabernet Sauvignon með keim af sultuðum ávexti fer létt með að ráða við Cheddar og það er vissara að velja vín sem hefur verið tvö til þrjú ár á flösku. Þroskað vín á móti þroskuðum osti, þið munið.

Vinó mælir með: Ramon Roqueta Reserva

 

Manchego + Sauvignon Blanc

manchegosauvignonblanc

Hinn spænski Manchego-ostur er stífur og bragðmikill, án þess að vera yfirgnæfandi. Osturinn hefur til að bera ljúffengan hnetukeim og skartar auk þess löngu og miklu eftirbragði sem er oft einkennandi fyrir osta sem unnir eru úr kindamjólk. Með þessum karakterríka osti er fyrirtak að opna góðan Sauvignon Blanc, því fersk sýrnin, suðrænir ávaxtatónar og grösugur kryddjurtakeimur vínsins eru fullkominn mótleikur við Manchego-ostinn.

Vinó mælir með: Vicar‘s Choice Sauvignon Blanc

 

Gouda + Merlot

goudamerlot

Stundum langar mann í krassandi samsetningu osts og víns sem fer með bragðlaukana í rússíbanareið og skilur mann eftir hálf dasaðan; stundum langar mann bara í einfaldan og bragðgóðan ost, millistífan í ofanálag, með þægilegu og mildu víni sem passar. Ef þú ert að fikra þig inn á hinar spennandi lendur víns og osta, eða átt von á fólki í heimsókn og veist ekki hvar smekkur þeirra liggur, þá er þetta upphafsreiturinn – Gouda og Merlot. Það verður ekki öruggara og það verður enginn fyrir vonbrigðum.

Vinó mælir með: Adobe Merlot Reserva

 

Camenbert + Chardonnay

camembertchardonnay

Hér er hann kominn, osturinn sem svo margir landsmenn hafa sem grundvallarostinn á sinn ostabakka og þekkja hann þar af leiðandi best allra sælkeraost. Camenbert er enda þægilegur en þó með hæfilega afgerandi bragði, mátulega söltu, og sérlega lystugri kremáferð. Mjúk fylling og frísklegir ávaxtatónar Chardonnay-hvítvíns smellpassa með Camenbert og mynda samsetningu sem slær alltaf í gegn. Munið bara að bera vínið ekki of kalt fram (11°C er passlegt) og leyfið ostinum fyrir alla muni að ná stofuhita. Bæði vín og ostur munu annars líða fyrir of lágt hitastig og þá er farið á mis við heilmikið af bragðinu. Það viljum við síst af öllu þegar annað eins gómsæti er annars vegar.

Vinó mælir með: Adobe Chardonnay Reserva

 

Share Post