Vínin með villibráðinni

Það er sá tími ársins sem skytturnar draga fram hólkana og reyna sitt ýtrasta til að draga einhverja björg í bú. Íslendingar eru upp til hópa sólgnir í villibráð og er það lítt að undra; hér er nóg af villtri náttúru og veiðidýrin sem um ræðir bera með sér keim af ósnortnu landslagi, lyngi og öðru sem þau kunna að leggja sér til munns í heiðanna ró.

 

Hér er hreinleikinn og rekjanleiki fæðunnar með allra mesta móti, ekki fyrir aukaefnum eða einhvers konar mengun að fara og í ofanálag gefur villibráðin af sér einstaklega magurt og eftir því hollt kjöt. Íslensk villibráð þykir enda lostæti og því við hæfi að velja vel vínin með hinum villta veislumat; það er jú búið að hafa nóg fyrir því að eltast við matinn og ekki nema rétt og eðlilegt að gera úr sem veglegasta veisluna

 

Hér eru nokkur góð vín sem við mælum með Villibráðinni;

Roquette & Cazes

Vinotek segir;

Roquette & Cazes er samstarfsverkefni tveggja magnaðra vínfjölskyldna sem í gegnum árin hafa byggt upp nána vináttu í gegnum ást á vínum og taka höndum saman við gerð þessa víns. Annars vegar Roquette-fjölskyldunnar sem á og rekur Quint do Crasto í Douro-dalnum í Portúgal og hins vegar Cazes-fjölskyldunnar sem á og rekur Chateu Lynch-Bages í Pauillac í Bordeaux. Vínið er gert úr þrúgum af ekrum Crasto í Douro og eru notaðar þrjár af helstu rauðvínsþrúgum Douro-dalsins, Touriga Nacional, Tinta Roriz (Tempranillo) og Touriga Franca. Þrúgurnar kunna að vera portúgalskar en stíllinn er meira í anda stóru Bordeaux-vínanna með öflugum tannískum strúktúr og áherslu á það sem Frakkar kalla „terroir“ karakteruppruna eða eðli vínekrunnar sjálfrar og allt það sem gerir hana að því sem hún er, jarðvegur, loftslag og lega. Vínið er dökkt, svarblátt og djúpt. Kröftugur svartur berjaávöxtur, sólber, þurrkuð kirsuber, ristaðar, dökkar kaffibaunir, apótekaralakkrís og vanilla, öflugt og ágengt í munni, sýrumikið, kröftug og mikil tannín, þurrt og míneralískt. Enn afskaplega ungt. Umhellið endilega, geymið gjarnan. 3.899 krónur. Frábær kaup. Magnað vín, njótið með t.d. villibráðinni, hreindýri og rjúpum.

 

Emiliana Coyam

Víngarðurinn segir;

Nú er kominn nýr árgangur af þessu frábæra, lífræna víni en þeir sem muna einhver ár aftur í tímann geta rifjað upp að hér hafa verið dæmdir árgangarnir 2012 (****1/2) og 2013 (*****) Og þetta vín heldur bara áfram að sækja í sig veðrið. Einsog venjulega er það flókin blanda af þrúgum, en uppistaðan í því eru þó Syrah og Carmenére en þarna eru líka Cabernet Sauvignon, Mourvédre, Petit Verdot, Malbec, Garnacha, Tempranillo og Carignan. Sannarlega ekki hefðbundin blanda.

Það kemur frá Colchagua í Chile og gert af víngerðinni Emiliana, en margir eiga að þekkja hin fínu Adobe-vín sem frá þessari víngerð kemur. Þetta rauðvín býr svo yfir dimm-fjólurauðum lit og hefur ríflega meðalopinn ilm þar sem blandast saman sæt hindber, plómur, sólberjalíkjör, jarðarber, krækiberjahlaup, lakkrís, karamella, píputóbak, dökkt súkkulaði og sprittlegnir ávextir. Þarna er einnig nýleg eik og með henni koma ristaðir tónar og vanilla. Það er svo vel bragðmikið í munni, þétt og sýruríkt en einnig fínpússað, mjúkt og langt og er merkilega glæsilegt þrátt fyrir alla stærðina. Það hefur flókinn en ferskan keim af sætum rauðum berjum, sultuðum dökkum berjum, krydduðum og ristuðum tónum ásamt súkkulaði og steinefnum. Þetta er vín fyrir þá sem vilja mikil vín frá Nýjaheiminum án þess að fórna glæsileikanum. Gengur vel með bragðmikilli íslenskri villlibráð, rjúpu og gæs en einnig með öllu hinum hátíðarkjötinu.

 

Crasto Superior Syrah

Vinotek segir;

Quinta do Crasto í Douro-dalnum í Portúgal er eitt þeirra vínhúsa sem hefur gert hvað mest fyrir ímynd venjulegra rauðvína frá þessu héraði sem margir tengja enn fyrst og fremst við portvínsframleiðslu. Fyrir nokkrum árum náði eitt af rauðvínum hússins þriðja sæti á árlegum topp 100 lista Wine Specatator sem var og er það hæsta sem vín frá Portúgal (sem ekki var portvín) hefur nokkurn tímann náð. Þrúgurnar í þessu víni eru frá búgarðinum Quinta da Cabreira í Douro Superior (Efri-Douro), sem er eitt þriggja undirsvæða Douro dalsins. Ólíkt flestum rauðvínum Douro er hér notuð frönsk þrúga, nánar tiltekið Syrah, sem nokkur önnur hús hafa þó einnig gert tilraunir með t.d. Quinta do Noval og Romaneira. Vínið er þar af leiðandi ekki í DO-flokkuninni heldur flokkað sem Vinho Regional Duriense.

Litur vínsíns er mjög dökkur og djúpur, dökkfjólublátt. Það er hiti í víninu, ávöxturinn heitur og sólþroskaður, kryddaður, en vínið heldur engu að síður ferskleika út í gegn. Þarna eru dökk ber, kirsuber og sólber sem renna saman við sæta vanillu og dökkt súkkulaði, þægilega sætan við. Tannín eru kröftug og þétt, þetta er vín með bæði mikla vöðva og sterk bein en jafnframt elegant fágun sem minnir á vönduðu frönsku Norður-Rónarvínin. 3.799 krónur. Frábær kaup. Þetta er magnað vín sem er fínt með nautalund eða hreindýrakjöti. Mætti einnig reyna með önd.

 

Emiliana Salvaje

Víngarðurinn segir;

Víngerðin Emiliana í Chile hefur um langt skeið einbeitt sér að framúrskarandi lífrænum vínum. Það eru vín einosg Adobe og svo eitt skemmtilegasta jólavínið sem fjallað var um í síðastu viku, Coyam. Fyrir stuttu kom svo enn eitt vínið frá þeim, Salvaje sem ekki er bara lífrænt heldur er það einnig súlfítlaust og því má segja að það sé náttúruvín (en súlfítleysi er helsta einkenni náttúruvína). Það er þó fjarri því að vera þetta brett-sýkta, geðvonda og oxaða ógeð sem reynt er stöðugt að byrla mér af vel meinandi og góðu fólki.

Uppistaðan í víninu er Syrah en einnig er blandað lítillega af hinni hvítu þrúgu Roussanna útí, en slíkt er iðulega gert í Côte Rôtie og Hermitage. Það býr yfir ógagnsæjum, rauðfjólubláum lit og er nokkuð opið í nefinu sem er afar skemmtilega flókið. Þarna eru vissulega berin áberandi einsog bláber og aðalbláber, en einnig eru þarna kirsuber, jarðarber, gerjuð krækiber, lyng, steinefni og svo eitthvað sem minnir afar mikið á hrátt rjúpufóarn. Það er svo verulega bragðmikið, þétt og þurrt með frísklega sýru og opnast hratt upp. Þarna eru dökku berin, bláber og aðalbláber áberandi en einnig gerjuð krækiber, lyng, steinefni og kryddbrauð. Verulega athyglisvert og skemmtilegt rauðvín og einfaldlega besta samsetning sem ég hef reynt með íslenskri rjúpu. Fyrst og fremst villibráðarvín en hún þarf að vera kröftug. Verð kr. 2.999.- Frábær kaup.

 

Lealtanza Reserva

Víngarðurinn segir;

Víngerðin Bodegas Altanza á sér ekki langa sögu í Rioja en um þessar mundir er hún rétt rúmlega tuttugu ára gömul og rétt einsog flestar nýjar víngerðir á þessum slóðum þá eru vínin sem koma frá henni í dæmigerðum nútímastíl. Í Rioja þýðir það að vínin eru undantekningarlítið eingöngu úr Tempranillo, þrúgurnar eru tíndar við hámarksþroska og eftir gerjun eru vínin þroskuð í nýjum, frönskum eikartunnum. Allt þetta má glöggt finna í þessu frábæra víni sem óhætt er að mæla með.

Það býr yfir djúprauðum lit og er komið með örlitla múrsteinstóna enda er þetta vín rúmlega sjö ára gamalt. Það er svo ríflega meðalopið í nefinu og þar má finna þéttan rauðan ávöxt og þá aðallega jarðarberjasultu, plómur, dökkt súkkulaði, vanillu, lakkrís, þurrkaðan appelsínubörk, brenndan sykur, Mon Chéri-mola og sveskjur. Þetta er fjölskrúðugur og síbreytilegur ilmur, dæmigerður fyrir nútímastílinn í Rioja og afar ljúffengur. Það er svo ríflega meðalbragðmikið, afar mjúkt og langvarandi með ferska og góða sýru þrátt fyrir þroskann og mikið af mjúkum tannínum. Þarna er jarðarberjasulta, fersk bláber, brenndur sykur, lakkrís, Mon Chéri-molar, vanilla og þurrkaðir ávextir. Þegar saman koma góður árgangur og vönduð víngerð er útkoman algerlega framúrskarandi. Hafið þetta vín með allskonar betri kjötréttum, íslenska lambið er auðvitað frábært með þessu víni en naut og svín koma fast á hæla þess.

 

Lamberti Amarone

Vinotek segir;

Amarone er einn af stóru, klassísku vínstílunum á Ítalíu og þessi vín eiga sína dyggu fylgjendur. Í grunninn er Amarone rauðvín frá víngerðarsvæðinu Valpolicella við Veneto en það segir hins vegar einungis hálfa söguna.  Áður en sjálf víngerðin hefst eru þrúgurnar vindþurrkaðar þannig að safinn sem úr þeim kemurverður þykkur og sætur og vínin oft þung og mikil. Þetta Amarone frá Lamberti er 15,5% og það er ekki óalgengt að sjá Amarone-vín sem eru 16% og jafnvel þar yfir. Stíllinn í þessu Amarone er nokkuð ferskur (af Amarone að vera) og ávaxtaríkur. Liturinn er dimmrauður og í nefinu eru kirsuber og telauf áberandi, ávöxturinn bjartur og mildur beiskleiki, ferskt. 4.999 krónur. Mjög góð kaup.

 

Tenuta Meraviglia rautt

víngarðurinn segir;

Rauða vínið frá Tenuta Meraviglia er að mestu úr þrúgunni Cabernet Franc (eftir því sem ég best veit) en þarna er líka Cabernet Sauvignon enda er Bolgheri sjálfsagt sá hluti Toskana þar sem alþjóðlegustu rauðvínin eru framleidd, enda er frekar erfitt að grísa á það í blindsmakki hvaðan vín einsog þetta er upprunnið.

Það býr yfir dimm-fjólurauðum og ógagnsæjum lit og hefur rétt rétt ríflega meðalopna angan þar sem dökk berjasulta er mest áberandi í bland við súkkulaði, leður, mokka, kirsuberjahlaup, brenndan sykur og þessa tóna sem koma af því að nota mjög þroskaðar þrúgur í vínið, og minna á eitthvað efnafræðilegt einsog acetone, eftir að gerjun lýkur. Það er svo vel bragðmikið, þétt og þurrt með góða sýru og töluverð tannín sem eru vel pússuð og mjúk. Þarna er svo krækiberjasulta, sólberjahlaup, bláberjasulta, kirsuber, dökkt súkkulaði, vanilla og kaffi. Þetta er nútímalegt og afar vel framleitt rauðvín fyrir þá sem kjósa mikil og dökk vín sem eru vel byggð og ekki of sæt. Hafið þetta með betri steikum, nauti eða lambi. Verð kr. 3.499.- Mjög góð kaup.

 

The Hess Collection Allomi Cabernet Sauvignon

Víngarðurinn segir;

Undanfarin ár hafa íslenskir vínunnendur geta verslað sér vín frá Hess-víngerðinni í Kaliforníu, td North Coast Selection Cabernet en þetta vín hér, sem kemur frá Napa-dalnum er mun efnismeira og glæsilegra vín.
Allomi-víngarðurinn liggur í Norð-austurhluta Napadalsins og er nokkuð stór, eða um 85 hektarar og þar eru ræktaðir nokkrir mismunandi klónar af Cabernet Sauvignon sem svo er blandað saman í þetta vín. Það er þétt að sjá með dimm-fjólurauðan lit og meðalopna angan sem býr yfir aðlaðandi og undirliggjandi sætu. Þarna eru dökku og sultuðu berin mesta áberandi einsog sólberjahlaup, bláberjasulta og krækiber en einnig eru þarna sultuð rauð ber, reykur, plómubúðingur, dökkt súkkulaði, vanilla og vænn skammtur af steinefnum. Það er svo nokkuð bragðmikið og afar fágað, ljúft og beinlínis hættulega mjúkt án þess að glata nokkuð af glæsileikanum því sýran er lifandi og fersk og tanníngrindin afar vel póleruð og háreist. Þarna eru sólber, bláber, dökkt súkkulaði, vanilla, steinefni og sultuð rauð ber. Eiginlega alveg ómótstæðilegt og ljúffengt Napa-Cabernet sem fer vel með allskonar lambakjöti, svíni, Wellington og mildri villibráð einsog innfluttu hreindýri.

 

Cune Gran Reserva

Víngarðurinn segir;

Eitt af því sem er fylgisfiskur hins nýja Rioja-stíls er að margar víngerðir hafa lítinn áhuga á að gera Gran Reserva-vín lengur. Fyrir því eru auðvitað nokkrar ástæður, aðalllega þó að krafan um fersk og splunkuný vín gerir ekki ráð fyrir að þroska vín í tvö ár í eikartunnum og amk annan eins tíma í flöskum áður en vínin eru sett á markað. Auk þess er það dýrt að geyma uppskeruna í mörg ár áður en hún er seld og alvöru bissnesmenn nú á dögum vilja helst selja vöruna áður en hún er tilbúin. Það er því alltaf gaman að fá í hendurnar Gran Reserva vín og þetta hér frá Cune er barasta býsna gott.

Það er að lang stærstum hluta til úr Tempranillo og þroskað í blöndu af frönskum og bandarískum eikartunnum og hefur ríflega meðaldjúpan, kirsuberjarauðan lit. Það er svo meðalopið í nefinu (ég mæli eiginlega með því að umhella því til að láta súrefnið vinna með sér) með þroskaða og nokkuð flókna angan sem er dæmigerð og ljúf. Þarna eru kirsuber, Mon Chéri-molar, brúnn banani, brenndur sykur, Bounty-súkkulaði, balsam, þurrkaðir ávextir, sultuð aðalbláber, kakó, kóngabrjóstsykur og kremaðir vanillutónar úr eikinni. Þetta er flókinn og afar skemmtilegur ilmur sem gaman er að velta fram og aftur í glasinu.

Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þétt með góða sýru og póleruð tannín. Stórt en fínlegt og hefur langvarandi bragð. Þarna má greina rauð ber, sultuð bláber, kakó og súkkulaðitóna, balsam, kókos, þurrkaða ávexti og mjúka eik. Virkilega flott rauðvín sem fer vel með ykkar besta lambakjöti eða eiginlega hvaða rauða kjöti sem er. Hin opinbera útgáfa er að árgangurinn 2013 hafi ekki verið nema í meðallagi en þetta vín fær fullt hús fyrir ilminn og nálgast að fá fullt hús fyrir bragðið líka. Niðurstaðan er dæmigert og margslungið Rioja-vín sem ætti að höfða til allra. Verð kr. 3.499.- Frábær kaup.

 

Muga Reserva

Vinotek segir;

Muga hefur í gegnum árin verið eitt af allra bestu vínhúsum Rioja, að mörgu leyti skólabókardæmi um hvernig vín þessa héraðs eiga að vera. Stíllinn er klassískur Rioja-stíll, sem hefur engu að síður þróast með nútímalegri áherslum í héraðinu. 2012 er klassískur Muga, Dökkur kirsuberjaávöxtur í bland við sólber, kryddað, töluvert dökkristað kaffi, vanilla. Flott og vel strúktúrerað, kröftugt, öflug en mjúk tannín, langt. Kjötvín. 3.990 krónur. Frábær kaup.

 

Michel Lynch Reserve Medoc

Víngarðurinn segir;

Flest alvöru áhugafólk um vín kannast við Michel Lynch sem um áratugaskeið var í fararbroddi víngerðarmanna í Bordeaux og þá ekki síst fyrir hið stórkostlega Pauillac-rauðvín Chateau Lynch Bages sem hefur verið í fremstu röð meðal vínhúsa þessa heims. Nú hafa börn hans tekið við helstu stjórn samsteypunnar og frá henni koma margskonar vín sem eru öll afar athygliverð þótt þau nái kannski ekki með tærnar þar sem Chateau Lynch Bages hefur hælana. Michel Lynch Reserve Médoc er blanda úr helstu einkennisþrúgum Bordeaux, Merlot og Cabernet Sauvignon og þær koma af nokkrum ekrum á Médoc-skaganum. Það býr yfir þéttum og ríflega meðaldjúpum plómurauðum lit. Það er meðalopið í nefninu með angan sem minnir á sólber, paprikur, plómur, lyng, krækiberjasaft, mómold og sprittlegin kirsuber. Þetta er kunnuglegur og staðbundinn ilmur sem getur eiginlega hvergi verið annarsstaðar frá en Bordeaux. Það er svo meðalbragðmikið, þurrt og ferskt með góða sýru og vel byggð og póleruð tannín. Þarna má svo greina sólber, krækiber, brómber, plómur, Mon Chéri-mola, papriku og jarðbundna leirtóna. Virkilega vel gert, áferðarfallegt og upprunalegt rauðvín sem inniheldur dágóðan skammt af þeim elegans sem einkennir betri rauðvín frá Bordeaux. Hafið það með lambi, nauti, villibráð og öðru rauðu kjöti. Verð kr. 2.999.- Frábær kaup.

Post Tags
Share Post