NIKKA

Jakob Jonsson ritar

Nikka er annar af risunum í japanskri viskíframleiðslu og á þar tvær verksmiðjur, Yoichi í Hokkaido og Miyagykio í Miyagi, norðan við höfuðborgina, Tokyo. Nikka er annar af risunum í japanskri viskíframleiðslu og á þar tvær verksmiðjur, Yoichi í Hokkaido og Miyagykio í Miyagi, norðan við höfuðborgina, Tokyo.Saga Nikka fyrirtækisins nær allt aftur til ársins 1934 þegar Masataka Taketsuru kom Yoichi verksmiðjunni á laggirnar. Taketsuru þessi hélt til Skotlands árið 1918 til þess að læra viskíframleiðslu og efnafræði. Hann lærði fagið hjá Hazelburn verksmiðjunni á Campbeltown og hélt svo aftur til Japan árið 1920 ásamt konu sinni, Jessicu ,,Rita” Cowan sem hann kynntist í Skotlandi.

 

Þegar heim til Japan var komið hóf hann störf hjá fyrirtæki sem í dag heitir Suntory og er nú einn af risum viskíheimsins. Þar aðstoðaði hann við að koma í gang viskíframleiðslu en fram að því hafði Suntory (sem þá hét Kotobukiya) helst selt gosdrykki og léttvín.

Árið 1923 hófst þar viskíframleiðsla undir leiðsögn herra Taketsuru og starfaði hann þar allt til ársins 1934 þegar hann opnaði Yoichi verksmiðjuna sem fyrr segir. Því má segja að Masataka Taketsuru sé einn og sjálfur ábyrgur fyrir þessari viðamiklu og stórgóðu viskíframleiðslu í Japan, enda kom hann sem áður segir að upphafi Suntory sem og stofnaði hinn viskírísann, Nikka.

Fyrir áhugasama má benda á þáttaröðina Massan sem telur hvorki fleiri né færri en 150 þætti, hvern um sig fimmtán mínútur að lengd. Þar er farið yfir sögu Taketsuru frá því er hann hélt til Skotlands.

Í Yoichi er eingöngu framleitt maltviskí. Í Miyagikyo er framleitt maltviskí en þar er einnig búið til viskí úr öðru hráefni en möltuðu byggi, það er úr korni og hveiti sem er notað í blönduðu viskíin frá Nikka en fyrirtækið framleiðir aragrúa mismunandi viskía sem við komum betur að síðar.

Þess má geta að Japanir vinna blönduðu viskíin svolítið öðruvísi en tíðkast t.d. í Skotlandi þar sem átöppunarfyrirtæki blanda vanalega saman viskíum frá mörgum verksmiðjum. Í Japan koma blöndurnar frá einum framleiðanda. Nikka, og aðrir japanskir framleiðendur framleiða allt sitt viskí sjálfir, einmöltunga sem og blöndur.

 

Staðsetning Yoichi verksmiðjunnar vakti furðu margra enda er hún mjög norðarlega í Japan og er í raun nær Rússlandi en höfuðborginni, Tokyo. Taketsuru var nú nokk sama um það og valdi hann þessa staðsetningu því landslagið minnti hann mest á það sem hann hafði kynnst í Skotlandi, sér í lagi á Campbeltown auk þess sem þar fæst afar hreint og tært vatn, hentug eik, sjávarselta í lofti og er jarðvegurinn ríkur af mó, líkum því sem finnst í Skotlandi en Yoichi er léttreykt. Þar er haldið fast í gamlar hefðir við framleiðsluna og sem dæmi, þá eru potteimararnir enn kolahitaðir sem er fáheyrt nú til dags. Þrátt fyrir það er verksmiðjan afar fjölhæf og hægt að framleiða þar viskí á mjög marga vegu, með mismunandi uppskriftum, eimunartíma, gerjunartíma og þar fram eftir götunum. Sagan segir að Yoichi geti framleitt upp undir þrjú þúsund mismunandi útgáfur viskís.

Sökum gríðarlegrar eftirspurnar eftir japönsku viskíi nú á dögum var ákveðið fyrir nokkru að losa flöskumiðana við aldursgreiningu. Það var kannski ekki ákvörðun sem var tekin í léttu, heldur af nauðsyn. Fyrir 12-15 árum plús, var einfaldlega ekki framleitt nóg til að mæta eftirspurn í dag, ekki nóg til á tunnum og þarf því að drýgja dropann með yngri viskíum. Aldurinn sem er tilgreindur á flösku vísar jú til yngsta dropans í flöskunni. 12 ára viskí er því 12 ára hið minnsta. Þetta hefur þó ekki haft mikil áhrif á lokaútkomuna verður að segjast, því Miyagykio og Yoichi án aldursgreiningar standa eldri bræðrum síst að baki.

Eftir geysilega velgengni Yoichi allt frá stofnun var kominn tími á að auka framleiðslugetuna. Í stað þess að byggja við uppi í Hokkaido var ákveðið að byggja alfarið nýja verksmiðju og það á meginlandinu, norðan Tokyo og var Nikka fyrsta japanska verksmiðjan til að byggja sér annað viskíból. Það heitir Miyagykio og opnaði árið 1969. Þar eru sem fyrr segir framleiddir bæði einmöltungar og blönduð viskí, þ.e. viskí sem eru framleidd úr byggi blönduðu öðrum korntegundum.

Í Miyagykio eru framleidd léttari maltviskí en í Yoichi. Mjög lítið er notast við mó, svo viskíin þaðan eru óreykt, létt, fersk og ávaxtarík. Afskaplega aðgengileg og þægileg viðureignar.

Miyagykio er, eins og staðan er þegar þetta er skrifað, eingöngu án aldursgreiningar en 12 og 15 ára voru tekin af markaði nýverið af ofangreindri ástæðu. Af öðrum vörum á vegum má helst nefna Nikka From The Barrel sem er gríðarlega vinsæl blanda og það ekki að ástæðulausu. Afskaplega vel samsett viskí eins og Japana er von og vísa. Í Nikka FTB er notast við töluvert hátt hlutfall maltviskís í bland við viskí úr öðrum korntegundum sem framleidd eru í síeimara, eða ,,continous still” sem er mun afkastameiri en potteimari en framleiðir léttari spíra.

From The Barrel er átappað nokkuð sterkt eða 51.4% alkóhól sem eykur á upplifunina. Þarna kemur fram mikill ávaxtakeimur, eik, krydd, vanilla og svolítið blómlegt. Geysilega glúrið viskí og það á fantagóðu verði. Það er erfitt að slá Nikka FTB við hvað það varðar.

Nikka Pure Malt Black er önnur vinsæl vara frá Nikka. ,,Pure Malt” vísar til þess að þarna er eingöngu maltviskí á ferð, en ekki einmöltungur því viskíið er blanda tveggja einmöltunga, Yoichi og Miyagykio, semsagt tvímöltungur. Þarna koma saman léttreykt viskí frá Yoichi og óreykt frá Miyagykio. Reykurinn lifir nokkuð góðu lífi í bland við léttleikann frá Miyagykio. Ávaxtabomba með góðum keim af eik, kryddi og karamellu og nokkuð sætt.

Annað viskí frá Nikka sem er ekki hægt annað en að minnast á er Nikka Coffey Grain en það er kornviskí (maís) eimað í síeimara en ekki potteimara. Coffey heitið vísar til mannsins sem fullkomnaði síeimarann (continuous still) en sá var írskur og hét Aeneas Coffey. Afar skemmtilegur dropinn at arna. Mætir þín í glasinu frískt, fjörlegt og fírugt. Mjög líflegt og slungið en á sama tíma silkimjúkt og fíngert, sætt og anganin minnir ögn á háklassa búrbonviskí. Það kannski segja að Nikka Coffey Grain sé týndi hlekkurinn milli búrbons og einmöltungs hvað bragð og angan varðar.

Öll þau viskí sem Nikka framleiðir hafa unnið aragrúa verðlauna á heimsvísu og það verðskuldað. Margir fetta sig og bretta þegar minnst er á japanskt viskí og halda að þeir kunni nú ekki mikið fyrir sér í þeim efnum, en staðreyndin er sú að japönsk viskí eru framúrskarandi vel flest. Vissulega eru til undantekningar eins og allsstaðar, en háklassa viskí frá Japan standa mörgum þekktari framleiðslulöndum síst að baki. Sem fyrr segir þá hefur viskí verið framleitt í Japan frá fyrri hluta sl. aldar og það sem Japanir gera, það gera þeir vel. Þarna er virkilega vandað til verka og verður að segjast að það sem Nikka býr til, það er gert af einurð og alúð og skilar það sér sannarlega í lokaútkomunni.

Það er alveg óhætt að mæla með Nikka viskíum fyrir hvern þann sem hefur smekk fyrir lífsins vatni og vill prófa eitthvað nýtt, sem og fyrir þá sem eru nýgræðingar, grænjaxlar í viskíneyslu, alvanir og allt þar á milli.

Auk alls viskísins sem streymir frá Nikka verksmiðjunum Yoichi og Miyagikyo þá má þar einnig finna gin sem er eitt það allra besta á markaðnum í dag. Það hefur vart farið framhjá gin aðdáendum að það er gríðarleg gróska í ginframleiðslu þessi misserin. Það helst kannski ögn í hendur við þessa auknu eftirspurn eftir viskíi, því jú, þegar viskí er framleitt þá þarf að bíða 3 ár hið minnsta eftir að koma vörunni á markað. Þar sjá ný viskíból sér leik á borði og búa til gin meðan beðið er eftir viskíinu, því gin þarf engan þroskunartíma og getur farið beint í sölu.

Nikka Coffey Gin er framleitt í Coffey-eimurum rétt eins og Nikka Coffey Grain hér að ofan og inniheldur sítrusávexti frá Japan; yuzu, kabosu, amanatsu og shequasar í bland við hefðbundnari hráefni, þ.e. einiber, appelsínu- og sítrónubörk og hvönn.

Niðurstaðan er afar líflegt, ferskt, sítruskennt gin sem er algerlega fullkomið með góðu tóniki og nettri sneið af sítrónu eða súraldini. Fullkomið með rísandi sól, betri tíð með blómum í haga.

Share Post