Roqueta – víngerðarfjölskylda í 800 ár

Það virðist nokkuð almennt heilkenni í starfsemi víngerðarhúsa að komist fólk á annað borð upp á lag með að búa til vönduð vín þá sé þar með fundinn farvegur fyrir fjölskylduna til framtíðar. Mörg bestu vínhúsin í Evrópu (og víðar) byggja þannig oftar en ekki á aldagamalli hefð sem hófst á því að einhver ættfaðirinn í grárri forneskju tók upp á því að búa til vín, tókst vel til og þar við sat. Við neytendur njótum góðs af; hafi til að mynda fyrirtæki verið í starfsemi allt frá árinu 1199, eins og tilfellið er með Roqueta-víngerðina í Katalóníuhéraði á Spáni.

Kynslóð af kynslóð, öld eftir öld

Svo er erfðalögum Katalóníu að þakka (þau kveða á um að jarðnæði skuli erfast til elsta sonar) að allt aftur til ársins 1199 eru til skrásett gögn um að á óðalssetrinu Mas Roqueta í Mið-Katalóníu hafi fjölskylda með því nafni haft þar búsetu og það sem meira er, haft atvinnu af því að rækta vínvið og framleiða úr þrúgunum vín. Reyndar hafa fundist fornminjar í uppsveitum Katalóníu sem sýna að víngerð hefur verið stunduð þar allt frá tímum Rómverja, svo aldamótin 1200 eru kannski ekki svo fjarlæg fortíð í hinu stóra samhengi. En allt um það, í upphafi var vínið, og vínið var framleitt af Roqueta-ættinni. Elsta þekkta nafnið sem gögn eru til um er Jaume Roqueta sem tók við hefðinni árið 1377, og árið 1407 tók elsti sonur hans, Pere Roqueta við. Þannig hefur það gengið kynslóð fram af kynslóð, öld eftir öld. Á næsta ári fagnar ættin 810 ára búsetu- og víngerðarafmæli sínu á staðnum þar sem allt hófst í upphafi – Mas Roqueta.

Hinn drífandi dugnaðarforkur

Roqueta-fjölskyldan ávann sér snemma orðspor sem ærlegt, duglegt og vandað fólk. Það var því ekki talin tilviljun þegar hin ægilega drepsótt Svarti dauði stráfelldi íbúa Evrópu án miskunnar á fjórtándu öld, að það var sem plágan sneiddi alveg framhjá Mas Roqueta; þar varð að sögn engum manni, konu eða barni misdægurt. Gekk svo fram um aldir að allt var í velstandi á Roqueta-óðalinu. Til tíðinda dregur svo loks undir lok 19. aldar þegar við búinu tekur dugnaðarforkurinn Ramón Roqueta Torrentó. Hann sá augljós tækifæri til frekari vaxtar fyrirtækisins og setti því upp verslunaraðstöðu á framleiðslu Roqueta-búsins, aðallega víni en einnig kartöflum, í bænum Manresa sem er um 24 kílómetra Suð-vestur af Mas Roqueta. Framtakssemi hans og dugnaður áttu sér lítil takmörk og árið 1928 hóf fyrirtækið útflutning á rauðvíni. Ramón var þá orðinn forseti samtaka vínframleiðenda í Manresa. Vöxtur og velgengni fyrirtækisins – sem tók upp nafnið Roqueta Origen árið 2009 – hefur verið nánast sleitulaus síðan og of langt mál er að telja þá sögu alla upp hér. Aðalatriðið er að forstjóri fyrirtækisins um þessar mundir heitir Valentí Roqueta, nema hvað.

Fyrirtækið er umsvifamikið í dag og telur alls fjórar mismunandi víngerðir; Bodegas Abadal, Lafou Celler, Crinrioja og loks Ramon Roqueta, sem heitir eftir hinum framtakssama forföður Valentí Roqueta, Ramón. Það er einmitt sú víngerð sem hefur vakið hvað mesta athygli hin síðustu misseri. Þykja vínin þaðan í senn frískleg, spennandi og afbragðsgóð, og sem dæmi um árangur þeirra má nefna að eitt rauðvínið frá Ramón Roqueta sem gert er úr Tempranillo-þrúgunni var nýlega valið sem aðalrauðvínið um borð fyrir farþega fyrsta farrýmis hjá hollenska flugfélaginu KLM. Vínekrurnar, alls um 54 hektarar, eru staðsettar í Fonollosa, um 18 kílómetra Norð-austur af Manresa, og vínin bragðmikil, sólrík og þykja sérdeilis góð matvín.

 

Hvernig væri að prófa?

Ramon Roqueta Reserva 2013

Vinotek segir;

 

„Bodegas Ramon Roqueta er vínhús í Katalóníu á Spáni sem sendir frá sér traust og vel gerð vín á frábæru víni eins og þetta rauðvín úr blödnunni Tempranillo og Cabernet Sauvignon sem hefur um nokkurt skeið verið eitt af ódýru „go to“-vínunum okkar. Þessar tvær þrúgur spila afskaplega vel saman, dökkrauð ber í nefi, aðallega kirsuber þótt þarna sé líka vottur af sólberjum, ávöxturinn umlukinn mildri eik, með smá kaffi og reyk. Mjúkt og þægileg. Afskaplega fágað og elegant fyrir vín í þessum verðflokki. 1.899 krónur. Frábær kaup, afskaplega flott fyrir þetta verð sem gefur víninu fjórðu stjörnuna fyrir hlutfall verðs og gæða. Með nautakjöti.“

Share Post