Rioja – kraftmikil vín fyrir bragðmikinn mat

Vín frá spænska héraðinu Rioja [rí-okka] eru Íslendingum að góðu kunn og hafa lengi átt samleið með hérlendum matgæðingum og sælkerum. Þá er ekki bara átt við að elstu rituðu heimildir um víngerð í Rioja eru frá árinu 873 og þar af leiðandi svo að segja jafngamlar Íslandsbyggð upp á ár, heldur hafa hin kraftmiklu og rækilega eikuðu vín frá héraðinu fallið vel að smekk okkar Íslendinga. Við kunnum að meta kryddaðan mat og við elskum grillaðan mat. Hvort tveggja smellpassar með Rioja-vínum.

 

Heimavöllur Tempranillo

Um 85% af víni sem framleitt er í Rioja er rauðvín, og langstærstur hluti þess er unninn úr þrúgunni Tempranillo. Algengt er að rauðvín frá Rioja sé 60-80% Tempranillo og afgangurinn einhver hlutföll af þrúgunum Garnacha, Mazuelo og Graciano. Tempranillo er þó potturinn og pannan í Rioja-rauðvínum og meðal helstu kosta þessarar öndvegisþrúgu er að hún geymist vel og drekkur hæglega í sig karakterinn úr eikarámum. Vínið kemur því á flöskurnar oftar en ekki hlaðið vanillutónum, auk þess sem þrúgan hefur sérlega fallegan fjólurauðan lit. Graciano og Mazuelo auka svo enn við bragðið á meðan Garnacha leggur til aukna fyllingu og áfengismagn endanlegs víns. Frá Rioja koma einnig fyrirtaks hvítvín, einkum úr þrúgunni Viura, og rósavínin eru mörg hver fantagóð.

tempranillo

 

Virðingarstigi Rioja-vína

Rauðvínin frá Rioja skiptast í fjóra flokka og byggir kerfið á því hversu lengi hvert vín hefur fengið að þroskast. Fyrsti flokkurinn nefnist einfaldlega Rioja og slík vín hafa þroskast skemur en eitt ár á eikarámu. Crianza kallast þau vín sem hafa fengið að þroskast í að minnsta kosti tvö ár, þar af minnst eitt á eik. Rioja Reserva nefnast svo þau vín sem hafa þroskast minnst í þrjú ár, þar af minnst eitt á eik og loks eru Rioja Gran Reserva efst í virðingarstiganum; þau eiga að baki minnst tvö ár á eikartunnu og svo þrjú til viðbótar á flöskunni.

rioja-wine-classifications1
Akkúrat vínið fyrir næstum allan mat

Það er ein helsta ástæðan fyrir vinsældum vínanna frá Rioja, og hér er ekki síst átt við rauðvínin úr Tempranillo, að þau eru svo framúrskarandi matvín – þau passa með nánast öllum bragðmiklum mat. Hér nægir að nefna nautakjöt, ekki síst kolagrillað, hvers konar lambakjötsrétti, grillaðan fisk og skelfisk-paellu, sósuríka kjötrétti á borð við lasagna – það passar næstum allt með Tempranillo-vínum svo fremi sem maturinn hefur sjálfur voldugt og afgerandi bragð. Réttir á borð við villisveppa-risotto og ratatouille eru hér ekki undanskildir. Hafið bara í huga að Crianza-vínin eru fín með matnum á virkum degi á meðan Rioja Gran Reserva eru vín fyrir betri tilefni.

 


 

 

Hvernig væri að prófa?

 

Cune Crianza 2012

3,5star

crianza

Vinotek segir;

„Crianza-vínið frá Cune kemur nú með skrúfuðum tappa í fyrsta skipti, sem er ekki óvitlaust fyrir vín sem þessi þar sem við viljum halda í ferskleika ávaxtarins. Rauð ber, rifsber og trönuber, mild eik, vel uppbyggt, mjúk tannín. Þægilegt og flott. 2.299 krónur. Mjög góð kaup.“

Cune Reserva 2011

fjoraroghalf

cune-reserva

Vinotek segir;

„Cune er eitt af þremur vínhúsum innan CVNE (Compania Vinicola del Norte de Espana). Hin tvö heita Vina Real og Contino og öll þrjú hafa sína sérstöðu í Rioja og eru í hópi þeirra bestu í sínum flokki. Klassískt Rioja. Dökk ber, skógarber, sólber, krækiber, nokkuð eikað, þarna er ristað kaffi, reykur og vanilla, smá leður. vel balanserað, þykkt, þétt og flott. Frábært kjötvín. 2.999 krónur. Frábær kaup.“

 

 

Muga Reserva 2012

4star

b_muga_reserva1

Vinotek segir;

„Muga hefur í gegnum árin verið eitt af allra bestu vínhúsum Rioja, að mörgu leyti skólabókardæmi um hvernig vín þessa héraðs eiga að vera. Stíllinn er klassískur Rioja-stíll, sem hefur engu að síður þróast með nútímalegri áherslum í héraðinu.

2012 er klassískur Muga, Dökkur kirsuberjaávöxtur í bland við sólber, kryddað, töluvert dökkristað kaffi, vanilla. Flott og vel strúktúrerað, kröftugt, öflug en mjúk tannín, langt. Kjötvín. 3.990 kr. Frábær Kaup. Vín fyrir grillað rib-eye eða T-bone.“

  

Cune Imperial Reserva 2011cune-imperial-reserva-copy

Víngarðurinn Vín og Fleira segir:

„Ég fer ekki ofan af því að bestu kaup sem okkur standa til boða í hillum vínbúðanna þessi misserin eru vín frá Spáni. Með fullri virðingu fyrir frábærum vínum frá Frakklandi og Ítalíu þá er það makalaust hvað Spánn getur boðið góð vín á góðu verði um þessar mundir. Imperial Reserve vínið frá Cune er enginn aukvisi. Það vita flestir þeir sem á annað borð fylgjast eitthvað með því sem gerist í heimi vínsins. Undanfarin ár hefur þetta vín sópað til sín verðlaunum og einkunnum útum allar jarðir og það er gaman að það skuli fást hérna á landi. Það kemur auðvitað frá Rioja og er að langstærstum hluta úr þrúgunni Tempranillo. Árgangurinn 2011 var einn af þeim betri í Rioja og það er þroskað samkvæmt hefð í heilt ár í frönskum og bandarískum eikartunnum, sem finnst vel í nefinu. Það hefur mjög þéttan plómurauðan lit og hefur vel opinn og framúrskarandi skemmtilegan ilm af eikartunnum, vanillu, kirsuberjum, hindberjasultu, sultuðum aðalbláberjum, tóbaki, balsam, súkkulaði, kóngabrjóstsykri, lakkrís, leðri og plómum. Það er þurrt, gegnheilt, með töluverða sýru og gnægð mjúkra tannína. Það er afar langt og vel byggt með stóran en jafnframt afar glæsilegan bragðprófíl. Þarna má finna plómu, sultuð bláber, sólber, rjómakennda vanillu, Mon-Chéri-mola, þurrkaðan appelsínubörk, mómold og tóbak. Alveg hreint ótrúlegt vín og fyrsta vínið í ár sem fær fimm stjörnur hjá mér. Tími til kominn. Hafið með betri steikum, nauti, lambi, grillaðri hrossalund og þesskonar mat. Fínt líka með villibráðinni. Þetta vín endist vel næstu 6-8 árin ef menn vilja eiga eitthvað í kjallaranum.“

 

 

Share Post