Leffe – 800 ár af öndvegisbjór

Þeir sem kunna laglínuna úr einu frægasta lagi Bítlanna, Let It Be, geta farið með eftirfarandi ölsöng næst þegar þeir slá tappa úr Leffe. Hann varð einhvern tímann til undir innblæstri frá þessum tímalausa klausturbjór:

Ef ég aumur er og ekki’ í stuði,

óðara að bjórnum sný.

Belgískur úr klaustri,

Leffe it be.

Og ef glaumurinn og gleði ríkja,

glasið seilist alltaf í –

Úrvalsöl úr klaustri,

Leffe it be.

Þetta er auðvitað ekki ýkja merkilegur skáldskapur en í honum flest þó það sannleikskorn að Leffe er bjór sem á einhvern veginn alltaf við; hvernig á bjór annars að ná næstum 800 ára sögu? Það er einmitt tilfellið með munkabjórinn Leffe en saga hans nær aftur til ársins 1240. Reyndar byrjar saga klaustursins árið 1152 er klaustrið Notre-Dame de Leffe var reist skammt norður af borginni Dinant í vestuhluta Belgíu, skammt frá landamærunum við Frakkland. 1240 hófst hins vegar bjórgerðin og það er árið sem miðað er við.

Hvað sem trúrækni hvers og eins kann að líða þá hugsa margir sælkerar og bjórspekingar með hlýju til miðaldamunkanna sem brugguðu bjór af list, óáreittir af umheiminum í friði og spekt klaustranna og hófu þannig hefðir sem ennþá lifa í dag. Margir kunna að spyrja sig hvers vegar í veröldinni munkar, af öllum mönnum – oftar en ekki meinlætamenn á mat og drykk – komust upp á lagið með að brugga svo listagóða bjóra? Var það ef til vill til að lífga upp á tíðindalítinn og dauflegan hversdaginn með smá ölsopa, eða átti mild ölvun að koma munkunum í hástemmt ástand sem gerði þeim kleift að komast nær guði? Var bjórinn máske ætlaður til sölu og þar af leiðandi til tekjuöflunar til að reka klaustrin?

 

Ekkert af þessu er þó rétt. Á miðöldum geisuðu nefnilega illvígar drepsóttir reglulega enda smit ákaflega auðvelt við þær hreinlætisaðstæður sem almennt þóttu boðlegar. Um það leiti sem munkarnir við Leffe-klaustrið hópfu bjórgerð var taugaveiki sérstaklega skæð og til að stemma stigu við hættunni á að drekka mengað vatn hófu munkarnir að brugga, því suðan og gerjunin drap alla óværu sem í vatninu kunni að felast. Afraksturinn var bæði ætlaður íbúum klaustursins en ekki síður fyrir gesti, en eins og gefur að skilja bauð trúin munkunum að taka á móti þeim sem bönkuðu upp á klausturdyrnar til að beiðast næturstaðar og hressingar. Leffe-bjórinn spurðist út, heimsóknir gerðust æ tíðari og á móti gestum var tekið með krús af hinu nafntogaða öli enda trúboðið viðvarandi og ef það kostaði könnu af bjór að snúa einhverjum til sáluhjálpar kristinnar trúar, þá gott og vel. Klaustrinu og guðlegum yfirvöldum héraðsins þótti það hóflegt gjald.

  
Klaustrið gekk vel gegnum aldirnar en fékk engu að síður sinn skerf af áföllum og óáran. Byggingin skemmdist illa í flóði árið 1460 og sex árum síðar skemmdist það enn verr í stórbruna. Árið 1735 unnu hermenn, sem skotið hafði verið skjólshúsi yfir, miklar skemmdir á klaustrinu áður en þeir héldu sína leið. Ef til vill var bjórinn búinn og það féll þeim svo illa. Alltént, klaustrið stóð þó af sér dauða og drepsóttir, allt þar til Franska byltingin bankaði upp á og barði klaustið niður í kjölfarið árið 1794. Kirkjubyggingin var gereyðilögð og eignum klaustursins skipt. Munkarnir reyndu að þrauka en þeir síðustu yfirgáfu Leffe árið 1802, og staðurinn þá ekki nema svipur hjá sjón, þegar útséð var um að þeir fengju að reisa klaustrið aftur til fyrri  vegs og virðingar. Munkarnir sneru svo aftur árið 1902.

Hálfri öld síðar, árið 1952, hófst svo loks bjórgerðin á ný. Klaustrið gerði samkomulag við brugghús í fullum rekstri, fyrsta samkomulag sinnar tegundar, og enn í dag fara greiðslur til klaustursins. Í kjölfarið urðu til fjölmargir fleiri „munkabjórar“ sem framleiddir eru á svipuðum grundvelli. Fáir eiga sér þó jafn langa og viðburðaríka sögu og Leffe.

Leffe fæst í dag í nokkrum útfærslum og þar af eru grunngerðirnar, ljós og dökkur, langvinsælastir.

Leffe Blonde hefur góða fyllingu, er þurr með sætuvott, ferskur, miðlungsbeiskja með þéttan malt- og negulkeim og mjúka ávaxtatóna. Hann passar vel með ýmsum kjötréttum og sérstaklega grilluðu svínakjöti ásamt reyktum og gröfnum laxi og úrvali osta.

Leffe Brune er dökk-hnetubrúnn að lit og falleg froða prýðir bjórinn í glasi sínu. Bjórinn hefur góða fyllingu í munn og matarmikill með smá karamellu . Bragðmikið og flókið bragð með ljúfum sætum malt og ávöxtum. Ljúfur eftirkeimur sem varir lengi. Hann passar vel með sætum réttum, Parmaskinku, ostum, tómat pastaréttum og súkkulaði.

Share Post