Hvernig vínglös þarftu að eiga?

Það tilheyrir jafnan heimilishaldi að eiga svolítið safn glasa sem ætluð eru undir léttvín. Einhver kynni að halda þetta einfalt mál – glas er jú bara glas, er ekki svo? Nei, satt að segja eru heldur meiri vísindi í þessum pælingum en svo að eitt glas dekki allar sortir víns. Rétt eins og vín eru af mörgum og margvíslegum gerðum eru glösin fyrir þau að sama skapi talsvert fjölbreytt. Fyrir því er góð og gild ástæða; það að nota glas við hæfi dregur fram bestu eiginleika vínsins og gerir kleift að njóta þeirra sem best.

 

Byrjum þetta einfalt

Nú er það svo að til eru rauðvínsglös, hvítvínsglös og freyðivínsglös. Við ætlum að skoða þetta hér á eftir, ásamt glösum fyrir styrkt eftirréttavín, án þess að sökkva okkur of djúpt í fræðin. Það eru nefnilega til margvísleg rauðvínsglös, sem og hvítvínsglös. Meira að segja freyðivín á sér nokkur ólík glös. En við skulum hafa þetta einfalt. Áhugasamir geta hæglega leitað sér meiri fróðleiks um muninn á Bordeaux-glösum og Búrgúndar-glösum. Það sem við þurfum að hafa bakvið eyrað er að vínglas samanstendur af fjórum þáttum sem eru: Fótur, stilkur, belgur og op.

Rauðvín

Rauðvín eru alla jafna nokkuð bragðmikil og því fer best á því að njóta þeirra í stóru vínglasi, með víðum belg og frekar stóru opi. Það gerir manni kleift að snúa víninu vandalaust um í glasinu þegar smakkað er og opið er nægilega stórt til að nefið komist með góðu móti að til að finna hvaða lyktartónar felast í víninu. Belgvíddin býður líka upp á meira yfirborð fyrir vínið svo það kemst í aukna snertingu við loft og töfrar þess leysast í kjölfarið úr læðingi.

Hvítvín

Hvítvínsglös eru minni um sig en rauðvínsglös, ásamt því að vera hlutfallslega með umfangsminni belg. Lögunin er því meira í áttina að „U“ sem leyfir víninu að komast í snertingu við loft um leið og vínið helst svalt, en hvítvín eru jafnan borin fram kaldari en rauðvín.

Freyðivín

Hvort heldur við erum að tala um kampavín, prosecco, cava eða aðrar útfærslur freyðivína, þá gildir um þau að glösin eru hlutfallslega belgmjó og upphá, með þröngu opi. Kallast þau „flute“ á ensku og frönsku. Þessi lögun heldur víninu svölu og það sem mikilvægara er, kemur í veg fyrir að kolsýran gufi strax upp úr víninu. Við viljum jú hafa „bubblur í sjampóinu“ okkar, eins og einhver sagði.

Eftirréttavín

Hér erum við að tala um sérrí, púrtvín, madeira, sætvín og fleiri slík. Glös fyrir slík vín eru talsvert minni en fyrir léttvín því áfengismagn þeirra er nokkru hærra, og einnig til að beina vökvanum aftar í munninn þegar dreypt er á glasinu, svo sætan í bragðinu verði ekki of mikil en það er hætt við því þegar tungubroddurinn er kaffærður í sætu.

Share Post