Domaine des Malandes: með hvítvínskveðju frá Chablis

Þeir sem á annað borð kunna að meta hvítvín eiga sér oftar en ekki eftirlætistegund, þ.e. uppáhalds hvítvínsþrúgu, enda karakter einnar þrúgu jafnan ólíkur þeirri næstu. Þannig hafa Riesling iðulega sætan ávaxtakeim sem minnir á allt frá límónu yfir í apríkósur. Sauvignon Blanc er „grænt“ á bragðið og með grösugum ilmi á meðan Gewurztraminer hefur oft höfugan, sætan tón, jafnvel alla leið í sykrað engifer. Viognier-hvítvín eru aftur á móti búin ríkum blómailmi.

Hin sérstæðu Chardonnay-vín

Chardonnay-vín eru síðan kapítuli út af fyrir sig. Þau eru að líkindum þau vinsælustu í veröldinni, en þar getur bragðið verið verulega frábrugðið frá einu landi til annars, jafnvel frá einu héraði til annars, og hvað þá ef vínið hefur fengið að þroskast á eik. Chardonnay er nefnilega sú þrúga sem dregur hvað mestan dám af kringumstæðum sínum, ræktunarsvæði sínu og veðurfari. Chardonnay-hvítvín sem koma frá svæðinu Chablis ( lesist „sjablí“ ) í Norðurhluta Búrgúndar-héraðs í Frakklandi eru með þeim allra eftirsóttustu, fyrir afar sérstakar sakir, og í ræktun þeirra er víngerðin Domaine des Malandes á heimavelli. En kíkjum fyrst aðeins á hvað það er sem ljær Chablis-vínum sérstöðu sína.

Kafað undir yfirborðið

Til að finna ástæðuna fyrir hinum sérstæða karakter Chardonnay-vína frá Chablis þarf að kafa undir yfirborðið, ef svo má segja – alla leið ofan í jarðveginn. Chablis-svæðið var nefnilega hafsbotn á forsögulegum tíma og allt til dagsins í dag gerist það endrum og sinnum að við jarðvegsvinnslu þar skila steingervingar sjávardýra sér upp á yfirborðið. Leifar af steingerðum sjávardýrum mynda semsé jarðveginn ásamt leir og kalksteini og slíkt undirlag nefnist „Kimmeridge“-jarðvegur. Þetta gerir það að verkum að Chablis er að flestra mati sérstæðasta afbrigðið af Chardonnay og bragðtónar sem finnast þar, finnast einfaldlega ekki í þrúgunni staðar annars.

Best allra vína með sjávarfangi

Chablis-gefur skýrt til kynna í bragði vínsins hvaða efni það eru sem næra rætur vínviðarins; þar er að finna kalktóna, steinefni og afar sérstæðan keim af seltu. Ekkert annað hvítvín státar af þess háttar bragðprófíl og þegar fólk hefur fengið gott Chablis-hvítvín getur það hreinlega orðið að þráhyggju að komast yfir gott vín frá Chablis. Margir matgæðingar eru á því að ekkert hvítvín sé eins stórkostlega gott með sjávarfangi og Chablis og það má svo sannarlega til sanns vegar færa. Chablis-hvítvínin eru til að mynda hreint framúrskarandi vín með skelfiski hverskonar, enda rímar bragðið óaðfinnanlega við þess háttar sjávarfang. Ostrur, hörpudiskur og rækjur fara frábærlega með Chablis, einnig krabbi og annars konar fiskur. Vínið passar reyndar líka prýðilega með kjúklingi og salati sömuleiðis en gætið þess bara að best er Chablis þegar það er borið fram svalt, fremur en ískalt.

Sérfræðingar í Chablis

Þegar framleiðslan frá Domaine des Malandes er skoðuð sést að þarna er á ferðinni víngerð með mikla reynslu af Chablis-framleiðslu; nærfellt öll vínin eru af þessari sérstöku og eftirsóttu tegund. Víngerðin er hefur hinsvegar aldrei lagt áherslu á framleitt magn en þess í stað einblítt á gæði uppskerunnar og framleiðsluaðferðir sem laða fram það besta í þrúgunum. Upphafið má rekja til ársins 1949 þegar hjónin André og Gabrielle Tremblay hófu vínrækt við erfið skilyrði. Dóttir þeirra, Lyne, tók við rekstrinum og ræktuninni árið 1973 og rétti börnum sínum, Richard og Amandine, svo keflið árið 2018 þegar hún sjálf settist í helgan stein. Það er svo til marks um hve smár reksturinn er í sniðum að auk systkinanna starfa aðeins tíu manns í Domaine des Malandes. Þar á meðal er víngerðarmeistarinn Guenole Breteaudeau líklega mikilvægastur. Hæfileikar hans fara ekki á milli mála þegar flaska af Chablis frá Domaine des Malandes er opnuð – og vínið bragðað.

 

 

Hvernig væri að prófa?

 

Domaine Malandes Petit Chablis 2016

 

Vinotek segir;

„Domaine de Malandes er lítið fjölskyldurekið vínhús í Chablis sem lengi hefur verið í uppáhaldi hjá okkur enda vínin þaðan nær undantekningalaust virkilega vel gerð og aðlaðandi. Þessi Petit Chablis er einhver sá besti sem að við höfum smakkað frá þeim, einstaklega sjarmerandi hvítvín. Þéttur og þægilegur sítrusávöxtur í nefi, limóna, greipbörkur, míneralískt, svolítið feitt og mjúkt en með yndislega þægilegri sýru sem gefur ferskleika. Frábær kaup. Með skelfiski, jafnvel humar.“

 

Domaine de Malandes Vau de Vey 1er Cru 2015

 

Vinotek segir;

„Kvenskörungurinn Lyne Marchive ræður ríkjum í Domaine de Malandes og vínið sem hún gerir af Premier Cru-ekrunni Cau de Vey þykir alla jafna með þeim bestu frá því yrki sem er fyrst og fremst þekkt fyrir ferskleika sinn. Þetta er vín þar sem ávöxturinn er ríkjandi, lime og greip, ferskjur og blóm, flott og mikil sýra, þetta er vín sem er rétt að byrja, þarf 2-3 ár í viðbót til að sýna sína réttu dýpt.3.999 krónur. Frábær kaup. Með hvítlaukssteiktum humar eða góðum þorkréttum.“

Share Post