Allt er vænt sem vel er lífrænt

Það er kunnara en frá þurfi að segja að almenningur verður sífellt betur meðvitaður um kosti þess að vörur séu framleiddar með lífrænum hætti. Þetta á við nánast allt sem nöfnum tjáir að nefna en ekki síst neysluvörur, mat og drykk, því það eru hlutir sem við látum ofan í okkur. Það skiptir því máli hver uppruni vörunnar er. Fyrir bragðið verða kaupendur í auknum mæli kröfuharðir á að mat- og drykkjarvara sé framleidd í takt við þau viðmið sem almennt eru sett svo tiltekin vara getið hlotið vottun sem lífrænt framleidd, og það réttilega.

 

Hvað er „lífrænt“ þegar kemur að vínum?

Til að neysluvara geti talist lífrænt framleidd má ekki nota áburð við framleiðsluna (nema hann sé þá með öllu lífrænn sömuleiðis), né heldur illgresiseyði, skordýraeitur, sveppaeitur né annað sem ræktendur hafa vanið sig á að nota til að tryggja vöxt sinnar uppskeru. Sumir kunna að bera því við að það kosti of mikið að fylgja þessum viðmiðum, en stöldrum þar aðeins við; sé að gáð þá kemur í ljós hvað framleiðslu og sölu léttvína áhrærir, að neysla lífrænt vottaðra vína hefur vaxið hraðar en þeirra sem ekki hafa slíka vottun, sé litið til síðustu ára. Það er því eftir nokkru að slægjast fyrir þá sem vilja fylgja tíðarandanum. Þeir sem staðsetja sig snemma á vaxandi markaði njóta þess iðulega þegar fram líða stundir.

   

Uppruni lífrænt ræktaðra vína

Lífræn vín tóku fyrst að skjóta upp kollinum á markaðnum upp úr 1980 en náðu ekki neinni fótfestu að ráði til að byrja. Áhugasamir kaupendur voru fáir enda enginn að velta hugtakinu um “lífrænt ræktað” fyrir sér fyrir utan þröngan hóp þeirra sem vildu hugsa um heilsuna og gera það alla leið. Í dag, röskum 30 árum síðar, er umræðan um mikilvægi þess að hafa gildi lífrænnar ræktunar í hávegum og hljóta í kjölfarið vottun þess eðlis orðin mun almennari og fæstum hugnast að neyta matar eða drykkjar sem unnin er úr hráefnum sem böðuð hafa verið í kemískum efnum meðan á ræktun þeirra stóð.

 

Gott og vel – en eru lífræn vín raunverulega betri?

Í dag er svo komið að hátt hlutfall þeirra léttvína sem framleidd eru samkvæmt viðmiðum lífrænnar framleiðslu eru það sem kallast “premium” vín eða vín í sérstaklega háum gæðaflokki. Ýmsar ástæður hafa verið tíndar til þegar kemur að því að útskýra hvernig á þessu stendur. Margir hafa bent á að margir ræktendur lífrænna vína láta handtína þrúgurnar í stað þess að láta vélbúnað safna þrúgunum af vínviðnum á ekrunum, og þar af leiðandi rata einungis bestu klasarnir í framleiðsluna. Aðrir nefna að þegar vínekrurnar fá ekki kemískan áburð eða skordýraeitur þá verður vínviðurinn einfaldlega sterkari og sjálfbærari, bæði við að halda góðum vexti og eins að standast ásókn meindýra, sveppa og illgresis. Hann stendur slíkt einfaldlega betur af sér því hann hefur ekki fengið utanaðkomandi hjálp við það. Að sama skapi lífrænt ræktaður vínviður betur af sér óhagstæð veðrabrigði, sem geta hreinlega eyðilagt viðkvæmari vínvið eða í það minnsta stórskaðað uppskeruna.

  

Lífræn vín og súlfít

Sumir vilja meina að það sé ekki nóg að vínviðurinn sé uppræktaður samkvæmt lífrænum viðmiðum til að endanlega vínið teljist lífrænt, heldur verði vínið að vera alfarið laust við það sem kallast súlfít. Um þetta ríkir hins vegar ekki almenn sátt. Súlfít (öðru nafni brennisteins-díoxíð) er notað sem geymsluefni í víni, enda felur það í sér öfluga vörn gegn örverum og spornar einnig við oxun (sem gerir vínið rauðbrúnt með tímanum). Í dag er hins vegar svo komið að framleiðendur eru margir hverjir komnir upp á lag með að takmarka súlfít í víninu við þau sem verða náttúrulega til við gerjunina, og bæta þar af leiðandi engum frekari súlfítum við. Þess utan telja flestir kostir súlfíta við framleiðslu og geymslu víns vega mun þyngra en gallana – ef þeir eru þá einhverjir.

Emiliana – frumherji í framleiðslu lífrænna vína

Bræðurnir Rafael og José Guilisasti eru óumdeilanlega meðal frumherja í ræktun og framleiðslu lífrænna vína á heimsvísu. Víngerðin Bodegas Emiliana var stofnuð árið 1986 en þegar á árunum fyrir aldamótin síðustu þótti þeim eins og léttvínsmarkaðurinn væri um það bil að taka breytingum, ekki síst hvað varðaði þá síauknu meðvitund meðal neytenda um vörurnar sem þeir keyptu. Bræðurnir sáu að fólk tók að vanda valið á vínum sem það keypti, ekki bara af persónulegum heilsufarsástæðum heldur spilaði virðing fyrir náttúrunni og umhverfinu líka inn í, svo ekki var um að villast.

 

Þeir tóku sig því til og afréðu að umbreyta víngerð í heimalandi þeirra, Chile, þannig að framleiðslan væri öll 100% lífræn. Markmið þeirra var að sönnu háleitt – að framleiða vín í hæsta gæðaflokki og ganga um náttúruna með virðingu um leið. Nú þegar lífræn starfsemi þeirra nálgast 15 ára afmælið – árið 2001 fengu þeir ISO 14001 vottun, fyrstir vínhúsa í Chile – samanstendur framleiðslan af breiðri línu af lífrænt framleiddum vínum sem hafa sópað að sér verðlaunum og viðurkenningum. Framleiðslan er í dag að nær öllu leyti kolefnisjöfnuð og leitast við að umbúðir séu sem umhverfisvænstar.

Coyam – Vín ársins hjá Vínotek

Einn þekktasti og virtasti vínsérfræðingur þjóðarinnar er án nokkurs vafa Steingrímur Sigurgeirsson, en hann heldur meðal annars úti sælkera- og fróðleiksvefnum Vínótek. Hann valdi Coyam vín ársins 2016 og skyldi engan undra því vínið er hreint út sagt frábært.

Vínið hefur enda hlotið margvíslegar viðurkenningar síðasta áratuginn og þar á meðal má nefna að 2011 árgangurinn hreppti gullverðlaun á Annual Chile Wine Awards 2014 ásamt gullverðlaunum á Berliner Wein Trophy 2014. Þess má til gamans geta að heiti vínsins, Coyam, merkir „eik frá Chile“ á máli Mapuche-indíána sem voru upprunalegir íbúar mið- og Suður Chile. Það er um leið viðeigandi að eldforn eikartré standa umhverfis vínekruna þar sem Coyam-vínið varð til. Þetta er enn eitt dæmið um ástríðu þeirra Giuliasti-bræðra og starfsfólks þeirra gagnvart landinu sem þeir rækta og virðingu fyrir nátturu þess og sögu.

Emiliana Coyam 2012

Vinotek segir;

Coyam er magnað vín frá chilenska vínhúsinu Emiliana. Þrúgurnar koma frá Los Robles búgarðinum í Colchagua-dalnum og þetta er blanda úr  Syrah, Carmenere, Merlot, Cabernet Sauvignon, Mourvédre og Malbec. Ræktunin er lífefld og lífræn.

Dökkt á lit, fjólubláir tónar sem eru að byrja að víkja fyrir byrjandi þroska. Nef vínsins tekur á móti manni heitt, sætt og kryddað, þroskuð dökk ber,  kirsuber, kóngabrjóstsykur og sæt krydd. Það breiðir vel úr sér mjúkt og seyðandi, kryddað og spennandi. 3.499 krónur. Frábær kaup, magnað vín fyrir peninginn.


 

Lestu Adobe – Lífræn vín fyrir þig og umhverfið sem fjallar um Adobe vínin frá Emiliana.

Share Post