Willm Riesling Reserve 2014


Víngarðurinn Vín og fleira segir;

Ég dæmdi árganginn 2013 af þessu víni í fyrra (****) og þessi árgangur er ekki síðri, jafnvel nokkrum punktum betra. Það kemur auðvitað frá Alsace í Frakklandi, en heimavöllur Riesling-þrúgunnar er auðvitað sitthvoru megin við Rínarfljótið og eru vínstílarnir í Frakklandi og Þýskalandi nokkuð ólíkir þótt ég greini meiri samhljóm með þeim núna en í lok síðustu aldar.

Þetta vín er gyllt að lit með angan af hvítum blómum, sítrónu, steinaávöxtum,… lyche, eplum, steinefnum og súkkati. Virkilega spennandi og margslunginn ilmur af ekki dýrara víni. Það er meðalbragðmikið og þurrt með afar góða sýru (sem er helsta aðalsmerki Riesling-þrúgunnar) og keim af sítrónu, greipaldin, grænum eplum (og reyndar bökuðum Jonagold-eplum líka) og steinefnum. Það hefur flott jafnvægi milli ávaxtar og sýru og endar í örlitlum beiskum nótum sem minna á salmíaklakkrís. Afar fjölhæft matarvín og prófið það með asískum mat, allskonar krydduðum fiskréttum, sushi og alsöskum sérréttum, ef þið hafið aðgang að slíkum.

Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup.

Share Post