Ramón Roqueta Tempranillo Cabernet Sauvignon 2012

Víngarðurinn Vín og Fleira segir;

Síðast þegar þetta vín rak á fjörur Víngarðsins var það árgangurinn 2010 (***1/2) og árgangurinn 2012 er jafnvel heldur betri, sem gerir vínið að einum betri kaupunum í Vínbúðunum í dag. Það hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit sem komin er með múrsteinstóna og meðalopna angan af rauðum berjum, lakkrís, dökkum sultuðum berjum, eikartunnum, sveskju, balsam og þurrkuðum appelsínuberki. Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt með fína sýru og mjúk tannín og jafnvægið er prýðilegt. Þarna rekst maður á rauð ber, dökk sultuð ber, eikartunnu, plómu, balsam og þurrkaðan appelsínsubörk. Einfalt en bara afskaplega vel gert rauðvín sem fer vel með flestum kjötkenndum hversdagsmat, pottréttum, pítsu, pasta og rauðu kjöti. Verð kr. 1.899.- Frábær kaup.

Share Post