Karlmannlegir kokteilar á Bóndadaginn

 

Þá er bóndadagurinn genginn í garð, sem markar upphaf Þorrans samkvæmt hinu forna mánaðatali okkar Íslendinga. Sumir nudda þá saman höndum af tilhlökkun eftir hefðbundnum súrmat en hann er sannarlega ekki allra. Góður kokteill fellur hins vegar víðast hvar í kramið enda leitun að einhverju sem á betur við til að ljúka vikunni og fagna bóndadeginum en vel blandaður og bragðmikill kokteill. Í honum fer nefnilega saman fágun og karlmennska. Hvernig væri að koma elskunni sinni á óvart í tilefni bóndadagsins og koma honum á óvart með vel afgreiddum kokteil heimafyrir?

 

Kokteilbyltingin mikla

Tíska og smekkur manna gengur í hringi, eins og allt annað. Eitthvað kemst í tísku, dettur úr tísku, fellur í tímabundna gleymsku og er svo uppgötvað á ný, og kemst þá aftur í tísku. Í þeirri hanastélsbylgju – eða hreinlega byltingu – sem við höfum séð eiga sér stað síðustu 10 árin eða svo, hafa kokteilarnir sífellt orðið flóknari og furðulegri, stundum að því marki að þeir eru hreinlega farnir úr því að vera handverk og orðnir að vísindalegri samsetningu. Engin furða að listin að blanda kokteil er kölluð “mixology” í dag, sem gæti útlagst sem blöndunarfræði.

 

Hanastél sem glata ekki gildi sínu

En hin síðustu ár hefur sveiflan verið heldur til baka í heimi hanastélanna, og klassískur einfaldleiki á sífellt meira upp á pallborðið. Það er ekki ósennilegt að Don Draper og félagar hafi hér eitthvað að segja; þeir félagar á auglýsingastofunni Sterling Cooper í sjónvarpsþáttunum frábæru Mad Men fengu semsé herramenn hvarvetna ekki bara til að hysja upp um sig í klæðaburði og klippingu, heldur líka í kokteiladrykkju. Engar regnhlífar og óþarfa skraut, engir regnbogalitir, engin há glös á fæti; bara einfaldir drykkir í einföldum glösum – með snörpum skammti af áfengi. Kíkjum nánar á nokkra karlmannlega kokteila.


Whiskey Sour

Kokteilar verða ekki einfaldari en þetta; sterkt áfengi til grundvallar, vatn til að þynna niður sprúttið, sykur til að gefa sætu og loks bragðauki, nánar tiltekið sítrónusafi. Uppruna drykkjarins má rekja til 18. aldar þegar enskur sjóliðsforingi að nafni Edward Vernon setti saman blöndu sem átti að hjálpa sjómönnum gegnum langsiglingar og meðfylgjandi kvillum. Hann hrærði saman rommi (sem þótti auðdrekkanlegasta brennivínið), sítrónusafa (C-vítamín læknar skyrbjúg), og setti sykur til sætu og skvettu af vatni til að minnka áfengismagnið, svo sjómennirnir væru ekki á skallanum um allt skip. Drykkurinn koms svo fyrst fram sem uppskrift í hinni víðfrægu “The Bartender’s Guide” frá 1862, eftir Jerry nokkurn Thomas. Seinna var uppskriftin fullkomnuð með eggjahvítunni sem öllum kokteilsælkerum finnst ómissandi í dag.

 

Aðferð:

Setjið 60 millilítra af Jim Beam bourbon í kokteilhristara

Bætið við 30 millítrum af sítrónusafa,

bætið við 30 millilítrum af sykurvatni (15 ml flórsykur + 15 ml vatn, blandað)

3-4 skvettum af Angostura bitter

og einni stórri eggjahvítu.

Hristið allt saman í 15-20 sekúndur.

Bætið 5-7 ísmolum við í kokteilhristarann og hristið aftur í 10 sekúndur.

Setjið 5 væna ísmola í tumbler-glas og hellið svo kokteilnum gegnum sigti út í.

Skreytið með 2 dökkum kokteilkirsuberjum þræddum upp á prjón.


Old Fashioned

Hananú, það hlaut að koma að honum – sjálfum eftirlætisdrykk Don Draper. Þessi drykkur er jafn einfaldur og Whiskey Sour og jafnvel enn meiri negla. Saga hans nær aftur til ársins 1880 er merkur barþjónn frá borginni Louisville í Kentucky að nafni James E. Pepper setti drykkinn saman fyrsta sinni. Seinna tók hann uppskriftina með sér til New York og skóp sér nafni fyrir drykkinn frábæra á barnum á því goðsagnakennda hóteli, The Waldorf-Astoria. Eins og með Whiskey Sour þarftu að eiga Angostura bitter til taks.

 

Aðferð:

Setjið mola af hrásykri í tumbler-glas

Vætið sykurmolann með 3-4 skvettum af Angostura-bitter

Hellið nægu sódavatni (án bragðs) í glasið til að flæði yfir molann

Brjótið sykurmolann með steytara og hrærið síðan uns hann er uppleystur

Hellið 60 ml af Maker’s Mark bourbon út í sykurblönduna

Setjið einn stóran (eða 2-3 minni) ísmola út í og hrærið uns glasið er orðið kalt.

Skreytið með sneið af appelsínuberki, og nuddið fyrst brúnirnar á glasinu með berkinum.


Dark ‘N’ Stormy

Fyrir þá sem vilja eitthvað eilítið mildara – en þó eftir sem áður karlmannlegt svo hæfi Bóndadeginum – þá er rommkokteillinn Dark ‘N’ Stormy gráupplagður. Nafnið vísar til tveggja megin innihaldsefnanna, þar sem dökka rommið er “Dark” og engiferbjórinn er “Stormy”. Gætið að því að ef drykkurinn á að vera alvöru Dark ‘N’ Stormy þá verður rommið að vera Gosling Black Seal Rum. Það eru lög í Bandaríkjunum sem segja það, góðir hálsar.

 

Aðferð:

Fyllið hátt glas af litlum ísmolum.

Hellið 60 millítrum af Gosling Black Seal rommi yfir ísmolana.

Fyllið upp í glasið með engiferbjór.

Skreytið með límónusneið eða límónubát.

Share Post