Tagliatelle með ítalskri kryddpylsu og sveppum

 

Fyrir 2-3

 

Hráefni

Ítölsk grillpylsa (sterk krydduð), 300 g / Tariello, fæst frosin í Melabúðinni

Eggja tagliatelle, 250 g

Laukur, 100 g

Sveppir, 100 g

Hvítlaukur, 2 rif

Tómatar, 1 dós / 400 g

Hvítvín, 1 dl

Kjúklingakraftur, 1 tsk

Provance krydd, 1 tsk

Hvítlauksduft, 0,5 tsk

Rjómi, 80 ml

Parmesan ostur, 20 g

Steinselja, 8 g

Klettasalat, 30 g

Aðferð

 • Takið utan af pylsunum og stappið kjötið með gaffli.
 • Saxið lauk, rífið eða skerið sveppi í litla bita og pressið hvítlauk.
 • Hitið olíu á pönnu eða í steypujárns potti við meðalháan hita og steikið sveppina þar til þeir eru farnir að brúnast aðeins. Lækkið hitann ögn, bætið lauk út á ásamt smá salti og steikið þar til laukurinn er orðinn glær og mjúkur (varist að brúna laukinn), bætið pressuðum hvítlauk út á og steikið áfram í 1 mín til viðbótar.
 • Hækkið hitann og bætið kjötinu út í. Steikið og hrærið reglulega í þar til kjötið er fulleldað og aðeins byrjað að brúnast. Bætið hvítvíni út í og látið sjóða niður í smástund.
 • Kremjið tómatana með höndunum og bætið út í ásamt vökvanum úr dósinni.
 • Bætið kjúklingakraft, provance kryddi, hvítlauksdufti, 1 tsk af flögusalti og rjóma út í.
 • Rífið helminginn af parmesan ostinum út í og stillið hitann á miðlungshita. Látið malla undir loki í 10 mín og svo án loks í 15-20 mín eða þar til kjötsósan hefur þykkst hæfilega.
 • Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum framleiðanda á meðan kjötsósan mallar en takið um 0,5-1 dl af pastavatninu frá áður en því er hellt frá pastanu.
 • Hækkið hitann undir kjötsósunni og bætið smjörklípu út í sósuna. Bætið því næst nokkrum msk af pastavatninu út í kjötsósuna en látið sjóða vel á milli. Sterkjan í pastavatninu mun hjálpa til við að láta sósuna loða betur við pastað þegar öllu er blandað saman.
 • Saxið steinselju og hrærið saman við kjötsósuna ásamt tagliatelle og rífið parmesan ost saman við.
 • Berið fram með klettasalati og rifnum parmesan osti.

Vínó mælir með: Cune Reserva með þessum rétt.

Uppskrift: Matur & Myndir