Marineruð lambakóróna með heimalagaðri bearnaise sósu og balsamic sveppum

Fyrir 2

Hráefni

Lambakóróna, 600 g

Rósmarín ferskt, 6 g

Hvítlaukur, 4 rif

Kastaníusveppir, 200 g

Timían ferskt, 2 g

Balsamic edik, 7,5 ml

Ósaltað smjör, 250 g

Eggjarauður, 4 stk

Nautakraftur, 2-3 tsk / Oscar

Estragon/Tarragon, 1 msk saxað ferskt eða 2 tsk þurrkað

Aðferð

Saxið rósmarín og pressið 3 hvítlauksrif. Hrærið saman við 3-4 msk af góðri olíu og bragðbætið með 1,5 – 2 tsk af flögusalti.

Skerið rákir í fituna á lambinu en varist að fara alla leið í gegn. Setjið lambakjötið í poka með marineringunni og nuddið marineringunni vel í kjötið. Látið marinerast í a.m.k. 3 klst, helst yfir nótt.

Bræðið smjör við vægan hita. Hitið smjörið þar til rétt naumlega er hægt að setja fingurinn ofan í smjörið vegna hita. Passið að smjörið sjóði ekki. Takið smjörið af hitanum og geymið á meðan eggjarauður eru hrærðar.

Hrærið eggjarauður og bernaise essence í hrærivél í nokkrar mín þar til blandan er orðin ljós og létt. Bætið þá 2 tsk af nautakrafti út í og hrærið áfram.

Aukið hraðann á vélinni og hellið smjörinu í mjög rólegri bunu saman við eggjarauðurnar þar til allt hefur samlagast. Varist að hella of hratt eða of miklu í einu því þá getur sósan skilið sig og eggjarauðurnar hlaupið við of mikinn og skyndilegan hita. Bætið estragon út í og látið vélina ganga í um 30 sek. Smakkið til með salti og meiri krafti ef þarf. 

Færið sósuna í lítinn pott eða skál og hyljið með loki þar til maturinn er borinn fram, en sósuna má ekki hita aftur upp

Forhitið ofn í 180°C með blæstri.

Skerið sveppi í tvennt, týnið laufin af timiangreinunum og saxið. Setjið sveppina í skál ásamt balsamic ediki, 1,5 msk af olíu, smá salti og pressið 1 hvítlauksrif saman við. Blandið vel saman.

Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita. Bætið smjörklípu út á pönnuna þegar pannan er orðin vel heit og brúnið kjötið svo í 3 mín á fituhliðinni. Haldið áfram að brúna kjötið á öllum hliðum og dreypið bráðnu smjörinu yfir kjötið.

Færið kjötið á í eldfast mót og bakið í miðjum ofni í um 25 mín eða þar til kjarnhiti bitans hefur náð 63°C. Látið kjötið hvíla í 10 mín áður en skorið er í það.

Færið sveppina í eldfast mót og bakið í 25-30 mín. Hrærið reglulega í sveppunum þar til þeir eru fulleldaðir og enginn vökvi er eftir í bökunarforminu.

Berið fram með frönskum kartöflum og góðu salati.

Vínó mælir með: Chateau Goumin með þessum rétt. 

Uppskrift: Matur og Myndir