Kraftaverkið frá Argentínu

Fyrir vínáhugamenn er vín kjarni málsins hverju sinni en bakgrunnur vínsins er líka þess virði að gefa nánari gætur. Það getur til að mynda verið einkar áhugavert að skoða landsvæðið (e. terroir) þar sem vínþrúgan óx áður en kom að uppskeru og víngerðinni í framhaldinu. Orðið terroir er úr frönsku og merkir aðstæðurnar sem vínviðurinn vex við; landfræðileg lega, veðurfar, jarðvegur, hæð yfir sjávarmáli og fleira sem skiptir máli. Sum vín vaxa við kjöraðstæður, hálfgert dekur að segja má, á meðan önnur þurfa að þrauka við verulega krefjandi aðstæður – svo mjög að það gengur kraftaverki næst að vínviðurinn nái að vaxa þar á annað borð. Það er einmitt tilfellið með vínræktina sem hér er til umfjöllunar – Amalaya í Argentínu.

Vonin um kraftaverk 

Þegar hefur verið fjallað á þessum vettvangi um víngerðina Hess, sem Svisslendingurinn Donald Hess setti á laggirnar. Fyrsta fjárfesting hans í víngerð í Suður-Ameríku var aftur á móti Amalaya. Nafnið kemur úr máli indjánanna á þessu svæði í Argentínu og merkir “von um kraftaverk”. Nafnið er ekki út í bláinn því þegar út spurðist að Hess ætlaði að hefja ræktun á vínvið á svæðinu hristu menn hausinn og sögðu að til þess að svo mætti fara þyrfti Hess karlinn á kraftaverki að halda. Enginn hafði nokkru sinni ræktað þar vín áður, eða yfirleitt reynt að sá þar nokkrum sköpuðum hlut í jörðu, ekki einu sinni hinir fornu Inkar. Til þess var landið talið standa of hátt yfir sjávarmáli. Enginn taldi mögulegt að yrkja þennan jarðveg af neinu viti.

Hæstu vínekrur í veröldinni

En Donald Hess var ekki af baki dottinn og sá áskorun með mikla möguleika þar sem aðrir sáu tapaðan slag. Honum hafði ávallt verið hugleikin þau áhrif sem umhverfisþættirnir – sem einu nafni kallast “terroir” – og samspil þeirra við mismunandi þrúgur. Það var aldrei að vita hvaða galdur mætti magna upp á þessum einstaka stað, sem hvergi ætti sér sinn líka í viðri veröld meðal vínræktarhéraða? Amalaya vínræktin er nefnilega í Cafayate dalnum í héraði sem nefnist Salta í Norð-vestur hluta Argentínu. Það er um 320 kílómetra frá landamærunum við Bólivíu, og ræktunarsvæðin standa í 1700 til 3300 metra hæð yfir sjávarmáli. Það kemur því varla nokkrum á óvart að hvergi í heiminum er að finna vínekrur í viðlíka hæð yfir sjávarmáli eins og Amalaya.

Krefjandi ræktun, gefandi árangur 

Segja má að bæði Hess og svo efasemdarfólkið hafi haft rétt fyrir sér hvað vínræktunina varðar. Það er að sönnu ekki hlaupið að því að rækta vínvið á þessu svæði, og til þess þarf til að mynda vatnsdreifingarkerfi því veðurfar er ákaflega þurrt og jarðvegurinn svo sendinn, þó hann sé næringarríkur, að með réttu mætti kalla svæðið eyðimörk. Ræktunin er því krefjandi, svo sannarlega, en Hess hafði líka rétt fyrir sér eins og fyrr sagði því afraksturinn er einstaklega spennandi vín.

Amalaya vínin eru “cuvée” – og hvað er það?

Undir ræktun og umsjá Hess-fólksins þykir Amalaya vera orðið eitt mest spennandi vínræktarsvæðið í Argentínu því það býður upp á mismunandi áhrif frá jarðvegi og loftslagi, á mismunandi þrúgur, og línan frá Amalaya endurspeglar þessa leiftrandi fjölbreytni með því að draga fram hin einstöku áhrif sem vínviðurinn og þrúgurnar vaxa við. Fjallaloftið gerir það að verkum að berin þroskast vel, gefa þétt og mikið ávaxtabragð með frískandi sýrni og framúrskarandi jafnvægi. Hvert vín frá Amalaya er það sem kallast “cuvée” en orðið er úr frönsku (eins og við er að búast – þetta er mestallt upprunnið hjá Frökkunum) og merkir “sérstök blanda”. Það þýðir að hin endanlega afurð er blanda af víni úr tveimur eða fleiri þrúgum, samsett af meistaranum á staðnum til að draga fram allra bestu eiginleika hinna mismunandi þátta sem koma saman í vínblöndunni. Rauðvínin frá Amalaya eru að mestu leytu úr Malbec-þrúgunni en hvítvínin eru að stofninum til úr Torrontés-þrúgunni.

Kraftaverk í boði Móður Jarðar

Í Cafayete héraðinu er einnig samnefnt þorp sem nýtur góðs af starfsemi Amalaya víngerðarinnar. Heimamenn eru sjálfur ekki í nokkrum einasta vafa um það hvers vegna vínræktunin hefur tekist svo vel sem raun ber vitni; það er af því Hess-fjölskyldan hefur ræktað landið af alúð og nærgætni við Móður Jörð – sem þeir kalla “Pachamama”- , sem á móti hefur séð til þess að jarðvegurinn er nægilega frjósamur til þess að vínviðurinn þrífst ekki bara heldur gefur af sér áhugaverð og ljúffeng vín. Þeir líta á ræktunin sem hreint og klárt kraftaverk og efist einhver um það þá minna þeir á hvað nafnið Amalaya þýðir. Hér eru töfrar jarðarinnar að verki, flóknara er það ekki. Sífellt fleiri sannfærast líka um kraftaverkið, ef marka má síaukinn fjölda ferðamanna sem sækir Cafayete og Amalaya heim og er þorpið og héraðið Salta orðin meðal mikilvægustu áfangastöðum ferðamanna í Argentínu.

Hvernig væri að prófa?

Amalaya Blanco de Corte 2016

Vinotek segir;

„Cafayete-dalurinn í Salta-héraði í norðurhluta Argentínu er hæsta víngerðarsvæði veraldar og á þessu skrjáfþurra og hrjóstruga svæði eru gerð merkilega góð vín. Amalaya er eitt af helstu vínhúsunum í Salta og þessi. Fölgrænt, mikil og ágeng blómaangan ásamt lyche-ávexti og lime og sætum greipávexti, þurrt, þykkt og brakandi ferskt. 2.199 krónur. Frábær kaup ´á því verði og hálf auka stjarna, flottur fordrykkur eða með öllum sjávarréttum þar sem sítróna eða lime kemur við sögu“.

Víngarðurinn segir;

„Þarna í argentíska háloftinu eru skilyrðin til vínræktar erfið en góð. Þarna er hitasveiflan mikil yfir sólarhringinn (sem er afar gott til að gera góð vín) og mikil ljóstillífun þegar sólar nýtur. Vínrækt er því dálítið áhættusöm en þegar hún heppnast eru vínin jafnan fersk og ballanseruð. Þetta ágæta hvítvín er samsett úr hinum ilmríku þrúgum Torrontés og Riesling og það finnst glöggt í nefinu þar sem sætkennd blómaangan stígur upp þegar maður rekur nefið oní glasið. Þarna má líka finna sætan sítrus, fresíur, papaya, guava, steinefni, og kremkenndar snyrtivörur sem minna á varalit. Í munni er það sætkennt en sýruríkt með keim af sætri sítrónu, greipaldin, niðursoðnum austurlenskum ávöxtum, mandarínum og kremuðum snyrtivörum. Frísklegt og sumarlegt hvítvín sem er gott með allskonar bragðflækjum sem finna má í forréttum, asískum mat og fjúsjón.

Verð kr. 2.199.- Mjög góð kaup.“

Amalaya Tinto de Corte 2015

Vinotek segir;

„Vínin frá Amalaya koma frá háfjallahéraðinu Salta nyrst í Argentínu en þar er að finna þær ekrur sem eru hvað hæst yfir sjávarmáli í veröldinni. Vínhúsið er í eigu Hess og með þeím nútímalegri og alþjóðlegustu á svæðinu. Tinto de Corte er blanda úr þremur þrúgum, fyrst og fremst Malbec en einnig örlitlu af Tannat og Syrah. Ungt með smá bláma í lit, ávöxturinn dökkur, þarna eru plómur og berjagrautur, en einnig fersk angan af blómum og jörð, töluvert kryddað. Mild tannín í munni, þægilega mjúkt með ferskum og fínum ávexti. 2.499 krónur. Frábær kaup á þessu verði. Með lambi og nauti.“

Víngarðurinn segir;

„Vínin frá hinni argentísku víngerð Amalaya voru á boðstólnum hérna fyrir nokkrum árum og ég verð að segja að það er gaman að þau skuli fást hérna á ný. Amalaya tilheyrir Hess-samsteypunni, kennd við Donald Hess sem stofnsetti hana í Kaliforníu á síðari hluta áttunda áratugsins og Amalaya er annað tveggja argentískra vína sem frá honum kemur (hitt er Colomé) og það er upprunið í Calchaqui-dalnum í Salta en þarna eru einhverjir hæstu víngarðar yfir sjávarmáli í heiminum.

Það er samsett úr þrúgunum Malbec, Tannat og Syrah og hefur þéttan plómurauðan lit. Það er rétt ríflega meðalopið í nefinu með ilm sem minnir á sultuð aðalbláber, Créme de Cassis, kirsuber, plómu, apótekaralakkrís, balsam og eitthvað í áttina að gráðaosti og sveitalegum mykjutónum. Í munni er það þurrt með góða sýru og þétt tannín. Það hefur keim af sultuðum kræki-, bróm- og aðalbláberjum, plómu, lakkrís, balsam, kirsuberjum og kryddjurtum. Vandað, þéttofið og matarvænt rauðvín sem er fínt með allskonar dökku kjöti (td grilluðu), hægelduðum pottréttum og krydduðum Miðjarðarhafsmat.Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup.“

 

 

 

Share Post