Um áramót: skjótum upp töppum og flugeldum

Nú árið er senn liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, eins og segir í þekktu kvæði. Þá er við hæfi að líta til baka, gleðjast yfir því sem vel tókst til og læra af því sem miður fór. Og já – það tilheyrir líka að skjóta tveimur ólíkum hlutum upp í loftið; annars flugeldum og hins vegar töppum úr freyðivínsflöskum, hvort heldur þær geyma kampavín, cava eða prosecco. Hvers vegna? Máske vegna þess að tappinn táknar gamla árið, fokinn út í veður og vind verður ekki troðið í tímans flösku aftur, um leið og vínið sem flæðir út stendur fyrir nýja árið sem ryðst fram með öllum sínum ófyrirsjáanleika og möguleikum.

 

Kóngurinn kampavínsþyrsti

Framangreindar hugleiðingar eru bara til gamans og hafa í reynd ekkert með uppruna tengingarinnar milli kampavíns og tyllidaga að gera. Hún hófst mestanpartinn með dálæti Loðvíks XV (þ.e. fimmtánda) á kampavíni, en munaðarseggurinn sá taldi kampavín allra meina bót, sem þýddi að hirðin öll var á sömu skoðun og því var gríðarlega mikið kampavín drukkið í höllinni meðan hann ríkti. Loðvík vissi ekki aura sinna tal og lifði í glórulausum munaði (enda frönsk alþýða skattpínd til hins ítrasta) sem aftur þýddi að kampavín var fokdýr munaðarvara. Kampavínskaupmenn voru slyngir og sáu enga ástæðu til annars en að hafa verðið í hæstu hæðum því þeir vissu sem var að kóngi var sléttsama um verðið. Fáir nema æðstu meðlimir aðalsins höfðu því ráð á veigunum.

 

Ný stétt auðmanna, nýr kúnnahópur

En með iðnbyltingunni spratt fram nýr hópur auðkýfinga sem höfðu ráð á kampavíni og markaðurinn stækkaði. Hinir nýríku iðnjöfrar gátu reyndar ekki leyft sér að drekka það í öll mál eins og spilltir, franskir kóngar – en þeir létu það eftir sér þegar tilefni var til, til að mynda við brúðkaup, sjósetningu nýrra skipa, og – mikið rétt – við áramót. Þar með hófst hefðin og allar götur síðan hefur kampavín, og reyndar alls lags freyðivín, verið tengt tyllidögum með órjúfanlegum böndum. En hvað er freyðivín og hvað er kampavín?

 

Freyðivín: vín sem freyðir

Freyðivín (e. sparkling wine) er einfaldlega vín með kolsýru-loftbólum sem oftast verða til við náttúrulega gerjun sem líka er hægt að bæta við með inngjöf af kolsýru. Freyðivín má fá á nokkrum mismunandi stigum sætleika, allt frá Brut Nature sem er algerlega sykurlaust, upp í Doux sem inniheldur 50 g af sykri per lítra. Þrepin líta annars þannig út: Brut Nature/Extra Brut/Brut/Extra Sec/Sec/Demi-Sec/Doux, og vinsælust eru vínin á bilinu Brut til Demi-Sec. Freyðivín eru langoftast hvítvín eða rósavín, þó það þekkist líka sem rauðvín. Freyðivínin hafa mismunandi heiti eftir því hvar þau eru framleidd og vitaskuld er þekktasta afbrigðið það sem í daglegu tali er kallað kampavín og kemur frá Frakklandi. Freyðivín sem kemur frá öðrum svæðum í Frakklandi eða frá öðrum löndum verður að gera svo vel að heita eitthvað annað – þeir í Champagne voru býsna klókir að festa sér nafnið og lögbinda það í framhaldinu – og þannig má til dæmis nefna sem dæmi cava, sem er freyðivín frá Spáni, og prosecco, sem er frá Ítalíu. Skoðum hvern flokk aðeins nánar:

 

Kampavín

Kampavín, ber alþjóðlega heitið champagne, er franskt freyðivín og heitir það í höfuðið á samnefndu héraði í Norð-Austur Frakklandi. Þar sem freyðivín á rætur sínar að rekja til Frakklands kemur ekki á óvart að þar er að finna elsta framleiðanda kampavíns sem enn er starfandi. Það nefnist Gosset og hefur starfað frá 1584. Í kampavíni eru aðeins þrjár þrúgur leyfilegar, og eru það hin ljósa Chardonnay, og svo hinar dökku Pinot Noir og Pinot Meunier. Flest eru kampavínin einhvers konar blanda af þessum þremur.

 

Prosecco

Prosecco er ítalskt hvítvín sem má fá í mismunandi útfærslum kolsýrumagns, þó flestir tengi það við freyðivín. Útfærslurnar eru spumante (freyðandi), frizzante (hálf-freyðandi) og tranquillo (alls ófreyðandi). Prosecco Spumante er semsé það sem flestir hafa í huga þegar þeir tylla sér á veröndina á ítölsku veitingahúsi og biðja um glas af prosecco. Vínin eru framleidd í héruðunum Veneto og Friuli Venezia Giulia og eiga það sameiginlegt að innihalda þrúguna Glera, en í prosecco má einnig finna Bianchetta Trevignana, Chardonnay, Glera Iunga, Pinot Bianco, Pinot Grigio and Pinot Nero, og svo loks Verdiso.

 

Cava

Cava er freyðivín frá Spáni og eins og franskt kampavín er það bæði fáanlegt hvítt og bleikt. Langoftast er það framleitt í Penedès sem er í Katalóníu-héraði, Suð- Vestur af Barcelona, en þaðan kemur 95% alls þess cava sem búið er til á Spáni. Í cava eru notaðar þrúgurnar Macabeu, Parellada, Xarel·lo (einnig þekkt sem Cartoixa), Chardonnay, Pinot Noir og Subirat, í mismunandi hlutföllum eftir framleiðendum.

En hvað get ég haft með því?

Flest skálum við í kampavíni og öðrum dýrari gerðum freyðivíns án matar af þeirri einföldu ástæðu að við viljum njóta athafnarinnar og augnabliksins í hátíðlegum einfaldleika sínum og megum ekki vera að því að borða um leið. Verðið spilar líka inn í og við höfum önnur vín til taks til að hafa með snarlinu; búbblurnar verðskulda óskipta athygli okkar og við viljum síður trufla bragðið með einhverju matarkyns. En – það eru samt til hlutir sem eru dásamlega góðir með kampavíni og algerlega þess virði að prófa með því. Flestar hnetur fara mjög vel með freyðandi víni, einnig þunnar sneiðar af verkuðu kjöti á borð við prosciutto-skinku. Toppurinn af þess konar snarli með freyðivíni eru samt sem áður franskar kartöflur, með nokkrum dropum af truffluolíu, eða þá fínlegt kex með foie gras andalifrarpaté. Ef hugurinn leitar hinsvegar í sætan bita þá eru dökkt hágæðasúkkulaði, franskar makkarónukökur og síðast en ekki síst eru fersk jarðarber dásamleg að hafa í skálum þegar tappinn flýgur úr á miðnætti.

– Gleðilegt ár og takk fyrir 2020, kæru lesendur! –

 


Hvernig væri að prófa?

Mont Marcal Brut Reserva er cava eða freyðivín frá Katalóníu á Spáni, þrúgurnar eru líka katalónskar og spænskar, xarello, parellada og macabeo. Þetta er virkilega gott og vel gert freyðivín á frábæru verði. Ljóst á lit og freyðir fallega. Þurr angan af kexkössum, þurrkuðum ávöxtum, eplum og sítrónu. Þurrt með ferskri sýru en mjúkri áferð, freyðibólurnar þéttar og þægilegar. Verð. 1.999 kr. Mjög góð kaup.

 Lamberti Prosecco Extra Dry er Prosecco eða freyðivín frá Ítalíu unnið úr þrúgunni, Glera og er þetta eins og flest prosecco vín framleidd í héruðunum Veneto og Friuli á Ítalíu. Þetta er mjög gott freyðivín á frábæru verði. Fölgult á lit, sætuvottur, létt freyðing, fersk sýra, epli og ljós ávöxtur. Verð. 1.999 kr. Mjög góð kaup.

Willm Crémant Brut er freyðivín frá einu fallegasta héraði í Frakklandi, Alsace. Fallega ljóssítrónugult á lit, létt fylling, þurr og fersk sýra. Keimur af eplum, perum og ristuðum tónum. Einstaklega fágað og flott freyðivín. Sama aðferð er notuð í Alsace eins og þeir nota í Champagne og má því segja að þetta freyðivín komist næst kampavíni í áferð og bragði. Verð. 2.499 kr. Frábær kaup.

Nicolas Feuillatte Brut Reserve er margverðlaunað og eitt mest selda kampavín Frakklands. Þetta er fínlegt og vandað kampavín á frábæru verði. Fallega ljóssítrónugult á lit, létt fylling, ósætt og sýruríkt. Í nefi ferskur hvítur ávöxtur, epli, perur og ferskjur. Glæsileg uppbygging í munni, viðkvæmt, ferskt með góða endingu. Frábært kampavín í fordrykk og með léttum forréttum. Verð. 4.999 kr. Frábær kaup.

Share Post