Piemonte – þar sem „lítil þrúga grær við hlíðarfót”

 

Þannig hefði Sigurður Elíasson líkast til ort lagið um Litlu fluguna ef hann hefði fæðst í Piemonte. Meira um þrúgurnar og hlíðarnar hér á eftir.

 

Við fyrstu sýn virðist ítalska héraðið Piemonte (e. Piedmont) ekki efni í öflugt vínræktarhérað. Þessi hluti Norð-Vestur Ítalíu, ekki síst svæðið í kringum stærstu borgina, Tórínó, er mikið iðnaðarsvæði og þar á meðal annarra Fiat-bílasamsteypan sínar heimavígstöðvar. Auk þess er héraðið langt í frá hlutfallslega ríkt af ræktarlandi; til að mynda eru aðeins 30 prósent þess hæf til vínræktar. Piemonte er umlukið Ölpunum á þrjá vegu og skiptist landsvæðið þannig að 43,3% teljast fjalllendi, 30,3% flokkast sem hæðir og loks eru 26,4% hásléttur. Til að toppa þetta þá merkir nafnið Piemonte bókstaflega “hlíðarfótur” eða “fjallsrætur”. Íbúar héraðsins virðast því alveg gera sér grein fyrir stöðunni.

 

Nebbiolo – Þokuþrúgan

Engu að síður er það nú einmitt tilfellið, að Piemonte er eitt af helstu vínræktarsvæðum Ítalíu. Þaðan koma mörg framúrskarandi vín, ekki síst þau sem kennd eru við svæðið Barolo. Það sem meira er, landfræðilegar aðstæður sem ættu jafnvel að gera vínrækt erfitt fyrir skapa í raun vínrækt á svæðinu ákveðna sérstöðu. Hæðótt landslagið gerir það að verkum að þoka liggur þar tíðum yfir þegar líður að uppskeru og veður verða svalari, í seinni hluta október. Þokan stuðlar nefnilega að þroska helstu vínþrúgu héraðsins, Nebbiolo, en fleira kemur til; þegar Nebbiolo nálgast réttan þroska umlykur berin grá, móðukennd himna eða slikja– rétt eins og þokuslæða hafi sest á þau. Nafn þrúgunnar er því ekki út í bláinn en það er dregið af orðinu nebbia sem þýðir þoka. Nema hvað!nebbiolo


Lengi getur gott batnað

Vín úr Nebbiolo þrúgunni getur verið býsna gott að eiga til góða því þau geymast heilt yfir ljómandi vel, enda tannínrík í meira lagi. Sum þurfa 10, jafnvel 15 ár áður en þau toppa, önnur eru tilbúin fyrr. Barolo-vín sem náð hefur góðum þroska er flauelsmjúkt, bókstaflega, því tannínin hafa rúnnast til og runnið saman við vínið. Eftir því sem Barolo þroskast tekur vínið á sig jarðliti, frá ryðrauðu og út í brúnleita tóna. Þegar slíkt vín er bragðað kemur engum á óvart að Nebbiolo er almennt álitin sem ein af helstu afbragðsþrúgum Ítalíu.

barolo-cellar


Kraftmikið vín krefst kjarngóðs matar

Þar sem vín úr þrúgunni eru bragðmikil og kröftug þá kalla þau á mat í takt. Heimamenn í Piemonte eru þar af leiðandi vanir að bera það á borð með þungum kjötréttum, jafnvel sósuríkum, matarmiklum pastaréttum eða þá risotto, til dæmis með bragðmiklum sveppum. Gleymið bragðmildum réttum á borð við gufusoðið grænmeti; vín af þessu tagi munu valta yfir slíkan mat án miskunnar. Þegar haustar að er kjörið að búa til Norður-ítalskan kósímat á borð við hægeldað Osso Bucco og hella Barolo í glösin um leið. Ef einhver lumar á trufflum – hvítum ellegar svörtum – þá eru þær í essinu sínu með Barolo á kantinum og þá er heldur en ekki tilvalið að búa til einfaldan pastarétt eða risotto með trufflum. Þá má veturinn koma!

truffle-risotto


Hvernig væri að prófa?

 

Rivetto Barbera d‘Alba Nemes 2013

4,5star

Barbera D‘Alba Doc Nemes 2013

 

 

Passar vel með: Svínakjöt, mild villbráð, pottréttir og risotto.

Lýsing: Dökkrúbínrautt. Mjúk fylling, ósætt, fersk sýra, miðlungstannín. Dökk skógarber, plóma, lyng, laufkrydd.

 

Vinotek segir;

“Fallega fjólublátt. Í nefi fjólur, kröftug kirsuberjaangan, krækiber, vottur af menthol, þurrt og kryddað í munni, þykkt, þægilega tannískt. Frábær kaup. Yndislegt matarvín. Reynið með bragðmiklu svepparisotto eða mildri villibráð.”

 

Rivetto Barolo Serralunga d‘Alba 2008

5star

Barolo Serralunga

 Vinotek segir:

“Barolo-vínin frá Piedmonte eru óumdeilanlega einhver mögnuðustu rauðvín Ítalíu ásamt þeim frá nágrannasvæðinu Barbaresco. Þrúgan Nebbiolo gefur þarna af sér kröftug, tannísk og langlíf vín sem geta verið alveg hreint stórkostleg þegar best lætur, unaðsleg matarvín. Þetta Barolo-vín frá Rivetto er vel gert og sýnir vel bæði eiginleika þrúgunnar og svæðisins. Liturinn er rauðbrúnn, út í rautt, angan krydduð, þarna er smá fjós en einnig blómaangan í bland við dökkan ávöxt, kirsuber og sólber. Þurrt í munni, staðföst tannín en mjúk, langt. Flott vín. Líkt og með svo mörg góð vín af þessu svæði þá er krafturinn undirliggjandi – ef þetta væri bílvél væri líklega sagt að hún hefði hrikalega flott tog í staðinn fyrir hrátt afl. Reynið með mildri villibráð á borð við hreindýr eða góðu risotto.”

Share Post