Chardonnay – frábær og fjölbreytt vín

Frá Búrgúndarhéraði Frakklands kemur hvítvínsþrúgan Chardonnay, mest ræktaða hvítvínsþrúga veraldar.  Vínin sem þrúgan gefur af sér geta verið á breiðu bili bragðtóna, allt eftir því hversu þroskuð berin voru við tínslu og í framhaldinu við víngerðina.  Lítið þroskuð ber gefa af sér brakandi ferskt og skarpt vín, með bragð í ætt við græn epli, jafnvel með sætan sítruskeim, á meðan þroskaðri Chardonnay-vín eru meira í áttina að hitabeltisávöxtum á borð við mangó eða ananas.  Ef vínið er eikað bætist enn við töfrana því þá koma inn dásamlegir bragðtónar á borð við vanillu, smjörkaramellu, kókoshnetu og núggat.  Við gerjun fá sum Chardonnay vín syndsamlega góða og olíukennda áferð og þá verður upplifunin hreinn unaður.  Chardonnay hvítvín eru fyrirtak með fiski og allra handa sjávarfangi, og smellpassar einnig með mjúkum, hvítum ostum. Það fer ljómandi vel með kjúklingi bæði og kalkúna og ýmsir réttir sem innihalda sveppi fullkomnast hreinlega með Chardonnay.

Share Post