Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Fortius Tempranillo Crianza 2013

Víngarðurinn Vín og Fleira segir;

Ég hef nokkrum sinnum áður skrifað um vínin frá Fortius, þessu ágæta vínhúsi í Navarra á Norður-Spáni og þetta er líklega þeirra besta vín, a.m.k. miðað við margt annað og ekki eru þau dýr svo þetta hljóta að teljast fín kaup.

Það hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit og fínan kannt og í nefinu er það rétt ríflega meðalopið með dæmigerðan ilm af rauðum berjum (og sum þeirra eru sultuð), Maraschino-kirsuberjum, aðalbláberjasultu, eikartunnum, vanillu, tússpenna, brenndum sykri og kóngabrjóstsykri.

Í munni er það ríflega meðalbragðmikið, þurrt og með góða sýru, þétt og í fínu jafnvægi með mjúk tannín og keim af kirsuberjum, hindberjum, krækiberjasultu, þurrkuðum appelsínuberki, balsam, vanillu og toffí. Víða var árgangurinn 2013 fremur slakur á þessum slóðum, sérstaklega í Rioja og margir framleiðendur gripu til þess ráðs að gera engar reservur heldur nota öll berin í criönsurnar. Ég veit svosem ekkert um hvernig þessu var háttað hjá Fortius, en þetta gæti verið tilfellið og það myndi skýra hversu heilsteypt þessi crianza er. Matarvænt og vel gert vín með skýran uppruna og er best með allskonar kjötmeti, hægelduðum pottréttum og betri hversdagsmat.

Verð kr. 1.999.- Frábær kaup.

Vinotek segir;

Navarra er næsta víngerðarhérað við Rioja á Spáni og ekki löng vegalengd á milli. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir að mörg vínanna séu gerð úr sömu þrúgu og hjá þeim í Rioja þ.e. Tempranillo hafa þau annan karakter enda aðstæður að mörgu leyti aðrar. Bodegas Valcarlos sem framleiðir Fortius er í eigu Rioja-risans Faustino. Vínið er rúbínurautt, dökkrauð kirsuber í nefi, all nokkur eik, vanilla og kaffi, svolítið míneralískt. Vel gert og aðgengilegt vín. 1.999 krónur. Frábært vín á því verði. Með grilluðu lambi og lambalæri.

Share Post