Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Lolea Sangría Rose

Marta Rún ritar:

Þá er hún loksins komin til Íslands, Lolea Rose, sangrían frá uppáhalds sangríu framleiðandanum mínum hér í Barcelona þar sem ég er búsett.

En óhætt er að segja að Lolea Sangria vörumerkið er mjög áberandi hér á Spáni og hefur fyrirtækið stækkað ört á stuttum tíma og er hægt að fá þessa dásemdar sangríu víða um heim.
Í fyrrasumar kom á markaðinn Lolea Sangria Rose sem er eins og sumar í glasi.
Persónulega er ég ekki mikið fyrir kokteila sem eru tilbúnir í flösku og vil helst alltaf gera allt frá grunni sjálf. En ég geri undantekningu með sangríurnar frá Lolea.
Þær innihalda engin gerviefni eða bragðefni. Lolea Rose er með keim af engifer og hibiscus blómi og inniheldur smá bubblur og skartar þessum fallega fölbleika lit.
Það er því bæði hægt að bera hana fram í freyðivínsglasi eins og fordrykk með t.d. einu hindberi eða jarðaberjasneið eða bera hana fram í belgmeira vínglasi með klökum og ferskum ávöxtum og myntu.

Góðu fréttirnar eru þær að nú fæst þessi frábæra sangría í Vínbúðunum á Íslandi og inniheldur hún aðeins 8% áfengismagn og er hún þess vegna á ótrúlega góðu verði, aðeins 1599 kr. Flaskan.

Þó að veðrið hafi ekki verið uppá sitt besta á Íslandi þá get ég lofa ykkur því að þessi sangría mun koma ykkur í sumarskap!

Share Post