Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Vínin með páskalambinu

Það líður að páskahátíðinni og eins og gengur sjá flest okkar þar tilefni til að setjast niður, helst með þeim sem okkur þykir vænst um, njóta samverustunda og góðs matar. Þau okkar sem aðhyllast kristna trú hafa jafnan þann sið að elda lambasteik um páskana – Páskalambið – enda lambið oft haft sem táknmynd hreinleika og sakleysis. Lambið hafði yfir sér heilagleika enda Jesú einatt kallaður „Lamb Guðs.“

Hið saklausa lamb Guðs

Þegar föstunni lauk á páskadag varð lambakjöt uppistaðan í kjötmáltíðinni sem loks mátti gæða sér á og þar með varð lambið að tákni páskanna í kaþólskum sið. Þetta kom ekki síst til af því að einmitt um sama leyti vors var passlegt að hefja slátrun á vorlömbunum. Sú fórn sem Jesú færði mannkyninu til frelsunar og heilla tákngerðist í slátrun hins saklausa lambs – ásamt því að áðurnefnd tímasetning slátrunar passaði frábærlega vel.

Best í heimi, nema hvað!

Hvort sem fólk er sanntrúað eða ekki þá fer vel á því að halda siðinn í heiðri enda fátt sem jafnst á við ljúffenga stórsteik af íslensku lambi á vorin, nema ef vera skyldi ljúffeng stórsteik af íslensku lambi á vorin með glasi af úrvalsgóðu víni. Íslenskt lambakjöt tekur framúrskarandi vel við ýmis konar kryddi, bæði garðablóðbergi, rósmaríni og hvítlauk, steinselju og salvíu, svo fátt eitt sé nefnt. Kryddunin gerir pörun við gott vín bara enn meira spennandi og hér á eftir fara nokkur prýðisgóð rauðvín sem gera páskalambið enn betra.

 

Hvernig væri að prófa?

Ramon Roqueta Tempranillo Reserva

Víngarðurinn segir;

Þetta vín hefur um árabil verið einhver bestu kaupin í rauðum vínum að mínu mati. Ég hef ítrekað gefið þeim árgöngum sem í boði hafa verið, þrjár og hálfa til fjórar stjörnur og, á því verði sem þetta vín er, hljóta það að teljast afar góð kaup. Það er lagað úr þrúgunum Tempranillo og Cabernet Sauvignon í Katalóníu og þótt árgangurinn 2013 hafi verið tiltölulega slakur uppí Rioja þá var hann ekki svo galinn á þessum slóðum.

Þetta er meðaldjúpt og kirsuberjarautt vín með múrsteinstón og meðalopna angan af rauðum og sultuðum berjum, plómu, dökkri berjasultu, steinefnum, balsam, reyk (eða reykelsi) og (ekki of nýlegum)eikartunnum. Þetta er dæmigerður og aðlaðandi ilmur og auðvitað vel kunnuglegur þeim sem smakkað hafa fleiri en þrjú spænsk rauðvín.

Í munni er það rétt ríflega meðabragðmikið með góða sýru og mjúk tannín. Það hefur sætar undirstöður og sæmilega endingu og þarna eru plómur, sultuðu kirsuber, sólberjahlaup, bláber, balsam, þurrkaður appelsínubörkur og eikartunnur. Vel gert og neytendavænt rauðvín sem fer vel með allskyns bragðmeiri kjötréttum svona hversdags.

Verð kr. 1.899.- Frábær kaup.

Fortius Crianza

Vinotek segir;

Navarra er næsta víngerðarhérað við Rioja á Spáni og ekki löng vegalengd á milli. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir að mörg vínanna séu gerð úr sömu þrúgu og hjá þeim í Rioja þ.e. Tempranillo hafa þau annan karakter enda aðstæður að mörgu leyti aðrar. Bodegas Valcarlos sem framleiðir Fortius er í eigu Rioja-risans Faustino. Vínið er rúbínurautt, dökkrauð kirsuber í nefi, all nokkur eik, vanilla og kaffi, svolítið míneralískt. Vel gert og aðgengilegt vín.

1.999 krónur. Frábært vín á því verði. Með grilluðu lambi og lambalæri.

Adobe Syrah Reserva

Vinotek segir;

Vínhúsið Emiliana í Chile sem að framleiðir Adobe-línuna er einn stærsti framleiðandi lífrænna vína í heiminum og þar er að auki stundaður lífefldur eða “biodynamic” landbúnaður. Syrah er þrúga sem alltaf er að koma betur og betur í ljós hversu vel hentar aðstæðum í Chile. Þetta rauðvín er gert úr þrúgum frá Rapel sem er stórsvæði er nær til Colchagua og Calchapoal í miðdalnum suður af Santiago. Vínið er mjög dökkt, svartur sólberjaávöxtur, mild myntuangan og viður, vínið er kröftugt, svolítið agressívt ennþá þegar kemur að tannínum en mýkist hratt ef maður leyfir því að bíða í smástund, mælt er með umhellingu. Það er líka enn ansi ungt, mun halda áfram að batna á næstu 1-2 árum.

1.999 krónur. Frábær kaup á þessu verði. Með grilluðu lambi.

Cune Gran Reserva

Vinotek segir;

Gran Reserva er toppurinn á stiganum í gæðakerfi Rioja og þó svo að tæknilega segi Gran Reserva fyrst og fremst til um hversu lengi að lágmarki vínið hefur verið látið liggja á tunnum og flösku áður en það er sett á markað þá liggur það í hlutarins eðli að það eru besti vínin sem fá það hlutskipti að verða Gran Reserva þegar að þau eru orðin stór. Það spillir líka ekki fyrir að Spánverjarnir taka ómakið af okkur við að geyma vínin og hér eins og í þessu tilviki eigum við kost á að fá fullþroskað, nær tíu ára vín í toppklassa fyrir tiltölulega lítinn pening. Liturinn farinn að þróast úr svarrauðu yfir ljósari rauðan lit með smá brúnleitum tónum en þó enn þétt á lit, ávextir enn til staðar í nefi, svört ber en tóbakslauf, vindlakassi og krydd farin að taka yfir ilmkörfuna, vínið er langt og þétt í munni, kröftugt  með mjúkum tannínum og á greinilega enn mörg góð ár eftir.

3.499 krónur, frábær kaup á þessu verði og einkunn tekur mið af því. Frábært vín með grilluðu nauti og lambi.

Share Post