Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Sítrónu og Saffran kjúklingur

Marta Rún ritar:

Æðislegur miðausturlenskur réttur sem bragðast dásamlega. Fá hráefni sem passa ótrúlega vel saman. Þessi réttur er mikið eldaður á mínu heimili og hefur slegið í gegn í matarboðum.

Hráefni

  • 4 laukar, skornir í helming og síðan í þunnar sneiðar
  • Safi úr 5 sítrónum
  • 4 msk ólífuolía
  • 1 tsk túrmerik
  • 400 g grískt jógúrt
  • 2 tsk salt
  • 1 klípa á saffran þráðum
  • 3 msk heitt vatn
  • 6 kjúklingabringur, skornar í sirka 5 cm sneiðar

Aðferð

Finnið til stóra skál og setjið laukinn, sítrónusafann, ólífu olíuna, túrmerik, jógúrtið og saltið í skálina og blandið öllu vel saman. Ef þið eigið til mortel þá kremjið þið saffranþræðina í duft ef ekki kremjið það saman í lítilli skál með skeið. Hellið 3 msk af heitu vatni og látið standa í 5-10 mínútur. Bætið kjúklingnum í skálina og blandið vel við jógúrtblönduna. Hellið saffran vatninu útí og hrærið saman. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið marinerast inní ísskáp í að lágmarki 1 klst, því lengur því betra.  Þegar kjúklingurinn hefur marinerast settu hann þá í eldfast mót með bökunarpappír undir svo að laukurinn brenni ekki við botninn. Bakaðu kjúklinginn við 200° í 18-20 mínútur. Gott er að bera réttinn fram með grjónum, salati eða bökuðum pítubrauðum til að rífa niður og dýfa í sósuna.

Með þessum ljúffenga kjúklingarétti mælir Vinó með Pares Balta Blanc de Packs

Vínótek segir;

Cusine-fjölskyldan rekur einhverja víngerð Pénedes-héraðsins, Pares Balta,  suður af Barcelona og leggur áherslu á lífræna ræktun á þrúgurnar sem notaðar eru í vínin. Blanc de Pacs er eitt af einfaldari vínunum sem að þau framleiða en er engu að síður hið prýðilegasta hvítvín, framleitt úr katalónsku þrúgunum Parellada, Xarello og Macabeu. Vínið er ljósgult á lit, í angan þess gul epli, nokkuð þroskuð, sítrónubörkur, hálmur og hunang, nokkuð míneralískt. Það er þokkalega fersk, með mildri og þægilegri sýru. Þokkalegasta sumarvín.

1.999 krónur. Góð kaup.

Share Post