Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Pizzakvöld

Marta Rún ritar:

Það er hefð hjá mörgum íslendingum að gera heimagerða pizzu á föstudagskvöldum. Þegar ég geri pizzu langar mig að vera frumleg og prófa eitthvað nýtt. Síðastliðið föstudagskvöld bauð ég vinkonunum í pizzuveislu og útbjó þrjár ólíkar pizzur sem mig langar að deila með ykkur.

Það er þrennt sem ég sjaldnast breyti þegar ég útbý pizzu. Í fyrstalagi er það pizzudeigið en ég nota alltaf uppskrift eftir Jamie Oliver.

Í öðru lagi er það pizzusósan en hún er búin til úr heilum tómötum úr dós, vatnið sigtað frá og tómatarnir kreistir í höndunum í skál. Þessa aðferð lærði ég á Ítalíu þar sem yfirleitt er ekkert verið að flækja hlutina.


Og í þriðja lagi nota ég ferskan mozzarella ost sem er algjört lykilatriði.

Pizza með ferskum fíkjum, hráskinku og balsamik sýrópi

Pizzasósa og ferskur mozzarella ostur raðað á pizzuna ásamt sneiðum af ferskjum fíkjum og hráskinku. Síðan er balsamik sýrópi hellt yfir pizzuna og kryddað með svörtum pipar.

Með þessari pizzu mælir Vinó með Ramon Roqueta Reserva 

 

Pizza með humri, hvítlauk, chilliolíu og klettasalati

2-3 humarhalar er skornir í litla bita og settir í skál með ólífuolíu, 1 kreystum hvítlauksgeira og 1 msk af ferskri steinselju. Pizzusósa, ferskur mozzarella ostur og humarinn er settur á pizzuna ásamt chilliolíu. Þegar pizzan er tekin úr ofninum er klettasalati raðað yfir.

*ef þú átt ekki chilliolíu tekur það 5 mínútur að búa hana til. Þú hitar olíu í litlum potti á lágum hita með chilliflögum og lætur malla saman í nokkrar mínútur. Olían geymist í kæli í allt að mánuð. 250 ml olía á móti 2 msk af chilliflögum

Með þessari pizzu mælir Vinó með Ramon Roqueta Tempranillo 

 

Pizza með kjúkling, geitaosti, rósmarín og hunangi.

1 stk kjúklingabringa er skorin í litla bita og steikt á pönnu með salti, pipar og fersku rósmarín. Pizzasósunni er dreift yfir pizzuna ásamt ferskum mozzarella osti og klípu af ferskum geitaosti. Kjúklingnum er síðan raðað á pizzuna ásamt smá hunangi og svörtum pipar.

Með þessari pizzu mælir Vinó með Ramon Roqueta Garnacha 

 

Share Post