Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Páskalæri

Marta Rún frá Femme.is ritar

Það er hefð hjá mörgum íslendingum að bjóða uppá lambalæri á páskunum. Enda fátt betra en ljúffengur ilmurinn af íslensku lambakjöti og fá að njóta þess með góðu meðlæti og glasi af úrvalsgóðu víni.

Persónulega finnst mér betra að kaupa lambalærið ferskt og krydda það sjálf heldur en að kaupa læri í kryddlegi. Mér finnst líka að mareneringin eigi ekki að vera of bragðmikil heldur leyfa kjötinu að njóta sín og láta meðlætið og sósuna spila stórt.

Hráefni:
1 lambalæri – með eða án beini
1 sítróna
4-5 hvítlauksrif, söxuð
1 msk. ferskt rósmarín, saxað
1 msk. ólífuolía
1 tsk. gróft salt
1 tsk. svartur pipar

 

Aðferð:

Klappið lambið þurrt með eldhúsrúllu. Rífið börkinn af hálfri sítrónu og malið börkinn, hvítlauk, rósmarín, olíu, salt og pipar með því að nota mortel. Ef þið eigið ekki mortel getið þið saxað allt saman. Nuddið yfir allt lambið. Ef þú vilt láta það sitja á stofuhita þá er það gert í hálftíma eða svo, eða í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt.

Gott er að hafa gulrætur og rauðlauk með í fatinu til að gefa smá kraft ef þú ert að gera sósu og nota síðan sem meðlæti.

Best er að nota kjöthitamæli til að tryggja að bæði lærið verði hæfilega steikt.

Meðalsteikingartímar fyrir lambasteik við 160-180°C hita:
Mjög-lítið steikt, 20-25 mínútur fyrir hvern 500 g og kjarnahiti 45-50°C
Lítið steikt 25-30 mínútur fyrir hver 500 g og kjarnahiti 55-60°C
Meðal steikt 30-35 mínútur fyrir hver 500 g og kjarnahiti 60-65°C
Vel steikt 30-40 mínútur fyrir hver 500 g og kjarnahiti 70-75°C
Gegnsteikt 40-45 mínútur fyrir hver 500 g og kjarnahiti 75-80°C

Mér finnst skemmtilegast að bera lærið fram skorið í góða bita á borðið.

Salat

Salatblanda
Plómur
Ferskur Mozzarella rifinn yfir salatið
Ristaðar kasjúhnetur
Balsamic edik
salt&pipar

 

Sósa

500 ml matreiðslurjómi
1/2 g rifinn piparostur eða meira eftir smekk
2 hvítlaukrif söxuð
Hálf askja sveppir
Lúka af saxaðri steinselju
Soð frá lambinu
1 tsk á chillisultu (má sleppa en það gefur mjög gott aukabragð)

 

Aðferð: 

Smjörsteikið sveppina með hvítlauknum og smá salti. Skerið piparostinn í litla bita eða notið rifjárn og bætið í sveppina og hrærið aðeins saman þangað til osturinn er orðinn mjúkur. Bætið matreiðslurjómanum útí og hrærið saman við lágan hita. Bætið smá krafti af lambinu saman við og hrærið vel í sósunni.

Njótið með góðu glasi af úrvalsgóðu rauðvíni eins og Cune Reserva frá Rioja á Spáni. Silki mjúk tannín, lyng og krydd og smá vottur af eik. Yndislegt vín með lambakjöti.

Gleðilega páska!

Þessi grein er fengin með góðfúslegu leyfi frá Mörtu Rún á Femme.is

Share Post