Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Margaritu pizza á baquette brauði

Karen Guðmunds ritar:

Þetta er uppáhalds margaritu pizza á baquette brauði, en föstudagspizzan varð sunnudags baquette pizza þessa vikuna! Skemmtileg tilbreyting frá hefðbundinni pizzu sem er auðvelt, fljótlegt og ódýrt að gera. Hentar vel fyrir börn sem fullorðna.

Uppskrift fyrir: 4
Hráefni

 • 1 stórt baquette brauð
 • 1 tómatar í dós (ekki kryddaðir)
 • 1 poki af mozzarella osti
 • 1/2 bolli parmesan ostur, raspaður
 • Ferskt basil, eftir smekk
 • 2 – 3 tómatar, skornir í sneiðar (fer eftir stærð)
 • 3 msk. olífuolía
 • 3 hvítlauksrif
 • 1/2 tsk. oregano
 • 1/2 tsk. basilkrydd
 • 1/2 tsk. chilliflögur

Aðferð:

 1. Hitið ofnin á 180C.
 2. Skerið baquette brauðið í tvennt og síðan aftur í tvennt svo þið eruð með 4 brauðsneiðar allt í allt.
 3. Hitið olíu á pönnu á miðlungsháum hita. Bætið öllum kryddum á pönnuna (hvítlauk, oregano, basilkryddi og chilliflögum). Leyfið að eldast í um það bil 5 mínútur.
 4. Smyrjið kryddolíunni af pönnunni ofan á brauðið og komið fyrir á ofnplötu. Bakið við 180C í 5 mínútur inn í ofni á undir og yfir hita.
 5. Bætið við tómötum á sömu pönnu og leyfið að eldast á lágum hita í 10 mínútur.
 6. Þegar tómatsósan er tilbúin, setjið á brauðin ásamt mozzarella osti og sneiddum tómötum og bakið í 10 til 15 mínútur inn í ofni eða þar til brauðið er orðið vel krispý.  Ég setti grillið á ofnin síðustu 3-4 mínúturnar til að fá brauðið extra krispý.
 7. Takið úr ofninum, setjið ferskt basil á brauðin og raspið parmesan osti yfir.
 8. Njóttu!

Oftar en ekki fæ ég mér rauðvín með föstudagspizzunni en þar sem þetta var ekki hefðbundið pizzukvöld ákvað ég að breyta aðeins til og fá mér Saint Clair hvítvínið. Ég smakkaði Saint Clair hvítvínið í fyrsta skipti í síðustu viku og fannst það svo guðdómlega gott að mig langaði að hafa það aftur með kvöldmatnum, og það passaði virkilega vel með þessari baquette pizzu að mínu mati.

Með þessari Pizzu mæli Vínó með þessum vínum frá Saint Clair Vicar’s Choice Sauvignon Blanc 2016

Saint Clair Vicar‘s Choice Sauvignon Blanc 2016

Víngarðurinn segir;

„Saint Clair Vicar’s Choice Sauvignon Blanc hefur verið fastagestur í Víngarðinum undanfarin 5 ár og á þeim tíma hefur þetta ágæta vín fengið ***1/2 (2012) og **** (árgangarnir 2013 og 2015). Þessi nýjasti árgangur er við sama heygarðshornið og ég þykist vita að þetta vín á sér þónokkra aðdáendur hér á landi.

Það hefur ljósan, strágulan lit með grænni slikju og nokkuð opna angan af trópískum ávöxtum einsog passjón og guava í bland við kramið sólberjalauf rifs- og stikilsber, sítrónu, læm, aspas og greipaldin. Í munni er það ferskt með góða sýru, tiltölulega langan bragðprófíl og í fínasta jafnvægi. Þarna má finna sítrónu, gult greipaldin, rifs, stikilsber, passjón, græn kryddgrös og aspas. Lifandi og skemmtilegt hvítvín sem er flott með bökum, geitaosti, salötum, léttari fiskréttum, sushi og ljósu fuglakjöti.

Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup.“

Share Post