Marokkóskar kjötbollur með sætkartöflu & bulgur salati

 

Fyrir 3-4

 

Hráefni:

Ungnautahakk, 550 g

Brauðraspur, 20 g

Hvítlauksrif, 3 stk

Egg, 1 stk

Rúsínur, 20 g

Nautakraftur, 1 tsk / Oscar

Fetaostur í kryddlegi, 50 g

Kóríander, 10 g

Sæt kartafla, 500 g

Bulgur, 1,5 dl

Harissa, 1,5 tsk

Spínat, 50 g

Heslihnetuflögur 35 g / eða ristaðar möndluflögur

Þurrkuð trönuber, 35 g

Majónes, 70 ml / Japanskt helst

Sýrður rjómi 10%, 70 ml

Aðferð:

  • Stillið ofn á 180 °C með blæstri
  • Hrærið saman majónes og sýrðan rjóma. Pressið 1 hvítlauksrif og bætið helmingnum út í. Smakkið til með salti, pipar og meiri hvítlauk ef þarf. Geymið í kæli.
  • Saxið rúsínur og kóríander og pressið 2 hvítlauksrif. Setjið í skál ásamt ungnautahakki, brauðraspi, eggi, nautakraft, fetaost og 1-1,5 tsk af flögusalti. Notið hendurnar til að blanda öllu vel saman. Það er gott taka smá klípu af blöndunni og steikja á pönnu til þess að smakka og bæta við meira salti ef þess þarf.
  • Skerið sæta kartöflu í bita og veltið upp úr harissu, smá olíu og salti. Dreifið yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í miðjum ofni um 30 mín eða þar til kartöflurnar eru búnar að taka fallegan lit og eru mjúkar í gegn.
  • Eldið bulgur eftir leiðbeiningum á umbúðum.
  • Mótið 20 jafn stórar bollur úr kjötblöndunni og brúnið þær vel á öllum hliðum. Lækkið hitann svo aðeins á pönnunni og steikið bollurnar áfram þar til þær eru eldaðar í gegn.
  • Saxið spínat og setjið í skál ásamt sætum kartöflum, bulgur, heslihnetuflögum og trönuberjum. Blandið öllu vel saman og smakkið til með smá salti.
  • Berið fram marokkóskar kjötbollur með sætkartöflu og bulgur salati.

Vínó mælir með: Adobe Pinot Noir með þessum rétt.

Uppskrift og myndir:  Matur & Myndir