Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni


Kjúklinga Milanese með fersku klettasalati og hunangs sinnepssósu

Marta Rún ritar:

Stökkt kjúklinga milanese er oft gert með tómatsósu, pasta og mozzarella osti
en mig langaði að gera eitthvað ferskara og léttara en alveg jafn bragðgott.
Ég fann þá nokkrar hugmyndir af kjúklinga milanese með salati til hliðar.

Fyrir 2

Hráefni
2 Kjúklingabringur
1 Egg
Hveiti
Brauðrasp
1 Poki klettasalat
Blanda af tómötum
1 Sítróna
Ólífuolía

Dressing
Hér er hægt að nota dl grískt jógúrt, dl mæjónes eða dl sýrðan rjóma (ég notaði 50/50 mæjónes og sýrðan rjóma)
1 tsk eplaedik
1 msk sinnep
1 tsk hunang
Salt & pipar

Blandið öllu og smakkið til eftir smekk.

Aðferð
Taktu til þrjá diska, hrærðu saman egg í einum með smá salti og pipar, hveiti og brauðrasp í næsta, salt og pipar í þann þriðja.

Byrjið á því að skera kjúklingabringurnar í eins þunnar sneiðar og þú getur. Ættir að geta gert fjórar sneiðar á hverja bringu og svo getur þú sett smjörpappír á milli þeirra og barið þær aðeins niður í þunnar sneiðar.

Dýfið þeim í hveiti, síðan í egg og þar á eftir í brauðraspblönduna.

Setjið eins og 3 matskeiðar af olíu á pönnu og fáið pönnuna á miðlungs til háan hita.
Steikið kjúklingabringurnar á hvorri hlið þar til þær eru orðnar gullbrúnar á báðum hliðum og leggið síðan á grind eða á disk með eldhúsrúllu sem dregur í sig mestu fituna svo að kjúklingurinn verði stökkur og góður.

Kreistið sítrónu vel yfir kjúklinginn og berið fram með klettasalati sem er með tómötum, ólífuolíu og sítrónusafa.

Með þessum rétt mælir Vínó með Pares Balta Blanc de Pacs

Blanc de Pacs 2017

Vínótek segir;

Blanc de Pacs er hvítvín gert úr lífrænt ræktuðum þrúgum af ekrum Cusine-fjölskyldunnar í Pénedes í Katalóníu. Þetta er blanda úr þremur staðbundnum þrúgum, Parellada, Xarello og Macabeo sem einnig eru notaðar í Cava-vín svæðisins.

Blanc de Pacs breytist nokkuð í stílnum milli árganga, hann er mýkri og sítrusríkari, vínið er fölgult og í nefinu má finna límónu, sítrónu og sítrónubörk,hvít blóm og rósir, vínið er mjög ferskt, með þægilegri, mildri sýru, létt og lipur, míneralískt.

1.999 krónur. Frábær kaup. Með bleikju eða skelfiski, hvítum fiski með sítrónu.

Share Post