Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Ítalskur forréttur með freyðivíni

Marta Rún ritar:

Hér inná Vino.is má finna fjöldan allan af ítölskum uppskriftum og hér er því þægilegur og ótrúlega góður ítalskur forréttur til að drekka með góðu freyðivíni á meðan það er verið að undirbúa matinn.

Hráefni og aðferð

1 pakki grissini, ítalskar þurrkaðar brauðstangir
Hvítlauks Alioli
Hráskinka
Klettasalat

Smyrjið helminginn af einni sneið af hráskinkunni af aioli og nokkrum laufum af klettasalati og rúllið þétt ofarlega á brauðstöngunum í hring og raðið á bretti.

Sólþurrkaðir tómatar
1 eggaldin
Parmesan ostur
Fersk basilika
Ólífu olía
Salt & pipar

Skerið eggaldin í 1 cm sneiðar og síðan í helmings eins og hálfmána. Steikið á pönnu með olíu, salti og pipar þangað til það er orðið gullbrúnt og mjúkt.
Raðið á bretti með einni sneið af sólþurrkuðum tómati, basilíkulaufi og sneið af parmesan osti og smá af svörtum pipar.

Á sama bretti er einnig alltaf hægt að hafa fleiri tegundir af skinku og ostum ef það eru fleiri að borða.

Með þessum rétt mælir Vínó með Mont Marcal Brut Reserva freyðvíni

Mont Marçal Cava Brut Reserva

 

Víngarðurinn Vín og Fleira segir;

Það er fátt skemmtilegra en að súpa vín með búbblum og vilji menn ekki borga svimandi upphæðir fyrir kolsýruna þá eru spænsku freyðvínin sem kölluð eru Cava, mörg hver góður kostur. Þau eru gerð á nákvæmlega sama hátt og kampavín þótt þrúgurnar séu oftar en ekki aðrar (núna má reyndar gera Cava úr 100% Chardonnay og Pinot Noir eða blöndu úr þeim tveimur svo sum Cava-vín eru vissulega gerð úr sömu þrúgum, en flestir framleiðendur kjósa frekar að nota þau til blöndunar við hefðbundnar Cava-þrúgur þótt margir geri það reyndar ekki.) Þetta ágæta vín hefur ljósan, strágulan lit og meðalopna angan af sítrónum, eplum, hvítum blómum, steinefnum og kertum. Nokkuð hefðbundinn ilmur. Í munni er það þurrt með góða sýru (bæði úr ávexti og úr gerjuninni), meðalbragðmikið og vel byggt með ágæta lengd. Þarna rekst maður á brögð einsog sítrónu, peru, soðin gul epli og steinefni. Vel gert og frískandi freyðivín sem er gott eitt og sér en hefur alveg byggingu sem þolir allskonar puttamat og forrétti.

Verð kr. 1.999.- Frábær kaup.

Share Post