Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni


Hvernig á að setja saman fullkominn ostabakka?

Marta Rún ritar:

Í þessu efnum eru engar reglur sem þarf að fylgja en hér eru nokkur góð ráð þegar búa á til hinn fullkomna ostabakka fyrir veisluna,
partýið eða kósýkvöldið!

Mismunandi áferð- Það er sniðugt að velja osta með mismunandi áferð, t.d. harðan, mjúkan og milli mjúkan. Primadonna, Parmesan og Manchego ostur eru dæmi um harða osta. Camenbert, geitaostur eða ostar með rjómablöndu eru dæmi um mjúka osta og Gouda, blámygluostur eða einhvers konar ostur með kryddblöndu eru milli mjúkir ostar.

Stökkt – Það er alltaf gott að hafa eitthvað stökkt með, kex eða hnetur. (mæli ekki með að velja saltað kex því það getur breytt bragðinu á ostinum).

Sætt – Ferskir ávextir, sulta eða þurrkaðir ávextir passa vel með flestum ostum.

Kjöt – Gott getur verið að hafa tvær tegundir af kjöti. Til dæmis eina krydd pulsu og eina tegund af skinku eða salami.

Svo er bara um að gera að nota ímyndunaraflið. Rúlla til dæmis hrá skinku uppá kex stangir, bjóða uppá ólífur, fetaost eða hvað sem þér dettur í hug. Mjög gott að blanda saman peru, gráðosti og hráskinku. Líka hægt að setja sultu yfir ostinn eða bara beint á bakkann. Það er um að gera að prófa sig áfram og hafa frekar mikið af hverju á bakkanum, það gerir hann fallegri á að líta og girnilegri.

Með góðum ostabakka mælum við hjá Vínó með Ramon Roqueta Garnacha

Ramon Roqueta Garnacha

Vínótek segir;

Einhver bestu kaupin í hilllum vínbúðana undanfarin ár hefur verið Ramon Roqueta Reservan sem er blandað úr Tempranillo og Cabernet Sauvignon og svo því sé haldið til haga þá fékk árgangurinn 2010 þrjár og hálfa stjörnu hérna í Víngarðinum á sínum tíma, en árgangarnir 2012, 2013 og 2014 allir fjórar stjörnur.  Sé það tekið með í reikninginn að vínið er undir tvöþúsund krónum þá hljóta það að teljast ein öruggustu og bestu kaupin á Íslandi.

Þetta vín er hinsvegar lagað úr þrúgunni Garnacha (sama þrúga og hin franska Grenache) og kemur frá Katalóníu, rétt einsog hin vínin frá Ramon Roqueta.  Það hefur meðaldjúpan, kirsuberjarauðan lit og ríflega meðalopna angan sem er afar dæmigerð fyrir Garnacha; kirsuber, hindber og jarðarber, fylltur lakkrís og Mon Chéri-molar í bland við létt-reykta viðar- eða jarðartóna.  Það er rétt ríflega meðalbragðmikið í munni með fína sýru og sætan og svolítið alkóhólríkan grunn.  Þarna eru kirsuber, hindber, Mon Chéri-molar, lakkrískonfekt, karamella og kryddgrös.  Fínasta hversdagsvín en auðvitað ekkert tiltakanlega fínlegt, þrúgan og aldurinn bera það einhvernvegin með sér, en er prýðlegt með allskonar bragðmeiri hversdagsmat, pottréttum, pasta, grilli og pítsum.

Verð kr. 1.899.- Mjög góð kaup.

Share Post